Haustsalat með grænkáli, kínóa og bökuðu graskeri

Salöt eru að mínu mati stórlega vanmetin. Fyrir mér á salat að vera mettandi, bragðgott og stútfullt af góðri næringu, hollri fitu, vítamínum og andoxunarefnum. Mér finnst því mikilvægt að láta ekki staðar numið við kál-gúrka-tómatar blönduna heldur að hafa til dæmis ofnbakað grænmeti, góða sósu, ristaðar hnetur eða fræ og jafnvel kryddjurtir og ber. Ég setti saman haustlegt salat með grænkáli, kínóa og bökuðu graskeri sem er allt það sem góð salöt eiga að vera og hlýjar og yljar á köldum haustkvöldum.

Nú hef ég verið að taka Wild Earth bætiefnin mjög reglulega (eða svona eins reglulega og raunhæft er fyrir mennskan einstakling að halda rútínu) og get ekki mælt nóg með þeim. Mér datt í hug að segja ykkur aðeins frá Immune Support Complex og Gentle Iron Complex og gefa í leiðinni uppskrift að grænkálssalati sem eflir einmitt ónæmiskerfið og járnbúskapinn. Ástæðan fyrir að ég ákveð að gefa uppskrift sem stuðlar að því sama og bætiefnin er akkúrat sú að bætiefni eru jú bæti-efni (eða fæðubót) og koma ekki í staðinn fyrir fjölbreytt, heilbrigðt mataræði. Þau eru hins vegar frábær í akkúrat því sem þau eiga að gera: að bæta í þar sem vantar og styrkja það sem er gott og hjálpa þannig líkamanum okkar að starfa sem allra best.

Fyrir okkur sem hafa verið lengur til en í sólarhring eru það engar fréttir að alls konar bætiefni eru til. Ástæðan fyrir því að ég kýs Wild Earth bætiefnin er að þau eru frábær valkostur fyrir umhverfis- og heilsumeðvituð. Bætiefnin eru unnin úr náttúrunni þar sem eingöngu er notuð sólarorka við ræktun og umbúðirnar brotna niður í náttúrunni á 16 mánuðum.

Uppistaðan í þessu bragðgóða og ofurholla salati er grænkál. Ég er mjög hrifin af grænkáli en það er stútfullt af járni, kalki, vítamínum (sérstaklega A-, K-, og C-vítamínunum) og andoxunarefnum. Hitt aðalhráefnið er kínóa: uppáhalds kornið mitt. Kínóa inniheldur allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar og flokkast því sem fullkomið prótín. Þar að auki er það ríkt af járni, steinefnum og vítamínum. Haustið eru fullkominn tími til að elda grasker. Grasker er ríkt af C-vítamíni sem styrkir ónæmiskerfið – slíkt kemur sér vel á haustin þegar kvefpestirnar fara að láta sjá sig. Fyrir fjölskyldur með lítil börn er ekki vitlaust að taka smá grasker til hliðar og gufusjóða fyrir næringarríkt mauk. Valhnetur eru einhverjar hollustu hneturnar en þær innihalda Omega-3 fitusýrur sem eru okkur lífsnauðsynlegar og reyni ég að innlima valhnetur sem oftast í máltíðir fjölskyldunnar.

Sósan er svo tahini sósa sem er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana. Tahini (eða sesamsmjör), nota fæstir að staðaldri nema kannski í hummusgerð, en þetta undarlega hráefni leynir mikið á sér. Sjálft sesamsmjörið er bragðmikið, beiskt og að mínu mati nánast óætt eintómt en þegar búið er að bragðbæta það með sítrónusafa, hvítlauk, smá sætu og salti umbreytist það í bragðgóða og silkimjúka sósu sem hentar fullkomlega í salöt eða vefjur.

Verði ykkur að góðu!

Færslan er unnin í samstarfi við Artasan ehf.

Prenta uppskrift

Hráefni (fyrir 2):

  • 1 pakki grænkál
  • 1 msk. ólífuolía
  • 1 msk. sítrónusafi
  • salt eftir smekk
  • 1 dl kínóa
  • 1/2 rauðlaukur
  • handfylli ferkst kóríander
  • handfylli fersk steinselja
  • 1 dl valhnetur
  • 1/2 dl trönuber

Ofnbakað grasker:

  • 1/2 butternut grasker
  • 1 tsk. hlynsýróp
  • 1 msk. ólífuolía
  • 1 tsk. cumin
  • 1 tsk. paprikukrydd
  • salt, eftir smekk

Tahini sósa:

  • 1 dl ljóst tahini
  • 1 dl kalt vatn
  • 1 hvítlauksrif
  • 4 msk. sítrónusafi
  • 1 tsk. hlynsýróp
  • 1/2 tsk. salt

Aðferð:

Grasker:

  • Kveikið á ofninum og stillið á 180° blástur.

  • Skerið butternut graskerið í tvennt og takið hýðið af. Hreinsið fræin úr og skerið graskerið í þunnar sneiðar. Dreifið ólífuolíu og hlynsýrópi yfir og kryddið með cumin, paprikukryddi og salti.

  • Raðið sneiðunum á bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið í um 15-25 mín. (fer eftir þykkt sneiðanna), eða þar til þær eru orðnar mjúkar í gegn.

Tahini sósa:

  • Útbúið tahini sósuna með því að blanda öllum hráefnunum saman í skál og hræra þar til úr verður silkimjúk sósa (mæli með að nota töfrasprota eða blandara). Smakkið til og bætið við sítrónusafa, hlynsýrópi eða salti eftir smekk.

Salat:

  • Skolið kínóað vel. Setjið það í pott ásamt 2 dl af vatni. Sjóðið í um 20 mín eða þar til kínóað er orðið mjúkt. Bætið vatni við ef þarf en þegar kínóað er tilbúið á allt vatnið að vera farið og kínóið klessist saman.

  • Saxið grænkálið og dreifið svo ólífuolíu, sítrónusafa og salti yfir. Nuddið öllu vel saman en þannig verður auðveldara að melta grænkálið og bragðið minna beiskt.

  • Skerið nú rauðlauk í þunnar sneiðar og saxið niður kóríander og steinselju. Þurrristið valhnetur á pönnu eða í ofni.

  • Blandið nú saman í tvær stórar skálar grænkáli, kínóa, bökuðu graskeri, rauðlauk, ferskum kryddjurtum og valhnetum.

  • Dreifið loks tahini sósunni yfir salatið og stráið trönuberjum yfir.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift