Oumph borgarar

Eftir að mótanlega Oumph hakkið kom í búðir var fyrsta mál á dagskrá að prófa að gera borgara. Skemmst er frá því að segja að sú tilraun tókst með eindæmum vel og úr varð þessi sáraeinfalda en dásamlega uppskrift sem inniheldur aðeins tvö innihaldsefni: Oumph hakk og chia fræ. Oumph hakkið er glútenlaust og eru því sjálfir borgararnir án glútens.Ég hef gert þessa borgara í flýti eftir vinnu, fyrir matarboð og í útilegum og alltaf koma þeir jafn skemmtilega á óvart. Einfaldleiki og hollusta hefur aldrei verið jafn djúsí.

Ég er mjög hrifin af því að nota chia fræ í matargerð vegna þess að þegar þeim er blandað saman við vökva þá mynda þau eins konar hlaup sem bindur saman mat. Chia fræ eru þó ekki bara sniðug heldur eru þau líka bráðholl en þessi litlu fræ eru stútfull af omega-3 fitusýrum, trefjum, prótíni, vítamínum og steinefnum. Í uppskriftinni stendur að ég noti chia mjöl, en það er útbúið með því að setja chia fræ í blender svo úr verði mjöl. Ég blanda síðan chia mjölinu við vatn og verður þannig til slímkennt hlaup sem bindur borgarana saman. Maukinu er blandað saman við Oumph hakkið og mótaðir borgarar sem má grilla, steikja eða baka.

Mér þykir mjög gaman að prófa framandi uppskriftir og nýjar samsetningar að hamborgurum en með þessum borgurum finnst mér einfaldleikinn langbestur: hamborgarasósa, ferskt grænmeti og bráðinn veganostur. Hamborgarasósu geri ég með því að blanda saman vegan majónesi, tómatsósu og örlitlu dijon sinnepi. Ég er hrifin af því að nota Violife Original eða Cheddar ostsneiðarnar, en mér finnst þær bragðast vel og bráðna alveg dásamlega.Uppskriftin nægir í 3-4 stóra hamborgara en 5-6 litla. Mæli með að gera meira frekar en minna því þessir borgarar eru sko kláraðir.

Verði ykkur að góðu og gleðilegt vegan grillsumar!

Prenta uppskrift

Hráefni:

Hamborgarar (3-4 stk):

  • 1/2 pakki mótanlegt Oumph hakk
  • 2 msk chia mjöl, chia fræ sett í blender
  • salt og pipar, eftir smekk

Sósa:

  • Vegan majónes
  • Tómatsósa
  • Dijon sinnep, eftir smekk

Aðferð:

Hamborgarar:

  • Chiamjöl er gert með því að setja chia fræ í blender og blanda þar til þau verða að dufti.

  • Chia mjölinu er blandað við ca. 1 dl af vatni í stórri skál. Hrærið vel og bíðið í nokkrar mínútur þar til hlaupkennt mauk myndast.

  • Setjið Oumph hakkið út í chia blönduna í smáum skömmtum og hrærið vel.

  • Mótið loks borgara og grillið, steikið eða bakið. Kryddið vel með salti og pipar og notið góðan vegan ost (ég mæli með Violife Original sneiðunum).

Sósa:

  • Hrærið saman vegan majónesi og tómatsósu í hlutföllunum 3:1 eða eftir smekk. Blandið örlitlu dijon sinnepi saman við ef vill.

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift