Fjögurra laga snickers hnetubitar

Bitarnir samanstanda af botni úr döðlum, möndlum og pekanhnetum, hnetusmjörslagi, dásamlega mjúku kókos-saltkaramellukremi og eru loks toppaðir með dökku súkkulaði. Þetta hljómar kannski flókið en í raun er uppskriftin rosa fljótleg þar sem hráefnunum er einfaldlega skellt í blandara/matvinnsluvél. Þessa bita hef ég gert reglulega í fjöldamörg ár og þeir vekja alltaf jafn mikla lukku. Eitt sumarið tók ég hnetubitana með í fimm daga bakpokaferðalag um hálendið (hollir og næringarríkir bitarnir eru fullkomið göngunesti!). Á leiðinni hittum við útlending sem gekk með okkur nokkra daga og ég gaf honum einn bita. Hann heimsækir Ísland og fjölskylduna reglulega og talar ennþá um hnetubitana. Ég ætla ekki að fullyrða að þessi fjögurra laga karamellu-hnetudásemd sé ástæðan fyrir tíðum Íslandsheimsóknum en ég get heldur ekki fullyrt að svo sé ekki…

Ég geri vanalega nóg af bitunum í einu því þeir geymast svo vel í frysti og mér finnst frábært að eiga þá til með kaffinu eða til að bjóða gestum upp á. Mjög auðvelt er að gera þá sykurlausa með því að skipta hlynsýrópinu í saltkaramellulaginu út fyrir fleiri döðlur og sleppa súkkulaðinu (eða nota mjög dökkt súkkulaði með litlum sykri). Tveggja ára strákurinn minn elskar þessa bita og við eigum reglulega gæðastundir þar sem við drekkum saman (koffínlaust) te og fáum okkur smá hnetubita.

Verði ykkur að góðu!

Prenta uppskrift

Hráefni:

Botn:

  • 250 g döðlur
  • 2 dl möndlur
  • 2 dl pekanhnetur
  • 1 msk. kókosolía, bragð- og lyktarlaus
  • 1/2 tsk. salt

Hnetusmjörslag:

  • 400-500 g hnetusmjör

Kókos-saltkaramellukrem:

  • 1 dós feit kókosmjólk í dós
  • 1 dl heitt vatn
  • 1 dl döðlur
  • 1/2 dl hlynsýróp, eða meira af döðlum
  • 1,5 dl kókosolía, bragð- og lyktarlaus
  • 1 dl möndlusmjör
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk salt

Súkkulaðibráð

  • 400 g suðusúkkulaði, eða annað dökkt súkkulaði

Aðferð:

Botn:

  • Setjið öll hráefnin fyrir botninn í matvinnsluvél og blandið. Ef blandan er of þurr er gott að bæta við fleiri döðlum eða annarri matskeið af kókosolíu.

  • Leggið smjörpappír í botninn á ofnskúffu eða öðru formi (ég notaði tvö 28×18 cm form) og þrýstið blöndunni í botninn. Frystið á meðan kremið er útbúið.

Kókos-saltkaramellukrem:

  • Leggið döðlurnar í bleyti í heita vatninu.

  • Setjið öll hráefnin fyrir kremið í blandara og bætið loks döðlunum við ásamt vatninu.

  • Blandið á miklum hraða þar til kremið er silkimjúkt.

  • Smyrjið nú botnana með hnetusmjöri og hellið því næst kókos-saltkaramellukreminu yfir. Setjið aftur í frysti.

Súkkulaðibráð:

  • Bræðið súkkulaðið við lágan hita.

  • Þegar kókos-saltkaramellukremið hefur stífnað alveg í frysti er súkkulaðibráðinni hellt varlega yfir og henni dreift með því að halla forminu.

  • Frystið bitana aftur svo súkkulaðið stífni alveg, takið þá svo úr forminu og skerið þá í bita. Geymist í kæli eða frysti.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift