Möndlu-kasjúhnetusmjör

Ég vil stundum meina að ég hafi nælt mér í unnusta minn með þessu möndlusmjöri. Þegar við vorum nýbyrjuð að hittast sendi ég hann eitt sinn heim með krukku af þessu möndlusmjöri og hef ég ekki losnað við hann síðan þá.

Með því að blanda saman ristuðum möndlum og kasjúhnetum fæst mýkt sem flestir byrjendur, jafnt sem lengra komnir, í hnetusmjörsáti munu kolfalla fyrir. Ég er ekki vön að setja sykur í hnetusmjör en ein matskeið af kókospálmasykri setur gjörsamlega punktinn yfir i-ið í þessari uppskrift. Vanilludroparnir og saltið gefa svo lokahnykkinn og útkoman er hreint út sagt unaðsleg.

Athugið að mikilvægt er að eiga góða matvinnsluvél til að vinna á hnetunum. Hneturnar þurfa að hakkast nógu vel saman svo þær losi út olíuna sem myndar einmitt hnetusmjörið. Ég nota Magimix matvinnsluvél sem virkar virkilega vel í hnetusmjörsgerð. Annað ráð sem ég vil ítreka fyrir þá sem ætla að útbúa sitt eigið hnetusmjör er að blanda lengur. Þegar þú heldur að hnetusmjörið sé tilbúið áttu samt að blanda aðeins lengur – ég lofa.

Hnetusmjörið geymist best við stofuhita en felið krukkurnar vel því þetta klárast skuggalega hratt. Ég mæli með að setja hnetusmjörið út á hafragraut, dýfa eplum eða banana í það, nota sem íssósu eða hreinlega bara borða eintómt með skeið.

Verði ykkur að góðu!

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 5 dl möndlur
  • 5 dl kasjúhnetur
  • 1 msk kókospálmasykur
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk salt, eða eftir smekk

Aðferð:

  • Kveikið á ofninum og stillið á 180°. Dreifið hnetunum á bökunarplötu (ekki nota olíu) og þurristið í um 10-15 mínútur eða þar til hneturnar hafa brúnast. Fylgist vel með að þær brenni ekki.

  • Leyfið hnetunum að kólna örlítið og setjið þær svo í matnvinnsluvél og blandið í um 15 mínútur eða þar til silkimjúkt hnetusmjör hefur myndast. Skafið meðfram köntum með sleikju eftir þörfum.

  • Bætið restinni af hráefnunum út í og smakkið til.

  • Geymið í lokuðum krukkum eða ílátum við stofuhita.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift