Hvers vegan ekki?

Þeim sem kjósa sér lífstíl án dýraafurða fjölgar sífellt en hugtökin grænkeri eða vegan eru oftast notuð yfir þá einstaklinga. Grunnurinn í hugmyndafræði veganisma snýst um að menn hafi ekki siðferðislegan rétt til að nýta sér dýr – hvorki til matar, klæðnaðar, skemmtunar eða annars.

Margvíslegar ástæður eru fyrir því að fólk kýs að breyta fyrri venjum og tileinka sér þennan nýja lífsstíl en þar má helst nefna þrjár: Dýravernd, umhverfisvernd og heilsu. Dýraverndunarsjónarmiðin, eða siðferðislegu rökin, eru oft veigamikil í þessum ákvörðunum en grænkerar telja að dýr hafi rétt á að lifa og að komið sé vel fram við þau. Á seinustu áratugum, samhliða vitundarvakningu um loftslagsbreytingar af mannavöldum, hafa umhverfisjónarmiðin fengið meiri athygli. Dýraafurðaiðnaðurinn losar mikið magn gróðurhúsalofttegunda og telja margir að ein besta leiðin fyrir einstaklinga til að minnka kolefnisspor sitt sé að breyta yfir í grænkerafæði. Að lokum má nefna heilsufarssjónarmiðið en ýmiss konar heilsufarslegur ávinningur getur fylgt því að borða fjölbreytt plöntufæði. Sífellt fleiri kjósa því að gerast grænkerar heilsunnar vegna og má þar einnig nefna íþróttafólk sem vill bæta árangur sinn. Einnig hefur neysla dýraafurða m.a. verið tengd við hjarta- og æðasjúkdóma, áunna sykursýki og krabbamein en í samfélagi þar sem lífsstílstengdir sjúkdómar draga fleiri til dauða en hungursneyð má rökstyðja að mataræði þurfi að breytast.

Umfjöllun um veganisma hefur aukist, sem og þau jákvæðu áhrif sem plöntumiðað mataræði getur haft. Fjölbreytt úrval er af vegan matvörum í matvöruverslunum og eykst með hverju árinu. Af ofangreindu mætti auðveldlega álykta að vegan mataræði væri almennara en raun ber vitni og því er vert að spyrja: „hvers vegan ekki?“

Í fyrsta lagi ber að nefna hefðir, en hefðir og venjur eru eflaust ein stærsta hindrunin fyrir því að fólk skipti yfir í plöntufæði. Hefðir eru okkur mikilvægar og færi samfélagið fljótt á hliðina ef öllum hefðum væri skyndilega kollvarpað. Hefðir eru þó ekki heilagar og mörg framfaraskref hafa einmitt átt sér stað við breytingu á hefðum enda eru ekki allar hefðir af hinu góða. Hefðir geta sem betur fer tekið breytingum og þegar nýjar upplýsingar koma fram er oftast hægt að skapa aðrar og jafnvel betri hefðir. Önnur hugsun af svipuðum meiði er oft rökstudd með orðum eins og „við höfum alltaf borðað kjöt“ en slík rök eru algeng þegar talið berst að veganisma og ber ekki að gera lítið úr slíkum hugsunarhætti. Neysla dýraafurða var Íslendingum nauðsynleg hér áður fyrr og er ekki ætlunin að draga úr mikilvægi lambakjöts eða fisks fyrir afkomu þjóðarinnar. Hins vegar breytast tímarnir og samfélagið með. Lifnaðarhættir Íslendinga í dag eiga fátt sameiginlegt með daglegu lífi á tímum landnáms og viljum við fæst tileinka okkur lífsstíl eða mataræði langömmu og langafa. Í dag getum við skroppið í næstu matvöruverslun og fyllt ísskápinn af ýmiss konar matvöru frá öllum heimshornum. Samfélagsgerð fyrri tíma segir ekki til um hvernig best er að lifa í dag.

Önnur algeng fyrirstaða þess að fólk taki upp plöntumiðað fæði er sú hugmynd að kjöt eða dýraafurðir séu manninum nauðsynlegar. Ein röksemd þess er sú mýta að kjöt sé eina prótínríka fæðutegundin. Slíkt er fjarri sanni og er sáraeinfalt að fá nægt prótín út plönturíkinu. Sumir nefna að ekki sé hægt að fá allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar í réttum hlutföllum í einni fæðutegund öðruvísi en með kjötáti. Með því að borða fjölbreytt plöntufæði daglega er einfalt að ná öllum lífsnauðsynlegu amínósýrunum inn í mataræðið. Talsmenn mjólkuriðnaðarins hafa sannfært neytendur um að nauðsynlegt sé að neyta mjólkurafurða til að fá kalk. Slíkt á sér þó ekki stoð í raunveruleikanum og er mikið magn af kalki að fá úr plönturíkinu, t.d. úr dökkgrænu grænmeti. Eitt næringarefni er þó ekki hægt að fá í nægu magni beint úr plöntufæði og þarf því að taka inn sem fæðubótarefni en það er B12 vítamín. Mjög auðvelt er að bæta úr þessu og margir grænkerar taka B12 vítamín en einnig er B12 vítamíni bætt í margar matvörur. Mikilvægt er að allir passi upp á magn B12 vítamíns í fæðunni því B12 skortur er algengur, óháð mataræði, og tengist oftar skertri upptöku frekar en samsetningu fæðisins.

Algengt er að fólk beri það fyrir sig að einstaklingsframtakið skipti svo litlu að það breyti í raun engu að gerast grænkeri, hvort sem um er að ræða umhverfismál eða dýravernd. Vissulega getur ein manneskja ekki valdið loftslagsbreytingum með kjötáti en þegar hundruðir milljóna manna byggja fæðu sína á dýraafurðum fara afleiðingarnar að hafa áhrif. Ekki er heldur hægt að gera einstaklinga ábyrga fyrir þeirri meðferð sem tíðkast oft á dýrum í matvælaiðnaðinum en þegar eftirspurn er eftir ódýrum dýraafurðum svarar markaðurinn með aðferðum sem fæstum okkar þykja boðlegar dýrum. Með því að taka ábyrgð og breyta um lífsstíl getur ein manneskja ekki einungis minnkað eigið kolefnisspor og lifað lífi sem veldur minni þjáningu dýra, heldur er sennilegt að slík breyting hafi áhrif á nærumhverfið og hvetji aðra með beinum eða óbeinum hætti til að minnka sína neyslu. Ef allir teldu að gjörðir þeirra skiptu ekki máli myndi fátt ávinnast í heiminum en með því að gerast grænkeri getur maður tekið beinan þátt í einhverri stærstu réttlætis- og umhverfisbaráttu okkar tíma.

Hér hafa verið taldar upp þrjár algengar hindranir þess að fólk breyti yfir plöntufæði eða vegan lífsstíl en vandinn er að sjálfsögðu flóknari og fyrirstöðurnar fleiri. Hins vegar er mikilvægt að fólk átti sig á eigin skoðunum, fordómum og hugsunarhætti og geti þannig metið hvað er réttmætt og hvað ekki. Að gerast vegan er ekki léttvæg eða einföld ákvörðun en sú ákvörðun verður auðveldari með hverjum degi samhliða aukinni umfjöllun, minni fordómum og bættu vöruúrvali enda fjölgar sífellt í félagi grænkera. Ég legg til að lesendur spyrji sjálfa sig „hvers vegan ekki?“

Slagorðið “Hvers vegan ekki” er upprunnið frá Samtökum grænkera.

Grein eftir Þórdísi Ólöfu Sigurjónsdóttur
Ljósmynd eftir Aron Gauta Sigurðarson

2 Comments

  • Arna

    11/05/2019 at 10:37 pm

    Það væri skemmtilegt að taka það fram í þessari grein að “Hvers vegan ekki” er slagorðið sem Samtök grænkera hafa notað undanfarin ár og gert boli með þessu slagorði fyrir Veganúar.

    1. Grænkerar

      11/06/2019 at 1:14 am

      Engin spurning! Hélt það væri orðið svo frægt að það þyrfti ekki en bæti því að sjálfsögðu inn, betra að hafa þetta skýrt 🙂

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri færsla Næsta færsla