Glúteinlausar tacos með chili-mæjó

Ég elska mexíkóska matargerð en hef aldrei verið mikill aðdáandi tacos fyrr en ég smakkaði tacos á Spes Kitchen (mæli með!). Eftir að ég fann glúteinlausar, mjúkar tacokökur úti í búð var ekki eftir neinu að bíða og þróaði ég þessa uppskrift sem er innblásin af Spes Kitchen og rauðmetinu frá Súrkál fyrir sælkera. Ég bauð vinum í mat til að prufukeyra réttinn og var með, að ég hélt, allt of mikinn mat en þetta var svo vel heppnaður réttur að allt var klárað! Þetta var bara einn af þessum réttum sem heppnaðist fullkomlega í fyrstu tilraun og hef ég ekkert þorað að breyta þessum rétti síðan þá.

Í miðjum heimsfaraldri er gott að geta útbúið mat heima hjá sér sem lítur út og bragðast eins og á fínasta veitingahúsi og tókst það sannarlega með þessum rétti. Glæsilegt útlitið og fágað bragðið kemur að mestu frá rauðmetinu frá Súrkál fyrir sælkera en það setur gjörsamlega punktinn yfir i-ið. Mig langar virkilega að læra að útbúa mitt eigið súrkál en það, ásamt súrdeigsbakstri, er klárlega á stefnuskránni hjá mér. Sömuleiðis kemur heimagerða chili-mæjóið sterkt inn (orðagrín) en ég mæli með að útbúa sitt eigið chili-mæjó enda sáraeinfalt og hægt að stjórna því hversu sterkt mæjóið er.

Verði ykkur að góðu!

 

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 20 stk. glúteinlausar tacokökur, (2 pakkar)
  • Hakkblanda, uppskrift að neðan
  • Guacamole, uppskrift að neðan
  • Chili-mæjó, uppskrift að neðan
  • 1 lítil krukka Rauðmeti, frá Súrkál fyrir sælkera
  • 2-3 fersk lime

Hakkblanda:

  • 400 g vegan hakk
  • 1 bréf taco kryddblanda
  • 1 dós salsa sósa

Guacamole:

  • 5-6 avókadó
  • 2 tómatar
  • 1 ferskur chili, fræhreinsaður
  • handfylli ferskt kóríander, eða eftir smekk
  • safi úr tveimur lime, eða sítrónusafi
  • salt og pipar

Chili-mæjó:

  • 2 dl vegan mæjónes, t.d. frá Jömm
  • 3-4 msk. sriracha sósa, eða eftir smekk
  • 1 msk. sítrónusafi
  • 3 hvítlauksrif, pressuð

Aðferð:

Hakkblanda:

  • Steikið hakkið á pönnu við miðlungshita upp úr olíu og kryddið með kryddblöndunni.

  • Þegar hakkið er byrjað að brúnast er salsa sósunni bætt saman við. Lækkið hitann og steikið áfram í nokkrar mínútur á meðan þið útbúið guacamole og chili-mæjó.

Guacamole:

  • Saxið tómata, kóríander og chili (fræhreinsaðan) smátt.

  • Takið hýðið og steininn úr avókadóunum og stappið þau með gaffli.

  • Blandið öllum hráefnunum saman í skál. Bætið við salti, pipar og lime safa eftir smekk.

Chili-mæjó:

  • Blandið vegan mæjónesi, sriracha sósu, sítrónusafa og hvítlauk saman í skál. Geymið í ísskáp þar til borið fram.

Samsetning:

  • Þurrristið nú hverja köku fyrir sig á pönnu við miðlungsháan hita þar til kakan hefur brúnast á báðum hliðum.

  • Setjið hakkblöndu ofan á kökuna, því næst guacamole, Rauðmeti og loks chili-mæjó eftir smekk. Fallegt er að skreyta með ferskum lime sneiðum.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift