Súkkulaðigrautur

Þessi súkkulaðigrautur er eins konar eftirherma af unaðslega súkkulaðihafragrautnum sem fæst á Gló. Ég er forfallinn aðdáandi þess grauts og hef heyrt að ég sé víst ekki sú eina. Þessi uppskrift er mín tilraun til að endurgera þann graut og tókst furðu vel!

Uppistaðan í grautnum eru hafrar og chiafræ en mýktin fæst úr þykkri kókosmjólk í dós (ég nota þessa í bleiku dósunum frá Gestus). Með því að þeyta grautinn í hrærivél verður hann léttur og loftkenndur en það er einmitt eitt helsta einkenni fyrirmyndarinnar. Ég nota vanalega stevíu í grautinn og vil ekki hafa hann of sætann en fyrir þá sem vilja meiri sætu er gott að nota hlynsýróp. Hafrar og chiafræ eru fullkomin samsetning fyrir morgunverð en hafrarnir gefa flókin kolvetni og trefjar sem endast vel inn í daginn á meðan chiafræin veita trefjar, prótín og mikið magn af Omega 3.

Ég mæli með að útbúa grautinn kvöldið áður og geyma í ísskáp yfir nótt. Um morguninn tek ég hann út og borða kaldan. Ef grauturinn er orðinn mjög stífur eða þykkur er best að hræra upp í honum með örlítilli plöntumjólk.

Mér finnst grauturinn bestur toppaður með ferskum berjum eða banana og stökku granóla eða hnetum.

Verði ykkur að góðu!

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 1 dós þykk kókosmjólk, nota allt innihald dósarinnar
  • 2 dl haframjöl
  • 1/2 dl chia fræ
  • 2 msk kakó
  • 1 tsk vanilla
  • 6-8 dropar stevía, eða örlítið hlynsýróp
  • 1 dl plöntumjólk
  • salt, eftir smekk

Aðferð:

  • Setjið öll hráefnin nema plöntumjólkina saman í hrærivél og hrærið í um 10 mín.

  • Bætið þá plöntumjólkinni út í og hrærið áfram í um 10-20 mín. Með því að hræra svona vel verður grauturinn léttur og loftkenndur.

  • Geymið í ísskáp í um klukkutíma eða yfir nótt.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift