Grænkálssmoothie

Mér finnst fátt betra en ferskur, grænn smoothie þegar hlýnar í veðri. Í þessum smoothie leikur grænkál aðalhlutverk ásamt avókadó, mangó og ananas. Ég er mjög hrifin af grænkáli en það er stútfullt af næringarefnum, vítamínum (sérstaklega A-, K-, og C-vítamínunum), járni, kalsíum og andoxunarefnum. Fyrir þá sem eru ekki jafn hrifnir af grænkáli má einnig nota spínat en ég mæli þó með að gefa grænkálinu séns.

 

Avókadó inniheldur mikið magn af hollri fitu en með því að setja avókadó í smoothie veitir hann meiri seddu og heldur manni mettuðum lengur. Avókadó er einnig með hátt magn prótíns miðað við aðra ávexti (já, avókadó er ávöxtur) en þar að auki inniheldur það B- og E-vítamín, trefjar, andoxunarefni, fólínsýru og kalíum.

 

 

 

Uppskriftin að neðan er grunnuppskrift en fyrir þá sem vilja auka næringargildi drykksins er tilvalið að bæta t.d. chia-fræjum, hampfræjum, höfrum eða möndlusmjöri út í drykkinn. Drykkurinn er bestur kaldur og ferskur en ég mæli ekki með því að útbúa stóra skammta í einu og geyma. Fyrir þá sem vilja spara tíma á morgnana væri betra að undirbúa öll innihaldsefnin (nema möndlu- eða kókosmjólkina) kvöldið áður og geyma í lokuðu boxi í ísskáp. Um morguninn er fljótlegt að setja þau í blender ásamt vökvanum.

 

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

(fyrir einn)

  • 2 stór grænkálsblöð
  • 1 avókadó
  • 1/2 gúrka
  • 2 msk sítrónusafi
  • 1-2 cm engiferrót, rifin á rifjárni
  • 3 dl frosið mangó eða ananas, ég nota bæði
  • 3 dl möndlu- eða kókosmjólk, helst sykurlaus

Aðferð:

  • Setjið öll hráefnin í blender og blandið þar til silkimjúkt.

  • Bætið við vökva eftir þörfum og frosnu mangói, ananas eða sítrónusafa til að fá sætara eða súrara bragð.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift