Fullkomin sveppasúpa með timian

Ég held ég geti með sanni sagt að þessi sveppasúpa sé uppáhalds matur mannsins míns. Hvort sem hún er í forrétt eða aðalrétt þá get ég stólað á að hann klárar súpuna upp til agna! Lykillinn liggur í því að sveppirnir eru í stórum bitum og steiktir ásamt lauknum og hvítlauknum. Þannig draga þeir í sig dásamlegt bragð og verða eins og konfektmolar í súpunni. Annað sem ég er mjög hrifin af er hvað súpan er þunn. Sveppasúpur eiga það til að vera heldur þykkar fyrir minn smekk en ég vil hafa súpuna þunna og leyfa sveppabitunum að njóta sín.

Uppskriftin er sáraeinföld og hentar bæði hversdags eða við fínni tilefni. Til að klæða súpuna í spariföt mæli ég að bæta örlitlu hvítvíni út í en þá fæst hátíðlegra bragð. Sem meðlæti klikkar súrdeigsbrauð eða baguette og vegan smjör seint. Fyrir þau sem vilja baka brauð væri hins vegar tilvalið að útbúa focaccia!

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 500 g sveppir
  • 1,5 laukur
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 2 msk. vegan smjör, t.d. Naturli
  • 500 ml vegan matreiðslurjómi, t.d. hafrarjómi frá Oatly
  • 6 dl ósæt sojamjólk, eða önnur ósæt plöntumjólk
  • 2-3 dl vatn, (gott að skipta 1 dl út fyrir hvítvín)
  • handfylli ferskt timian
  • 3 sveppateningar
  • salt og pipar

Aðferð:

  • Skerið sveppina í fjórðunga (eða munnbita). Saxið lauk smátt og pressið hvítlauk.

  • Steikið sveppi, lauk og hvítlauk upp úr smjöri á miðlungs hita þar til mjúkt.

  • Bætið matreiðslurjómanum út í ásamt sveppateningunum og látið suðuna koma upp.

  • Bætið nú mjólk, helmingnum af vatninu, hvítvíni ef vill, fersku timian út í og látið súpuna malla í 30-40 mín.

  • Smakkið til með salti og pipar og þynnið með vatni ef þörf er á.

  • Berið fram með góðu brauði (til dæmis súrdeigsbrauði eða focaccia).

1 Comments

  • Ólöf Björnsdóttir

    05/31/2023 at 6:48 pm

    Algjört sælgæti, átti reyndar bara venjulega mjólk en þetta er algjört nammi. takk.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift