Súkkulaðihrákaka

Þessi kaka kom í kökublaði Vikunnar í febrúar 2019 og er nú loksins birt hér á síðunni. Hún er dásamlega vel heppnuð þótt ég segi sjálf frá og ég mæli með því að prófa. Kakan er unaðslega mjúk og bráðnar í munninum. Það er eiginlega fáránlegt að hugsa til þess að gerðar séu óhollar kökur þegar hollar kökur geta verið svona góðar – er samt ekki að dæma neinn sem kýs frekar óhollar kökur, ég á alveg mína daga… Mergur málsins er allavega sá að þessi kaka gefur hveiti-sykur-kökum ekkert eftir heldur þvert á móti.

Ég er mjög heilluð af allri heilsusamlegri matargerð sem er laus við dýraafurðir en hráfæði höfðar alveg sérstaklega til mín. Ég hef ekki enn prófað að borða eingöngu hráfæði en mun ábyggilega gera það einhverntímann. Þangað til reyni ég að innlima hráfæðisrétti í mataræðið mitt eftir bestu getu. Ein einfaldasta leiðin að mínu mati (fyrir utan ferst salat) til að útbúa hráfæðisrétti eru kökur. Hráfæðiskökur eru svo ótrúlega bragðgóðar en á sama tíma mjög einfaldar. Vanalega er nóg að setja hráefnin í matvinnsluvél og blender og kæla. Kosturinn við hrákökur er síðan að maður getur alltaf smakkað “deigið” til, breytt og bætt eftir smekk.

Kakan er best beint úr ísskápnum en hún byrjar að mýkjast ef hún er lengi við stofuhita. Ef afgangur er af kökunni er sniðugt að skera hana í sneiðar og geyma í frysti. Hráfæðiskökur endast nefnilega vel í frysti og á ég oftast til nokkrar frosnar sneiðar ef gesti ber að garði (eða ef mig langar í smá sætindi á kvöldin). Mér finnst kakan best með ferskum berjum og þeyttum vegan rjóma eða vegan ís.

Verði ykkur að góðu!

Prenta uppskrift

Hráefni:

Botn:

  • 8 Medjool döðlur, um 2 dl.
  • 2 dl kókosflögur, helst ristaðar
  • 2 dl möndlur
  • 2 msk kakóduft
  • 1 tsk vanilludropar

Fylling:

  • 2 lítil avókadó
  • 1 banani
  • 1 dl möndlusmjör
  • 2 dl kókosmjólk í dós, einungis þykki hlutinn
  • 2 dl bragð- og lyktarlaus kókosolía
  • 1 msk kakósmjör, má nota kókosolíu í staðinn
  • 1 dl hlynsýróp
  • 4 msk kakóduft
  • 1 tsk vanilludropar
  • salt, eftir smekk

Aðferð:

Botn:

  • Setjið kókosflögur og möndlur í matvinnsluvél og blandið þar til úr verður grófgerð mylsna.

  • Hreinsið steinana úr döðlunum og setjið þær út í matvinnsluvélina ásamt hinum hráefnunum. Blandið þar til hægt er að klípa saman deigið.

  • Klæðið botninn á 22 cm smelluformi með smjörpappír og þrýstið deiginu í botninn.

  • Geymið í kæli á meðan fyllingin er útbúin.

Fylling:

  • Setjið kókosmjólkurdósina í kæli eða frysti í smá stund. Þannig er auðveldara að skilja þykka hlutann frá þeim þunna.

  • Bræðið kókosolíuna og kakósmjörið á lágum hita.

  • Setjið öll hráefnin í blender og blandið þar til silkimjúkt.

  • Hellið fyllingunni yfir botninn og geymið í frysti þar til kakan er frosin.

  • Losið kökuna úr smelluforminu og færið hana yfir á kökudisk.

  • Best er að láta kökuna þiðna í ísskáp og bera hana fram kalda ásamt ferskum berjum og vegan rjóma.

4 Comments

  • Ólöf Björnsdóttir

    05/12/2021 at 1:05 pm

    sæl, af hverju þarf að skilja þykka hlutann frá þeim þunna í kókosmjólkurdósinni? fer þetta ekki allt í blandarann?
    kv Ólöf

    1. Grænkerar

      06/29/2021 at 3:42 pm

      Sæl, Ólöf

      Ég nota bara þykka hlutann því annars verður blandan of þunn.
      Ég held það sé hægt að kaupa kókosrjóma í dós, til dæmis í Vegan búðinni, en þá má setja allt innihaldið í blandara.

  • Jonina

    01/20/2022 at 11:58 pm

    Mjög girnileg uppskrift, ætla að prufa hana á morgun. Varðandi kókosmjólkina, er það þykki hlutinn sem á að mælast 2 dl?
    Takk fyrir <3
    JB

    1. Grænkerar

      01/26/2022 at 12:00 pm

      Sæl, það passar að þykki hlutinn á að mælast 2 dl.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift