Bakaðir hafrabitar

Bakaðir hafrabitar

Ég reyni að eiga alltaf til eitthvað hollt og fljótlegt sem er hægt að grípa í því reynslan mín er sú að ef ég er svöng og á hlaupum er það ekki alltaf það hollasta eða ódýrasta sem verður fyrir valinu. Keyptir hnetubarir, full ávaxtaskál og efni í boost er þess vegna staðalbúnaður á mínu heimili. Eins og það er þægilegt að geta keypt tilbúna hnetubari þá finnst mér innihaldið ýmist of fátæklegt eða óhollt en ef innihaldið er hollt og fjölbreytt þá eru hnetubarnirnir því miður dýrari fyrir vikið. Ég fékk því þá frábæru hugmynd um daginn að útbúa mína eigin bakaða vegan hafrabita sem eru blanda af því sem ég og maðurinn minn myndum vilja. Sjálf vil ég millimál sem er stútfullt af hollustu: fræjum, hnetum og höfrum en maðurinn minn leggur meiri áherslu á bragðið og er sem dæmi hrifinn af keyptum bitum sem innihalda fátt annað en sykur, óholla fitu og haframjöl. Ég ákvað að fara milliveginn og útbúa bita sem innihalda eingöngu góð og holl hráefni en þó með megináherslu á bragð.

Bitarnir innihalda meðal annars hafra, hörfræ, sólblómafræ, pekanhnetur, möndlumjöl, döðlur, eplamauk og kanil og eru fullkomnir í morgunmat (minna smá á dásamlegan hafragraut með kanil og eplum), sem sætur biti með kaffinu eða til að eiga í bakpokanum í ferðalögum sumarsins. Bitana má gera glútenlausa með því að nota glútenlaust haframjöl.

Ef þið viljið hráfæðisbita eru þessir möndlu- og döðlubitar hollir og fljótlegir en fyrir extra djúsí hnetubita eru þessir fjögurra laga snickers hnetubitar það besta sem ég veit.

Verði ykkur að góðu.

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 200 g döðlur, þurrkaðar
  • 2 dl möndlumjólk, eða önnur plöntumjólk
  • 2 dl eplamauk
  • 6 dl hafrar, ég notaði grófa
  • 4 dl möndlumjöl
  • 1 dl hörfræ
  • 1 dl sólblómafræ
  • 4 dl pekanhnetur, saxaðar
  • 1 dl kókosolía, bráðin
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 2 tsk. kanill
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 1 tsk. flögusalt

Aðferð:

  • Kveikið á ofninum og stillið á 180° og blástur.

  • Setjið döðlurnar í pott ásamt mjólkinni og hitið að suðu. Látið malla í um 10 mín eða þar til mjólkin er horfin og döðlurnar orðnar mjúkar.

  • Setjið döðlublönduna ásamt eplamauki í matvinnsluvél eða blandara og blandið þar til silkimjúkt. Bætið kókosolíu og vanilludropum saman við.

  • Blandið þurrefnunum saman í stóra skál, bætið maukinu úr matvinnsluvélinni út í skálina og blandið saman með sleikju.

  • Þrýstið deiginu í eldfast mót sem er klætt með smjörpappír og bakið í um 20-30 mín eða þar til bitarnir eru orðnir örlítið brúnir að ofan.

  • Leyfið bitunum að kólna og skerið svo í ferninga eða lengjur.

  • Til að gera bitana enn bragðbetri má pensla þá með örlitlu hlynsýrópi (eða eplasafa) og strá flögusalti yfir.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift