Pabbi stakk upp á því að við myndum prófa að gera fyllt eggaldin og úr varð þessi næringarríka, holla og dásamlega bragðgóða uppskrift. Eggaldin er ekki allra en ég vil meina að það stafi af því hvað við Íslendingar kunnum takmarkað að matreiða það. Eftir að ég fór til Búdapest 2019 og smakkaði Baba ganoush (hugsið hummus nema bakað eggaldin í stað kjúklingabauna) þá varð eggaldin töfrahráefni í mínum huga. Svo skemmir ekki fyrir hvað það er bráðhollt: ríkt af járni, kalki og trefjum.
Uppskriftin er að sjálfsögðu glútenlaus og er aðaluppistaðan kínóa (quinoa), eitt hollasta korn sem völ er á og sannkölluð ofurfæða. Kínóa er mikið notað í hvers kyns matargerð og virkar það vel sem meðlæti (líkt og hrísgrjón) eða hreinlega sem uppistaða í máltíð vegna þess hve næringarríkt það er. Kínóa er verulega prótínríkt en það inniheldur 12-18% prótín og allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar – það flokkast því sem fullkomið prótín. Kínóa hentar einnig vel þeim sem eru með glúteinóþol því það er glúteinlaust. Þar að auki er það ríkt af steinefnum og vítamínum. Kínóa hefur um 15-20 mín suðutíma en mikilvægt er að skola kornin áður en þau eru soðin til að losna við biturt bragð af húðinni. Kínóa dregur í sig mikið vatn við suðu svo mikilvægt er að fylgjast vel með og bæta við vökva eftir þörfum.
Dúnmjúk tahini sósa (sama og ég nota hér) ásamt granateplafræjum fullkomna svo réttinn. Uppskriftin er í raun ótrúlega einföld en útkoman myndi sóma sér vel á fínum veitingastað.
Verði ykkur að góðu!
2 Comments
Ásta Camilla Gylfadóttir
08/21/2024 at 3:14 pm
Sæl
ég er að fá í heimsókn norska vinkonu mína sem er grænmetisæta og borðar ekki lauk, hvítlauk og sveppi. Mér líst vel á uppskriftina af fylltum eggaldinum. ég var að velta fyrir mér ef ég sleppi hvítlauknum og lauknum, get ég sett eitthvað annað í staðinn, eins og t.d. sellerí eða fenniku til að fá “sambærilegt” bragð sem laukur og hvítlaukurinn gefur?
Ég ætla að vera með 2 kvöldmat og fann aðra uppskrift sem ég ætla að gera hinn daginn en það er Pastarétturinn sem allir elska.
Hlakka til að heyra frá þér
bestu kveðjur
Ásta Camilla.
Grænkerar
08/29/2024 at 8:22 pm
Sæl, Ásta.
Endilega nota sellerí og fenniku. Ég held að það muni koma vel út 🙂