Vegan matarhugmyndir fyrir lítil kríli

Ég held að flestir foreldrar kannist við erfiðleikana við að gefa litlum krílum að borða. Eins og það sé ekki nógu flókið að sjá um mat fyrir fullorðna fjölskyldumeðlimi heldur bætist þarna við einstaklingur sem þarf að elda sérstaklega ofan í – sem hendir svo gjarnan megninu af matnum á gólfið. Eins freistandi og það er oft að ákveða bara að hætta þessu öllu og gefa barninu tilbúinn barnamat á skvísuformi í öll mál (sérstaklega þegar búið er að eyða löngum tíma í að matreiða lífrænt hráefni sem er ýmist ekki litið við eða notað í kastæfingar) þá minni ég sjálfa mig á að þetta sé bara tímabil og að með því að bjóða upp á fjölbreytt og hollt fæði legg ég grunn að heilbrigðum matarvenjum síðar meir. Nýverið gaf landlæknir út ráðleggingar að vel samsettu vegan mataræði fyrir börn frá fæðingu og að sex ára aldri og má finna þær hér. Ég mæli með að kynna sér þessar leiðbeiningar og prenta jafnvel út samantektina og hafa uppi við.

Fyrstu mánuðina á maturinn að vera mjög einfaldur, ýmist maukaður eða í stórum bitum sem barnið nær gripi á og án salts. Smám saman má svo bæta við úrvalið og bjóða upp á fleiri áferðir þar til barnið hefur náð þeim aldri að geta borðað sama mat og heimilismeðlimir. Tíminn þangað til það er hægt getur hins vegar reynst erfiður þar sem þarf að útbúa sérstaklega mat fyrir barnið. Mig langaði því að gefa ykkur nokkrar hugmyndir að vegan mat fyrir börn. Ég notast við aðferðina Barnið borðar sjálft (e. Baby led weaning) sem snýst í grunninn um að mata barnið ekki heldur leyfa því sjálfu að snerta, skoða, handleika fæðuna og setja hana upp í sig. Ýmsir kostir fylgja þessari aðferð, svo sem bætt melting, þjálfun kjálkavöðva ásamt því sem aðferðin hjálpar til við grófar og fínar hreyfingar. Fyrst og fremst finnst mér aðferðin hins vegar losa á þeirri togstreytu sem á það til að myndast þegar foreldri keppist við að koma mat ofan í barnið sem er kannski ekki lengur svangt eða vill sjálft fá að halda á skeiðinni. Með þessu ræður barnið ferðinni og getur lært að hlusta á hungur- og seddumerki líkamans og átt í heilbrigðu sambandi við mat síðar meir.

Matarstellin á myndunum koma frá Matchstick Monkey og fást til dæmis hér og með kóðanum graenkerar20 býðst ykkur 20% afsláttur af matarlínunni. Ég er sérstaklega hrifin af skálinni sem er áföst við mottu þar sem minn yngri nær ekki að rífa hana af borðinu og hefur því neyðst til að láta kastæfingar vera og prófa að borða matinn. Snarlmottan og hólfaskipti diskurinn finnast mér einnig frábær því þau hvetja mig til að auka fjölbreytnina. Ég reyni að hugsa þetta þannig að þó svo að grænmeti á diskum sé kannski ekki borðað þá sýni það að grænmeti er hluti af matartíma heimilisins.

Vegan matarhugmyndir

Morgunmaturinn okkar er langoftast hafragrautur. Stundum útbý ég hafra-kínóagraut því kínóa er svo góður prótíngjafi. Þá sýð ég 1 dl af kínóa, 1 dl af höfrum í 2 dl af vatni og bæti svo við 3-4 dl af ósætri plöntumjólk eftir þörfum. Til að auðvelda þeim yngri að borða grautinn sýð ég hann lengi, eða í um 30 mín, svo hann sé mýkri. Mér finnst frábært að toppa grautinn með frosnum bláberjum (ég mæli með að kaupa frosin íslensk aðalbláber í Vegan búðinni), banana og ceylon kanil. Mikilvægt er að nota Ceylon kanil því hann inniheldur lítið sem ekkert af bragðefninu kúmarín sem hefur verið tengt við lifrarskaða ef neytt í háum skömmtum.

Í millimál finnst mér frábært að grípa í súrdeigsbrauð og heimagerðan hummus. Fyrir yngri strákinn minn sem er 10 mánaða sleppi ég alfarið salti þegar ég geri hummusinn en sá eldri fær smá salt. Banana finnst mér virka best að bera fram með því að skera hann til helmings eða í þrennt og rífa hann svo í lengjur með fingrunum eftir „línunum“ sem eru í banananum. Þannig fást mátulega langar og þykkar bananalengjur sem barnið á auðvelt með að ná gripi á. Ég set gjarnan hnetusmjör á bananann og til að hann verði ekki of sleipur getur hjálpað að strá t.d. hampfræjum eða kókosmjöli yfir.

Hér er dæmi um einfaldan aðalrétt sem barnið getur borðað sjálft. Heimagerðum hummus blanda ég saman við heilhveitipasta og ber fram ásamt gufusoðnum gulrótum og brokkólí. Ég reyni alltaf að bæta góðri, kaldpressaðri ólífuolíu við matinn til að tryggja að barnið fái góða fitu. Fyrir allra yngstu börnin getur verið gott að mauka grænmetið alveg eða hafa það í enn stærri bitum en upp úr 9-10 mánaða má fara að gefa bitastærðir sem barnið getur sjálft tínt upp í sig.

Tortilla er frábær matur sem hægt er að útbúa samtímis fyrir alla fjölskylduna. Ég útbý baunasalsa úr svartbaunum, tómötum, papriku og kryddum en fyrir þá fullorðnu er gott að bæta við salti og salsa sósu. Hér væri svo gott að prófa sig áfram með ferskar kryddjurtir eins og kóríander. Ég ber einnig fram soðin hýðishrýsgrjón og kasjúhnetu-sýrðan rjóma sem ég útbý með því að setja kasjúhnetur í blandara ásamt vatni, sítrónusafa, næringargeri og smá eplaediki. Eldri hluti fjölskyldunnar fær svo hefðbundið guacamole en sá yngsti fær avókadó í stórum sneiðum sem hægt er að halda á og naga.

Einn allra uppáhalds réttur yngri stráksins míns er krakkapítsa sem inniheldur fyrst og fremst linsubaunir, kínóa og kasjúhnetur. Botninn geri ég úr linsubaunum sem ég sýð ásamt kínóa. Út í þetta bæti ég spelti eða heilhveiti ásamt örlitlu vínsteinslyftidufti og smá olíu þar til úr verður deig. Ég breiði deigið út og forbaka í um 20 mín á meðan ég útbý kasjúhnetuost með því að setja kasjúhnetur, næringarger, sítrónusafa og smá kókosolíu í blandara. Fyrir eldri börn og fullorðna er gott að setja örlítið salt og döðlusýróp út í. Ég smyr lífrænni pastasósu eða tómötum í dós á deigið, dreifi svo ostinum yfir og baka þar til osturinn hefur brúnast. Loks sker ég pítsuna í lengjur sem gott er að halda á.

Þessar matarhugmyndir fyrir börn væru ansi fábrotnar ef ég væri ekki með allavega eina hugmynd af eftirrétt. Þessa uppskrift fékk ég frá ömmu Ólöfu og er einhver allra einfaldasta hrákökuuppskrift sem ég hef prófað – en gríðarlega bragðgóð. Lítill pakki af döðlum (250g) er settur í matvinnsluvél ásamt einum banana, 2 dl af haframjöli og 2 msk. af kakó. Deiginu er þrýst í form og skornum banönum og kiwi dreift yfir. Loks er kakan toppuð með ferskum berjum. Kakan hentar fullkomlega í barnaafmæli eða bara sem eftirréttur í veislu þar sem fullorðnum finnst hún ekki síður góð.

Ég læt þetta nægja af matarhugmyndum en sé fyrir mér að bæta í hugmyndabankann á næstunni og hafa jafnvel nákvæmar uppskriftir.

Færslan er unnin í samstarfi við Apaketti ehf.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri færsla Næsta færsla