Lime og kóríander hrásalat fyrir grillveisluna

Veðrið seinustu daga hefur fengið mig til að trúa því að sumarið sé loksins að láta sjá sig. Þá er sannarlega við hæfi að birta hugmynd að vegan grillveislu ásamt uppskrift að geggjuðu hrásalati! Ég elska vegan vörurnar frá Ellu Stínu sem passa fullkomlega við hvernig mat ég vil borða og mín gildi svo ég nýtti mér buffin frá henni ásamt döðlukökunni og karamellusósunni.

Ég vildi hafa þetta sem einfaldast en á sama tíma slaka hvergi á í bragði og hollustu. Niðurstaðan eru hamborgarar með kóríander-lime hrásalati. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af hrásalati og hefði aldrei dottið í hug neitt þessu líkt nema vegna þess að ég átti til rauðkál og vildi prófa eitthvað nýtt. Ég er núna orðinn fremsti aðdáandi hrásalats (allavega þessarar útgáfu) því þetta er, líkt og Páll Óskar myndi eflaust orða það, galið gott. Ég mæli með að setja helling af hrásalati á hamborgarann og svo enn meira til hliðar.

Ég prófaði einnig að setja ferskan, grænan chili út í hluta af hrásalatinu og ég mæli sannarlega með því. Hrásalatið passar ótrúlega vel á borgara með vegan buffum Ellu Stínu en mig langar einnig að prófa það í tacos (rauðkál, lime, kóríander og chili er auðvitað algjörlega skotheld blanda þegar kemur að tacos).

Eins og mér var von og vísa flækti ég eldamennskuna talsvert með því að útbúa mín eigin súrdeigs-hamborgarabrauð en þeim má að sjálfsögðu skipta út fyrir hefðbundin hamborgarabrauð eða þá heilkorna-brauðbollur. Fyrir þau sem eru í súrdeiginu mæli ég þó að sjálfsögðu með að prófa að gera hamborgarabrauð en ég gerði eins deig og fyrir súrdeigsbrauð nema skipti deiginu í bollur og lét þær hefast yfir nótt á bökunarpappírsklæddri bökunarplötu. Brauðin urðu ekkert smá mjúk og ég sé sannarlega fyrir mér að baka oftar hamborgarabrauð.

Þegar kemur að því að grilla vegan borgara er svo vert að minnast á að almennt er gott að hafa grillið á lægri hita heldur en fyrir kjötborgara og jafnvel bera vel af olíu á grillið til að hindra að borgararnir festist við það. Ég mæli síðan með Violife original eða Violife cheddar osti í sneiðum ofan á buffin.

Eftirrétturinn er ótrúlega einfaldur en hann samanstendur af döðluköku, karamellusósu, vegan rjóma og jarðarberjum. Fyrir allra klassískasta sumareftirréttinn má svo auðvitað skella vegan ís á borðið ásamt karamellusósu og berjum – þægilegra gerist það varla!

Verði ykkur að góðu!
Ef þið prófið uppskriftir frá mér finnst mér ótrúlega gaman að heyra frá ykkur hvernig gekk og smakkaðist.

Færslan er unnin í samstarfi við Ellu Stínu Vegan og vörurnar sem eru notaðar í uppskriftinni fást í Krónunni, Fjarðarkaup, Hagkaup og Melabúðinni.

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 300 g rauðkál
  • 300 g hvítkál
  • 200 g gulrætur
  • 2 dl vorlaukur, græni parturinn
  • 1 dl ferskt kóríander
  • 2 lime, safinn kreistur úr
  • 1,5 dl vegan mæjónes
  • 1,5 dl vegan jógúrt, t.d. sykurlaus, þykk sojajógúrt
  • 2 tsk. dijon sinnep
  • 1 tsk. cumin
  • salt og pipar

Aðferð:

  • Saxið rauðkálið og hvítkálið niður í þunna strimla. Rífið gulrætur á rifjárni. Setjið í stóra skál.

  • Saxið vorlauk og kóríander smátt og bætið út í skálina.

  • Blandið saman í annarri skál mæjónesi, jógúrt, dijon sinnepi, lime safa, cumin, salti og pipar.

  • Bætið nú sósunni út á grænmetið og veltið öllu saman með höndunum. Lokið skálinni og geymið í kæli þar til hrásalatið er borðað.

  • Mér finnst hrásalatið ekki síðra daginn eftir þegar grænmetið hefur mýkst örlítið og getur því verið sniðugt að útbúa það kvöldið áður.

Annað:

Fyrir þau sem vilja mæli ég með að fræhreinsa og saxa einn grænan chili og bæta út í hrásalatið.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift