Lasagna kúrbítsrúllur

Það eru þó nokkur ár síðan ég gerði fyrst kúrbítslasagna og er þetta réttur sem ég geri að meðaltali nokkuð reglulega en dreifingin er aftur á móti með hinu ójafnasta móti. Það líða oft mánuðir þar sem mér kemur aldrei til hugar að gera kúrbítslasagna og svo kemur tímabil þar sem ég elda það að lágmarki vikulega. Eini gallinn sem mér hefur fundist við kúrbítslasagnað er að þegar það er skorið og fært yfir á disk missir það allan burð og verður að (verulega bragðgóðu) mauki á diskinum – ekki sérlega gott fyrir myndatöku né heldur til að bjóða upp á í fínu matarboði. Nýlega rakst ég á uppskriftir þar sem kúrbít var rúllað upp og ákvað að útfæra kúrbítslasagnað mitt með nýju sniði: sem lasagna kúrbítsrúllur. Útkoman var betri en ég hafði þorað að vona og núna endurspeglar útlitið sannarlega dásamlegt bragðið.

Rúllurnar eru samsettar úr 4 lögum. Fyrst kemur kúrbítur sem ég sker með ostaskera (frábær not fyrir ostaskerann sem við grænkerar notum ekki lengur fyrir ost), því næst smyr ég vegan rjómaosti á kúrbítinn, dreifi heimagerðu grænu pestói yfir og loks hakksósu sem er gerð úr sveppum, valhnetum, rauðu pestói og tómötum. Til aukinnar skýringar birti ég myndband á Instagram þar sem ég sýni hvernig ég set saman rúllurnar.

Hér má svo stytta sér leið með því að nota vegan grænt pestó úr búð en einnig lengja sér leið með því að gera bechamel sósu (jafning/hvíta sósu) og nota í stað rjómaostsins. Ég mæli þó með að hafa sósuna talsvert þykka svo hún tolli á kúrbítnum þegar honum er rúllað upp. Ég ákvað að leggja tvo kúrbíta saman til að búa til eina langa kúrbítslengju sem ég rúllaði svo upp, en þannig fékk ég þessa stóru fínu lasagnasnúða. Ég hef séð myndir af smærri kúrbítsrúllum og það kemur líka vel út. Að sjálfsögðu má svo nýta uppskriftina til að setja saman hefðbundið lasagna en uppskriftin passar í nokkuð stórt ofnfast mót. Myndirnar sem hér má sjá sýna u.þ.b. helminginn af magninu.

Efst dreifi ég hnetukurli með ostafíling en uppskriftin af því kemur frá uppáhalds Sollu. Bráðhollt og gefur parmesanosti ekkert eftir að mínu mati. Fyrir ykkur sem eruð ekki alveg komin þangað má vel dreifa rifnum vegan osti yfir réttinn áður en hann er settur í ofn (en ég mæli samt með hnetukurlinu!)

 

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 3-4 stórir kúrbítar
  • 300 g vegan rjómaostur

Hakksósa

  • 1 pakki sveppir
  • 2 dl valhnetur
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 paprika
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 dós tómatar
  • 2 dl vegan rautt pestó
  • handfylli fersk basilíka
  • 2 tsk. þurrkað oregano
  • sjávarsalt, eftir smekk

Grænt pestó:

  • 1 pakki fersk basilíka, 50 g
  • 1-2 stór grænkálsblöð
  • 1 dl furuhnetur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 msk. sítrónusafi
  • 2 msk. næringarger
  • 1,5 dl ólífuolía
  • sjávarsalt, eftir smekk

Hnetukurl

  • 1 dl valhnetur, eða kasjúhnetur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 msk. næringarger
  • sjávarsalt eftir smekk

Aðferð:

Hakksósa:

  • Saxið sveppi, valhnetur, lauk, hvítlauk og papriku smátt niður eða setjið í matvinnsluvél og blandið þar til þetta er orðið að grófu kurli.

  • Mýkið sveppina, valhneturnar, laukinn og hvítlaukinn á pönnu upp úr olíu.

  • Bætið paprikunni og grænmetisteningnum saman við og steikið áfram í nokkrar mínútur.

  • Hrærið því næst tómötum í dós og rauðu pestói saman við.

  • Loks er ferska basilíkan söxuð smátt og hrært saman við ásamt oregano. Smakkið til og bragðbætið með sjávarsalti ef þarf.

Grænt pestó:

  • Setjið öll hráefnin nema ólífuolíuna og saltið í matvinnsluvél og blandið gróft.

  • Hellið ólífuolíunni út í með matvinnsluvélina í gangi. Smakkið loks til með salti.

Hnetukurl:

  • Setjið valhnetur, hvítlauk, næringarger og smá salt saman í matvinnsluvél. Maukið þar til blandan er orðin að fínu kurli.

Samsetning:

  • Kveikið á ofninum og stillið á 180° blástur.

  • Skerið kúrbítinn í þunnar lengjur með ostaskera.

  • Smyrjið kúrbítinn með rjómaostinum. Dreifið grænu pestói yfir og loks hakksósunni.

  • Rúllið kúrbítnum upp og raðið í eldfast mót.

  • Ég lagði tvær kúrbítslengjur saman til að búa til enn lengri flöt og ná þannig stærri rúllum. Litlar rúllur koma þó líka vel út.

  • Bakið í klukkutíma, eða þar til kúrbíturinn er orðinn mjúkur. Þegar 10 mínútur eru eftir að bökunartíma er gott að strá hnetukurlinu yfir og baka svo áfram.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift