Poke skál með vegan teriyaki kjúkling

Poke skál er eins konar ósamsett sushi. Í stað þess að rúlla hráefnunum upp í lengju og skera í bita er hráefnunum raðað í skál og niðurstaðan er dásamleg! Poke skál gefur okkur þannig svipaðan bragðprófíl og sushi en er miklu einfaldari í gerð og hollari þar sem hlutfall og fjölbreytni grænmetis er talsvert meiri.

Í mína poke skál setti ég sushihrísgrjón í grunninn. Vel má nota önnur hrísgrjón eins og basmati en sushi hrísgrjónin gefa talsvert skemmtilegra bragð í skálina. Næst var ég með úrval af skornu grænmeti: ferskt rauðkál, gúrku, gulrætur, papriku, avókadó og svo skorið mangó. Önnur góð hráefni eru t.d. ferskt salat, kirsuberjatómatar, pikklaður rauðlaukur, radísur, vorlaukur og ferskt kóríander.

Mikilvægt hráefni eru edamame baunir (ég keypti frosnar í Krónunni – mæli með að kaupa þær sem eru ekki í sekk/hýði heldur þær sem koma alveg tilbúnar fyrir skálina). Þær eru gríðarlega hollar og prótínríkar en þær innihalda allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar. Stjarnan er svo vegan kjúklingur frá Ellu Stínu (glúten- og sojalaus sem hentar vel þeim sem eru með óþol eða ofnæmi) sem er eldaður í klístraðri teriyaki sósu.

Skálin er loks toppuð með heimagerðri chili-mæjó sósu sem er sérhönnuð til að setja punktinn yfir i-ið á skálinni. Mér finnst best að elda nógu stóra uppskrift og eiga hráefnin til í boxum inni í ísskáp fyrir nesti næstu daga.

Prenta uppskrift

Hráefni (fyrir 4):

Vegan teriyaki kjúklingur:

  • 2 pakkar vegan kjúklingur Ellu Stínu, 280 g
  • 1 dl soja sósa
  • 1 msk. hrísgrjónaedik
  • 1 tsk. sesamolía
  • 1/2 dl hlynsýróp, eða púðursykur
  • 1/2 dl vatn
  • 2-3 tsk. maísmjöl
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 tsk. rifið engifer

Sushi hrísgrjón:

  • 2 dl sushi grjón
  • 3 dl vatn
  • 1/2 dl hrísgrjónaedik
  • 2 msk. sykur
  • 1 tsk. salt

Chili mæjó:

  • 100 g vegan mæjónes
  • 1-2 msk. sriracha sósa, eða eftir smekk
  • 2 tsk. sojasósa
  • 1 msk. hrísgrjónaedik
  • 1 tsk. sesamolía
  • safi úr 1/2 lime

Hugmynd að samsetningu:

  • 1/4 rauðkálshaus, skorið í þunna strimla
  • 4 stórar gulrætur, skornar í borða með flysjara eða ostaskera
  • 1/2 gúrka, skorin í lengjur
  • 1/2 paprika, skorin í lengjur
  • 1 mangó, skorið í teninga
  • 1/2 pakki frosnar edamame baunir, 150 g
  • 2 avókadó, skorin í teninga
  • 2 msk. sesamfræ

Aðferð:

Vegan teriyaki kjúklingur:

  • Leyfið vegan kjúklingnum að þiðna.

  • Blandið öllum hráefnunum nema vegan kjúklingnum saman í lítinn pott og sjóðið þar til sósan þykknar.

  • Blandið um helming sósunnar saman við vegan kjúklinginn og steikið eða bakið í ofni við 180°C í um 20 mín eða þar til kjúklingurinn er orðinn stökkur að utan.

  • Hrærið loks afgangnum af sósunni saman við.

Sushi hrísgrjón:

  • Byrjið á að skola hrísgrjónin vel (miðið við að vatnið sem kemur rennur af þeim sé orðið alveg glært).

  • Eldið hrísgrjónin  í potti með loki. Náið suðu og eldið svo á miðlungs-lágum hita í um 15-20 mín eða þar til hrísgrjónin eru elduð í gegn. Takið af hellunni og hrærið sykrinum, saltinu og hrísgrjónaedikinu saman við en haldið þeim svo í pottinum með lokinu í 10 mín til viðbótar.

Chili mæjó

  • Hrærið öllum hráefnunum nema sriracha sósunni saman í skál. Bætið sriracha sósunni saman við í skömmtum og smakkið til.

Samsetning:

  • Setjið hrísgrjónin neðst í skálarnar svo þær fylli um 1/4 – 1/3. Raðið grænmetinu og mangóinu í skálarnar ásamt edamame baununum og vegan teriyaki kjúklingnum. Toppið með chili-mæjóinu og sesamfræjum

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift