Að gerast grænkeri

Hér eru 7 atriði sem gott er að hafa í huga fyrir grænkera og þá sem hafa áhuga á að gerast grænkerar.

1. Hvers vegna

Vegan eða grænkeri er hugtak sem er notað yfir þá sem kjósa sér lífstíl án dýraafurða. Hugmyndafræði veganisma snýst um að fólk hafi ekki siðferðislegan rétt til að nýta dýr sér til matar, klæðnaðar, skemmtunar eða annars. Þegar ég varð vegan fannst mér gott að átta mig á því hvaða ástæður ég hefði fyrir þessari ákvörðun og gat þannig minnt sjálfa mig reglulega á það.

Almennt er talað um þrjár meginástæður fyrir því að fólk gerist vegan. Þær eru dýravernd, umhverfisvernd og heilsa. Dýraverndunarsjónarmiðin eru þau sem vega gjarnan þyngst og telja grænkerar að dýr hafi rétt á að lifa og að komið sé vel fram við þau. Þannig vilja grænkerar umbylta þeirri hugmynd að dýr séu hér á jörðinni sem fæði, klæði eða skemmtun fyrir okkur mennina. Umhverfissjónarmiðin hafa náð hraðri útbreiðslu undanfarið samhliða aukinni umfjöllun um umhverfisvandann sem nú steðjar að heiminum. Kjötiðnaðurinn er gríðarlega mengandi og er því til mikils að vinna í umhverfisvernd með minni neyslu dýraafurða. Til að rækta öll þau dýr sem enda á diskum manna þarf gríðarlegt magn matar og vatns. Til að fæða öll þessi dýr þarf heilmikið landsvæði og þar að auki eru skógar gjarnan felldir til að framleiða dýrafóður sem losar enn meiri koldíoxíð. Síðast en ekki síst losa dýrin metan sem er margfalt virkari gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð. Þriðja atriðið er heilsa en neysla dýraafurða hefur m.a. verið tengd við áunna sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma og krabbamein. Margs konar heilsufarslegur ávinningur getur hlotist af því að borða fjölbreytt plöntumiðað fæði og kýs til dæmis íþróttafólk í síauknum mæli að gerast vegan.

Til að fræðast meira um þessi þrjú atriði mæli ég með heimildarmyndunum Earthlings eða Dominion (dýravernd), Cowspiracy (umhverfisvernd) og What the Health eða Forks Over Knives (heilsa). Mér finnst gott að lesa mér reglulega til um veganisma, horfa á heimildamyndir eða fylgjast með dýrum sem hefur verið bjargað því þannig fræðist ég meira um veganisma auk þess sem það styrkir mig í þeirri skoðun að ég sé að gera rétt.

2. Enginn er fullkominn

Veganismi snýst ekki um að vera fullkominn. Veganismi snýst um að gera sitt besta og læra af reynslunni. Ég get ekki talið hversu oft ég hef óvart keypt eitthvað sem inniheldur dýraafurðir. Mánuðina eftir að ég varð vegan þá borðaði ég stundum uppáhalds súkkulaðið mitt sem innihélt mjólkurduft og stalst stundum í einn bita af gúmmíi hjá systkinum mínum. Með tímanum fækkaði þessum skiptum og mig fór að langa minna í svona mat. Á hverjum degi reyni ég mitt besta til að valda sem minnstum skaða og læri af mistökunum mínum. Þegar fólk er að taka sín fyrstu skref inn í heim veganisma er því mikilvægt að setja markið ekki of hátt í byrjun heldur reyna bara að gera sitt besta. Það er jú vissulega betra að vera “næstum því vegan” alla ævi heldur en að reyna að vera fullkomlega vegan og endast bara í mánuð.

3. Mennt er máttur

Gríðarlega mikilvægt er að kynna sér staðreyndir og hugmyndafræði veganisma. Enn er talsvert um fordóma gagnvart veganisma og ýmsar lífseigar mýtur sem erfitt er að útrýma, sama hversu oft þær eru afsannaðar. Sjálf fæ ég reglulega spurningar um veganisma og er gott að geta upplýst fólk um ástæðurnar sem liggja að baki þessari ákvörðun minni. Að sama skapi hef ég svo sannarlega fengið holskeflu af fordómum, misheppnuðum bröndurum og dónalegum spurningum. Þá er ekkert betra en að hafa fræðst vel um veganisma, dýravernd, umhverfisáhrif kjötiðnaðarins og heilsufarslegan ávinning af grænkerafæði. Það er nefnilega þannig að flest rök gegn veganisma byggja á fáfræði. Það er ekki að undra að margir skilji ekki málefni grænkera þar sem slík fræðsla hefur rétt nýlega byrjað að ná útbreiðslu. Því er einnig mikilvægt að sýna öðrum skilning og muna að einhvern tímann (jafnvel fyrir ekki svo löngu) var maður sjálfur á sama stað.

4. Lærðu af öðrum

Ég er stöðugt að læra af öðrum grænkerum og finnst mér gaman að fylgjast með ýmsum grænkerum á netinu. Sumir hafa verið vegan í mörg ár og eru þannig að miðla af langri reynslu en aðrir eru að feta sín fyrstu skref. Fyrir byrjendur í vegansima, jafnt sem aðra, er verulega gagnlegt að geta lært af þeim sem eru í sama pakka auk þess sem það er góð tilfinning að finna fyrir stuðningi frá öðrum. Það getur verið gagnlegt að útvega sér matreiðslubækur eða skoða uppskriftasíður með girnilegum grænmetisréttum sem hjálpa til við matseld. Einnig er sniðugt að fylgjast með öðrum grænkerum á Instagram og skoða þar matarmyndir eða uppskriftir. Vegan samfélagið á Íslandi mjög sterkt og mæli ég t.d. með hópnum Vegan Ísland á Facebook. Á Youtube má síðan finna ótalmörg myndbönd frá grænkerum sem eru að elda, fjalla um dýravernd, ræða um heilsu og íþróttir eða miðla reynslu sinni.

Best er þó að hafa stuðning frá maka, vini eða fjölskyldumeðlim en það er auðveldara að gerast grænkeri ef einhver tekur skrefið með manni. Ef slíkur stuðningur er ekki til staðar mæli ég t.d. með vefsíðunni challange22.com en þar er hægt að taka þátt í 22ja daga vegan áskorun. Áskorunin er ókeypis en henni fylgja ótalmargar upplýsingar, leiðbeiningar og fræðsla frá fagfólki. Einnig bendi ég á átakið Veganúar þar sem fólk er hvatt til að gerast vegan í janúar.

5. Viðbrögð annarra

Eitt af því erfiðara við að gerast grænkeri eru viðbrögð annarra. Ekki taka það nærri þér ef fjölskyldan eða kunningjar fussa og sveia yfir þessari ákvörðun. Á endanum mun þeim snúast hugur eða, að minnsta kosti, fá leið á að gagnrýna lífsstíl þinn. Skoðanir annarra ættu ekki að hindra neinn í að gerast vegan en gera það því miður stundum.

Viðhorfin eru þó að breytast hratt og eru sífellt fleiri forvitnari og jákvæðari gagnvart veganisma. Gott er að geta leitað til vegan samfélagsins og fengið þar þann stuðning sem kannski skortir frá nánasta umhverfi. Margir grænkerar hafa reynslu af fordómum frá fjölskyldu eða vinum og getur verið gott að finna að aðrir hafi svipaða sögu að segja. Mundu bara að það að vera vegan er ekki eitthvað til að skammast sín fyrir heldur þvert á móti. Grænkerar ættu að vera stoltir yfir að hafa náð þessum árangri en það að breyta venjum sem flestum hafa verið innrættar frá barnsaldri er ekki sjálfsagt mál.

6. Þú hefur áhrif

Mundu að þú ert mikilvægur hlekkur í einhverri stærstu réttlætisbaráttu heims. Ég hef margoft heyrt að það breyti engu fyrir heiminn að ég sé vegan en það er fátt sem ég er meira ósammála. Allar réttindabaráttur hefjast nefnilega með einni manneskju. Eftir að ég varð vegan ákváðu foreldrar mínir að borða ekkert kjöt, egg eða mjólkurvörur, margir vinir mínir hafa tekið skref í átt að veganisma og kunningjar eða ókunnugt fólk sýnir matnum mínum áhuga og sér kannski að grænkerafæði er ekki bara þurrt salat. Þannig getur ein manneskja haft gríðarleg áhrif á umhverfi sitt. Ef allir hugsuðu svo að þeir skiptu ekki máli þá myndi ansi fátt ávinnast í heiminum.

7. Ekki gefast upp

Það að gerast grænkeri tekur oftast tíma og ekki margir sem verða vegan á einu kvöldi. Það getur verið erfitt að breyta um lífsstíl og eru fyrstu vikurnar kannski ruglingslegar með tímafrekum verslunarferðum og tilheyrandi pirringi yfir því að það sé mjólkurduft í öllu. Eftir nokkurn tíma mun hins vegar ekkert vera eðlilegra og verður undarlegt að hugsa til þess að maður hafi áður verslað í kjötdeildinni. Mín reynsla er sú að fyrstu 2-3 vikurnar voru nokkuð flóknar enda gerðist ég nánast vegan á einu kvöldi. Mér var úthlutað vegan hillu í ísskápnum og reyndu foreldrar mínir sitt besta til að elda vegan útgáfu af kvöldverðinum fyrir mig. Nú, þremur árum seinna hefur dæmið snúist við og er ein hilla fyrir dýraafurðir í ísskáp heimilisins, sem á reyndar undir verulegt högg að sækja. Þegar ég versla þá strunsa ég rakleitt úr grænmetisdeildinni yfir í vegan mjólkukælinn og veit nákvæmlega hvaða vörur ég get keypt. Það er undantekning ef ég tek eftir kjöti eða dýraafurðum þegar ég versla. Það að vera vegan er orðið mér eðlislægt og líður mér ekki eins og ég sé að missa af neinu heldur þvert á móti. Að verða vegan er besta ákvörðun sem ég hef nokkurntímann tekið.

Eins og áður kom fram þá er enginn fullkominn og er því mikilvægt að láta bakslag ekki á sig fá. Í öllum lífsstílsbreytingum kemur fyrir að manni mistekst. Þá er mikilvægt að standa upp, minna sig á hvers vegna maður tók þessa ákvörðun og halda svo ótrauður áfram.

Leave a comment

Your email address will not be published.

Fyrri færsla Næsta færsla