Þessa uppskrift hef ég haft í miklu uppáhaldi í þó nokkur ár en var aldrei búin að skrifa niður nákvæma uppskrift fyrr en nú. Einhverjum þykir kannski undarlegt að nota svartbaunir í kökubakstur en ég get fullyrt að það mun enginn finna neitt svartbaunabragð heldur gefa þær kökunum dásamlega mýkt og bæta næringarinnihald þeirra auðvitað verulega. Segja má að þetta séu svona kökur sem má borða í kaffitímanum án þess að fá sér eitthvað hollt fyrst (voru ekki annars allir látnir byrja að borða eitthvað hollt áður en sætindin voru dregin fram?)
Uppskriftin er ansi einföld en hráefnunum er einfaldlega skellt í matvinnsluvél og svo er kakan bökuð í 15 mínútur. Ég veit allavega fátt þægilegra til að baka þegar ég á von á gestum og hef lítinn tíma.
Brúnkurnar innihalda ekki hvítt hveiti heldur nota ég hafrahveiti sem ég útbý með því að setja haframjöl (glútenlaust ef vill) í blandara. Ég blanda haframjölið þar til fíngert hveiti hefur myndast. Hafrahveiti er að mínu mati mjög vanmetið en ég nota það í langflestan bakstur, hvort sem ég ætla að gera glútenlaust eða ekki, þar sem það er bragðgott, bindur deigið vel saman og er auðvitað miklu hollara en hvítt hveiti.
Kökurnar eru dásamlegar volgar úr ofninum með glasi af ískaldri plöntumjólk en mér finnst þær einnig góðar þegar þær hafa kólnað og tek þær hiklaust með mér í nesti daginn eftir. Fyrir ykkur sem stundið útivist eru kökur sem innihalda meðal annars svartbaunir, haframjöl og möndlusmjör auðvitað frábærar sem bragðgóður orkubiti í fjallgönguna.
Verði ykkur að góðu!