Ofurþeytingur

Þessi uppskrift ber heitið “ofurþeytingur” með réttu enda samanstendur hún af alls konar ofurfæðu og duftum sem saman mynda heilsubombu sem er snilld að byrja daginn á. Á meðgöngunni finnst mér sérstaklega mikilvægt að nærast vel, bæði til að barnið fái holla næringu en ekki síður til að líkaminn minn (sem situr á hakanum hvað næringu varðar því fóstrið tekur það sem það þarf) fái öll næringarefni sem hann þarf til að starfa vel. Ég reyni því að byrja alla daga og hollum morgunmat og eftir að ég þróaði þessa uppskrift hef ég fengið mér bláberja-ofurþeyting flestalla morgna.

Eitt helsta innihaldsefnið í þeytingnum eru bláber. Bláber eru stútfull af andoxunarefnum en mikilvægi þeirra í líkamanum skal ekki vanmeta. Andoxunarefni vinna gegn sindurefnum í líkamanum og þar af leiðandi gegn krabbameini og öldrunareinkennum.

 

Í þeytinginn nota ég tvenns konar duft. Annars vegar Greens duftið og hins vegar Vanilluprótínið frá Plantforce (báðar vörurnar fást hjá Uglan Heilsuvörur).

Ég smakkaði prótínduftin frá Plantforce á kynningarfundi Veganúar 2019 og kolféll fyrir þeim. Eftir það fór ég í samstarf við Uglan Heilsuvörur sem flytja prótínduftin til landsins. Duftin eru vegan, glúteinlaus, laus við soja og hrá (raw). Þau eru eingöngu með náttúrulegum bragðefnum og bragðbætt með stevíu og henta því vel þeim sem eru að sleppa sykri. Þar fyrir utan þá bragðast þau dásamlega. Í þessari uppskrift nota ég vanilluprótínið, en það er í uppáhaldi hjá mér.

Greens duftið samanstendur af spínati, beðju, clorella þörungum, spirulina þörungum, brenninetlu og grænkáli. Þessi blanda veitir gríðarlegt magn næringarefna, vítamína og svokallaðra plöntuefna. Plöntuefni (phytonutrients) finnast helst í litsterku grænmeti og ávöxtum og draga þau úr bólgum í líkamanum, en krabbamein myndast einmitt oft í slíkum bólgum. Eftir því sem rannsóknum miðar fram kemur mikilvægi plöntuefna sífellt skýrar í ljós og mæli ég með því að fólk borði nóg af litsterku grænmeti og taki jafnvel inn þessi plöntuefni á duft- eða töfluformi.

Þeytingurinn inniheldur einnig hampfræ og tahini (sesamsmjör). Hampfræ eru full af góðri fitu og prótíni og reyni ég að innlima þau í fæðuna mína á hverjum degi. Tahini, eða sesamsmjör, er einnig stútfullt af hollri fitu og blandast sesamkeimurinn dásamlega við bragðið af bláberjunum. Loks inniheldur hann banana og döðlur en þannig fæst mýkt og sæta í þeytinginn sem vinnur gegn einkennandi bragðinu af Greens duftinu.

Ég mæli með að prófa að innlima þennan þeyting inn í fæðu dagsins og sjá áhrifin á heilsu, orku og hreysti.

Færslan er unnin í samstarfi við Uglan Heilsuvörur.

Prenta uppskrift

Hráefni:

(fyrir einn)

  • 250 ml kókosmjólk, eða önnur vegan mjólk
  • 1/2 banani
  • 2 stórar lúkur frosin bláber
  • 1 msk Greens duft, eða t.d. Spirulina duft
  • 1 skeið vanilluprótín
  • 1 lúka spínat, ferskt eða frosið
  • 1 msk hampfræ
  • 1 msk tahini
  • 2-3 mjúkar döðlur, muna að taka steinana úr
  • nokkrir klakar

Aðferð:

  • Hráefnin eru sett í blender og blandað þar til silkimjúkt.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift