Einfaldur pottréttur

Þessi einfaldi pottréttur hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því ég varð vegan og er eiginlega skömm að ég sé ekki að deila uppskriftinni fyrr en nú. Rétturinn er frábær hversdags jafnt sem fínt og bragðast jafnvel betur daginn eftir. Uppskriftin er einföld en innihaldið bráðhollt. Saman myndar þetta mjúkan pottrétt með rjómakenndri kókos-tómatsósu en cumin, kóríander, hvítlaukur, engifer og túrmerik gefa kryddað en þó milt bragð.

Ég elda oft quinoa með svona pottréttum enda er quinoa eitt hollasta korn sem völ er á – sannkölluð ofurfæða. Kínóa er mikið notað í hvers kyns matargerð og virkar það vel sem meðlæti (líkt og hrísgrjón) eða hreinlega sem uppistaða í máltíð vegna þess hve næringarríkt það er. Kínóa er verulega prótínríkt en það inniheldur 12-18% prótín og allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar – það flokkast því sem fullkomið prótín. Kínóa hentar einnnig vel þeim sem eru með glúteinóþol því það er glúteinlaust. Þar að auki er það ríkt af steinefnum og vítamínum. Kínóa hefur um 15 mín suðutíma en mikilvægt er að skola kornin áður en þau eru soðin til að losna við biturt bragð af húðinni. Kínóa dregur í sig mikið vatn við suðu svo mikilvægt er að fylgjast vel með og bæta við vökva eftir þörfum. Fyrir þá sem eru hrifnir af gömlu, góðu hrísgrjónunum passa þau að sjálfsögðu líka vel með en mér finnst pottrétturinn líka fullkominn án meðlætis.

Hráefnin í réttinn eru bráðholl en rétturinn inniheldur m.a. ferskan hvítlauk, engifer og túrmerik sem allt hefur gífurlega góð, heilsufarsleg áhrif.  Í réttinn er einnig notað blómkál og sæt kartafla en vel má styðjast við það sem er til í ísskápnum hverju sinni, svo sem gulrætur, brokkólí, eggaldin eða kartöflur. Ég mæli því með að elda mikið af þessum pottrétti í stórum potti og eiga afganga næstu daga, en rétturinn er ekki síðri daginn eftir.

Verði ykkur að góðu!

Prenta uppskrift

Hráefni:

(fyrir 6)

  • 1 laukur
  • 2-2 hvítlauksrif
  • 1 tsk ferskt engifer, rifið smátt
  • 2 tsk ferskt túrmerik, rifið smátt
  • 2 tsk cumin
  • cayanne pipar, eftir smekk
  • 2 dósir kjúklingabaunir, vökvinn sigtaður frá
  • 2 dósir tómatar
  • 2 dósir þykk kókosmjólk, aðeins þykki hlutinn notaður
  • 1 blómkálshaus
  • 1 sæt kartafla
  • 1 grænmetisteningur
  • handfylli ferskt kóríander, saxað smátt

Aðferð:

  • Saxið laukinn smátt og rífið hvítlauk, engifer og túrmerik smátt á rifjárni. Steikið í djúpum potti upp úr olíu þar til mjúkt.

  • Bætið cumin og cayanne pipar út í pottinn og steikið í 2-3 mín.

  • Skerið sætu kartöfluna niður og rífið blómkálið í smá blóm og bætið í pottinn ásamt kjúklingabaununum.

  • Setjið tómata í dós út í ásamt þykka hlutanum af kókosmjólkinni. Bætið einnig grænmetistening út í ásamt salti og pipar.

  • Leyfið réttinum að malla í um 40 mín eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Rétt undir lokin er fersku, söxuðu kóríander bætt út í.

  • Berið fram með soðnu quinoa eða hrísgrjónum og fersku kóríander.

2 Comments

  • Jóna Ólafsdóttir

    11/12/2020 at 1:40 pm

    Mjög góður réttur, takk fyrir uppskriftina 🙂

  • Helga Sveinsdóttir

    11/15/2021 at 11:54 am

    Góður pottréttur

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift