Crêpes með sveppum og spínati

Fylltar pönnukökur, eða crêpes, er frábær réttur vegna þess að bragðlitlar pönnukökurnar má fylla með hverju því sem hugurinn girnist, hvort sem það eru bananar, súkkulaði og rjómi eða eitthvað matarmeira. Ég elda gjarnan crêpes í hádeginu um helgar og get þá notað afgangspönnukökurnar í kaffinu seinna um daginn og fyllt með einhverju sætu. Uppskriftin hér að neðan gefur ykkur klassískar crêpes pönnukökur og fyllingu úr hvítlaukssteiktum sveppum og spínati með timiani og rjómaosti- algjörlega skotheld blanda. Ef þið viljið enn matarmeiri og prótínríkari fyllingu mæli ég með að prófa að bæta kjúklingabaunum við fyllinguna.

Í pönnukökurnar nota ég örlítið kjúklingabaunahveiti (Gram mjöl) sem mér finnst gefa gott bragð, sérstaklega fyrir crêpes fylltar með mat en ekki sætindum, en því má þó alveg skipta út fyrir hveiti. Einnig nota ég chia mjöl til að binda deigið betur saman en það geri ég með því að setja chia fræ í blender. Afganginn af mjölinu getið þið svo notað í flestan bakstur en chiamjöl kemur vel í stað eggja. Ég notaði ferskt timian í fyllinguna en vel má nota þurrkað í staðinn.

Endilega prófið ykkur svo áfram með fyllingar, ég er allavega strax komin með nokkrar hugmyndir sem mig langar að útfæra.

Verði ykkur að góðu!

Prenta uppskrift

Hráefni:

Pönnukökur (8 stykki):

  • 2 dl hveiti
  • 1/2 dl kjúklingabaunahveiti (Gram mjöl), má skipta út fyrir hveiti
  • 1 tsk. chiamjöl, chia fræ sett í blender
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 1/4 tsk. salt
  • 4 dl sojamjólk, eða önnur plöntumjólk
  • 1 msk. olía

Fylling:

  • 1 msk. vegan smjör
  • 1 pakki sveppir, 250 g
  • 1 pakki spínat, 200 g
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 1/2 tsk. þurrkað timian, eða 2 greinar ferskt
  • 1 pakki vegan rjómaostur, til dæmis frá Oatly

Aðferð:

Pönnukökur:

  • Blandið þurrefnunum saman í skál.

  • Blandið mjólkinni og olíunni saman við og hrærið þar til deigið er laust við kekki

  • Hitið pönnu á miðlungshita með olíu eða vegan smjöri.

  • Setjið um 2/3 dl af deigi á pönnuna og dreifið vel. Snúið pönnukökunni við þegar litlar loftbólur eru byrjaðar að myndast og neðri hliðin hefur tekið gullinn lit. Steikið á báðum hliðum og endurtakið fyrir afganginn af deiginu.

Fylling:

  • Skerið sveppina í sneiðar og pressið hvítlaukinn. Steikið upp úr vegan smjöri þar til sveppirnir eru mjúkir.

  • Bætið spínati og timiani saman við þar til spínatið er mjúkt.

  • Smyrjið hverja pönnuköku með rjómaosti á helming og dreifið svo fyllingunni yfir. Lokið pönnukökunni og berið fram.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift