Bláberjapæ með hnetubotni

Ég ákvað að láta loksins verða af því að birta eina af mínum uppáhalds kökuuppskriftum en jafnframt þá allra hollustu. Ég held að fólk mikli oft aðeins fyrir sér að gera svona kökur en í raun eru þær svo ótrúlega einfaldar því öllu er skellt í blandara/matvinnsluvél og sjálf vinnan er í raun bara að skammta hráefni og borða afraksturinn. Mér finnst helsti kosturinn við svona hollustukökur einmitt sá hvað það er erfitt að klúðra þeim.

Ég gerði bláberjapæjurnar í litlum sílíkon muffinsformum og dugar uppskriftin í um 16 slíkar pæjur. Vel má hins vegar í staðinn gera eina stóra eða tvær miðlungsstórar pæjur í smelluformi.

Botninn samanstendur aðallega af hnetum, döðlum og kakódufti en fyllingin inniheldur meðal annars bláber og jarðarber, kasjúhnetur, acai duft, chia og kókosmjólk. Fyllingin er dásamlega mjúk og passar fullkomlega með stökkum botninum. Ég notaði ofurduftin Plant Collagen og Forever Beautiful frá Your Super en ég á þau alltaf til og fannst svo tilvalið að bæta þeim í fyllinguna. Það má þó alveg sleppa þeim eða skipta út fyrir t.d. Acai duft og Lucuma.

Verði ykkur að góðu!

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Tropic.is

Prenta uppskrift

Hráefni:

Botn:

  • 4 dl möndlur
  • 2 dl valhnetur
  • 2-3 dl mjúkar döðlur
  • 1 msk. kókosolía, bráðin
  • 2 dl kakó
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1/4 tsk. salt

Fylling:

  • 2 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti (ef tími gefst)
  • 1/2 dl chia fræ
  • 6 dl frosin ber, t.d. bláber og jarðarber
  • 1 dl hlynsýróp
  • 1/2 dl sítrónusafi
  • 1,5 dl kókosolía, bragð- og lyktarlaus
  • 3 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn
  • 2 msk. Forever Beautiful, má sleppa og nota 1 msk. aukalega af chia fræjum
  • 1 msk. Plant Collagen, má sleppa
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1/4 tsk. salt

Aðferð:

Botn:

  • Hitið ofninn í 150°C blástur.

  • Setjið hneturnar í matvinnsluvél og grófmalið.

  • Hreinsið steinana úr döðlunum og setjið þær í matvinnsluvél ásamt hnetunum og restinni af hráefnunum. Blandið í 1-2 mín eða þar til deigið helst vel saman. Ef það molnar enn mæli ég með að blanda lengur og jafnvel bæta við 1-2 tsk. af vatni.

  • Þrýstið deiginu í botn og hliðar á því formi sem þið viljið nota. Ég notaði sílikon muffinsform en vel má nota 1 stórt eða 2 miðlungsstór smelluform.

  • Bakið nú í 20-30 mín og leggið svo til hliðar og leyfið að kólna.

Fylling:

  • Meðan botninn bakast er fyllingin útbúin.

  • Ef tími gefst er best að leyfa kasjúhnetunum að liggja í bleyti í 1-2 klst. Ef ekki er tími sleppur það með góðum blandara.

  • Leyfið einnig berjunum að þiðna við stofuhita ef tími gefst en annars má þýða þau í potti með loki á mjög lágum hita (hrærið reglulega).

  • Setjið nú chia fræin í blandara og malið þar til fíngert chia mjöl hefur myndast.

  • Bætið kókosmjólk í dós (þykka hlutanum), kasjúhnetunum, sítrónusafa og hlynsýrópi saman við og blandið lengi.

  • Bætið berjunum saman við ásamt restinni af hráefnunum. Blandið í 3-5 mín og skafið hliðar á milli. Fyllingin á að vera silkimjúk.

  • Hellið nú fyllingunni ofan á botninn og kælið eða frystið þar til fyllingin hefur stífnað (um 20-30 mín í frysti fyrir muffins en 1-2 klst fyrir stóra köku).

  • Berið fram með ferskum berjum og vegan rjóma.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift