Fyllt eggaldin með quinoa og tahini sósu

Pabbi stakk upp á því að við myndum prófa að gera fyllt eggaldin og úr varð þessi næringarríka, holla og dásamlega bragðgóða uppskrift. Eggaldin er ekki allra en ég vil meina að það stafi af því hvað við Íslendingar kunnum takmarkað að matreiða það. Eftir að ég fór til Búdapest 2019 og smakkaði Baba ganoush (hugsið hummus nema bakað eggaldin í stað kjúklingabauna) þá varð eggaldin töfrahráefni í mínum huga. Svo skemmir ekki fyrir hvað það er bráðhollt: ríkt af járni, kalki og trefjum.

Uppskriftin er að sjálfsögðu glútenlaus og er aðaluppistaðan kínóa (quinoa), eitt hollasta korn sem völ er á og sannkölluð ofurfæða. Kínóa er mikið notað í hvers kyns matargerð og virkar það vel sem meðlæti (líkt og hrísgrjón) eða hreinlega sem uppistaða í máltíð vegna þess hve næringarríkt það er. Kínóa er verulega prótínríkt en það inniheldur 12-18% prótín og allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar – það flokkast því sem fullkomið prótín. Kínóa hentar einnig vel þeim sem eru með glúteinóþol því það er glúteinlaust. Þar að auki er það ríkt af steinefnum og vítamínum. Kínóa hefur um 15-20 mín suðutíma en mikilvægt er að skola kornin áður en þau eru soðin til að losna við biturt bragð af húðinni. Kínóa dregur í sig mikið vatn við suðu svo mikilvægt er að fylgjast vel með og bæta við vökva eftir þörfum.

Dúnmjúk tahini sósa (sama og ég nota hér) ásamt granateplafræjum fullkomna svo réttinn. Uppskriftin er í raun ótrúlega einföld en útkoman myndi sóma sér vel á fínum veitingastað.

Verði ykkur að góðu!

Prenta uppskrift

Hráefni (fyrir um 4-6)

Bökuð eggaldin:

  • 4 eggaldin
  • 2 tsk. salt
  • 2 msk. ólífuolía

Fylling:

  • 2 dl kínóa
  • 1 grænmetisteningur
  • 2 dósir kjúklingabaunir
  • 2 tómatar
  • 1 rauðlaukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 15 g fersk steinselja
  • 10 g ferskt kóríander
  • 4 msk. ólífuolía
  • 2 msk. sítrónusafi
  • 1 msk. cumin
  • flögusalt, eftir smekk
  • svartur pipar, eftir smekk

Tahini sósa:

  • 1 dl ljóst tahini
  • 1 dl kalt vatn
  • 1 hvítlauksrif
  • 4 msk. sítrónusafi
  • 1 tsk. hlynsýróp
  • 1/2 tsk. salt
  • 1 granatepli

Aðferð:

Eggaldin:

  • Skerið eggaldinin í tvennt og nuddið salti á þau. Látið þau standa í um 15-20 mín (þetta lætur þau bragðast betur og dregur beiskleikann úr).

  • Nú ætti vökvi að hafa safnast upp á yfirborðinu. Strjúkið hann af með klút/pappír og dreifið ólífuolíu yfir.

  • Raðið helmingunum á ofnplötu þannig að skurðurinn snúi upp. Bakið við 180° í 40 mín.

Fylling:

  • Skolið kínóað vel. Setjið það í pott ásamt 3-4 dl af vatni og grænmetistening.

  • Sjóðið í um 20 mín eða þar til kínóað er orðið mjúkt. Bætið vatni við ef þarf en þegar kínóað er tilbúið á allt vatnið að vera farið og kínóið klessist saman.

  • Skolið kjúklingabaunirnar og blandið þeim saman við kínóað í stórri skál.

  • Skerið niður tómata og rauðlauk. Pressið hvítlauk og saxið fersku kryddjurtirnar.

  • Blandið grænmetinu, fersku kryddunum, ólífuolíu, sítrónusafa og cumin saman við kínóað og kjúklingabaunirnar.

  • Smakkið til með salti og pipar.

Tahini sósa:

  • Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið þar til úr verður silkimjúk sósa (mæli með að nota töfrasprota eða blandara).

  • Smakkið til og bætið við sítrónusafa, hlynsýrópi eða salti eftir smekk.

Samsetning:

  • Náið fræjunum úr granateplinu og setjið í skál.

  • Þegar eggaldinið er bakað er innihaldið stappað saman með gaffli. Því næst er fyllingin sett ofan á, tahini-sósunni dreift yfir og loks toppað með granateplafræjum.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift