Einföld bollakaka í örbylgjuofni

Nú er haustið er komið, dagarnir farnir að styttast og rútínan byrjuð aftur. Þá er vel við hæfi að birta uppskrift að unaðslegri súkkulaðiköku í örbylgjuofni sem gæti ekki verið einfaldari. Hráefnunum er einfaldlega blandað saman í bolla og kakan svo bökuð í örbylgjuofni í 2 mínútur.

Kosturinn við að útbúa súkkulaðiköku í bolla er ekki einungis einfaldleikinn heldur líka sá að slík kaka býður síður upp á að fólk sé að stelast í bita. Ég get allavega verið mjög matarsár (sérstaklega þegar súkkulaði á í hlut) og sé því klárlega kostinn í því að eiga bara heila köku út af fyrir mig.

Súkkulaðikaka með flórsykri, bökuð í örbylgjuofni

Eins og þið sjáið að neðan er uppskriftin ekki bara einföld vegna þess að hún inniheldur fá hráefni og er bökuð á 2 mínútum heldur var hún hönnuð með það bak við eyrað að vera auðveld að muna. Hráefnin eru því gefin upp í msk. eða tsk. og magnið af hráefnum er alltaf í 2 eða 1/2. Þetta finnst mér mikill kostur því fyrir svona köku er ekki hægt að ætlast til þess að fólk eyði tíma í að fletta upp uppskrift heldur vil ég að hægt sé að útbúa kökuna með engum fyrirvara og geyma uppskriftina í kollinum.

Ég er hrifnust af dökkum súkkulaðikökum sem eru ekki of sætar og er kakan ekki dísæt en á móti er nóg af súkkulaði. Fyrir ykkur sem viljið sætara og mildara bragð mætti minnka kakómagnið og auka örlítið sykurmagnið. Ég ákvað að birta uppskriftina með hveiti í stað þess að hafa hana glútenlausa því þannig er hún enn einfaldari. Því er þó mjög auðvelt að breyta með því að skipta hveitinu út fyrir glútenlaust og bæta við 1/2 tsk. af chiamjöli. Chiamjöl geri ég með því að setja chia-fræ í blandara þar til úr verður mjöl.

Kakan er langbest heit úr örbylgjuofninum og toppuð með vegan rjóma eða vanilluís. Fyrir ykkur sem eruð jafn súkkulaðióð og ég má svo alveg stelast til að setja einn bita af súkkulaði ofan í heita kökuna svo hann bráðni þar ofan í.

Verði ykkur að góðu!

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 2 msk. vegan smjör
  • 2 msk. plöntumjólk, t.d. haframjólk eða sojamjólk
  • 2 msk. sykur
  • 2 msk. kakó
  • 2 msk. hveiti
  • 1/2 tsk. lyftiduft
  • 2 rendur suðusúkkulaði (6 bitar), eða meira eftir smekk

Aðferð:

  • Setjið smjörið í bolla og bræðið í örbylgjuofni (tekur um 10-20 sek.).

  • Blandið mjólkinni saman við smjörið.

  • Bætið öllum þurrefnunum saman við og hrærið. Saxið súkkulaðið og bætið því út í. Ekki þarf að hræra mjög mikið.

  • Bakið í örbylgjuofni í 2 mínútur. Passið ykkur á því að kakan er mjög heit þegar hún kemur út. Athugið einnig að kakan lyftir sér vel við bakstur svo bollinn þarf að vera nokkuð stór.

  • Bökunartími getur verið mismunandi eftir því hve öflugur örbylgjuofninn er en ef kakan er ekki bökuð í gegn mæli ég með að baka hana aðeins lengur. Kakan á þó að vera örlítið blaut þegar hún er heit.

GOTT AÐ HAFA Í HUGA

  • Kökuna má gera glútenlausa með því að skipta hveiti út fyrir glútenlaust hveiti og bæti við 1/2 tsk. af chia mjöli.
  • Prófið að setja 1 mola af suðusúkkulaði ofan í miðja kökuna þegar hún er tilbúin og enn heit.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift