Stökkar kjúklingabaunir

 

Þessi uppskrift varð til fyrir algjöra tilviljun þegar við mamma vorum að prufa ný álegg á pítsu. Í ljós kom að ofnbakaðar kjúklingabaunir passa ekki bara vel á pítsur heldur eru einstaklega góðar einar og sér. Eiginlega það góðar að það var ekkert eftir þegar við ætluðum að setja þær á pítsuna svo við enduðum á að gera annan skammt. Kjúklingabaunirnar eru marineraðar í kryddlegi og svo bakaðar í ofni þar til þær verða stökkar að utan og nokkurn veginn holar að innan. Úr verður hið besta snakk sem passar fullkomlega með köldum bjór.

 

 

Kjúklingabaunir eru einar fyrstu baunirnar sem ég byrjaði að borða og held ég að þetta sé góð byrjendauppskrift fyrir þá sem eru óvanir baunum. Baunirnar þarf nefnilega alls ekki að borða sér heldur má t.d. strá þeim á salat eða setja á pítsu.

 

Kjúklingabaunasnakk er einnig sniðugt fyrir þá sem huga að hollustu en kjúklingabaunir innihalda fáar kaloríur en eru hins vegar stútfullar af trefjum og prótíni. Engin olía er notuð í uppskriftina en baunirnar eru kryddaðar með cayenne pipar sem eykur brennslu líkamans. Síðast en ekki síst er uppskriftin sérlega einföld og ódýr.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 1 dós kjúklingabaunir, safanum hellt af
  • 1 msk tamari sósa
  • 1 tsk hlynsýróp
  • Salt og pipar
  • Cayenne pipar eða chili

Aðferð:

  • Kveikið á ofninum og stillið á 170°.

  • Hellið vökvanum af kjúklingabaununum og skolið þær vel.

  • Blandið hráefnunum saman í skál og geymið látið marinerast í kæli í hálftíma. Ef asi er á fólki má alveg sleppa því að bíða í hálftíma og setja baunirnar strax í ofninn.

  • Dreifið kjúklingabaununum á bökunarplötu með bökunarpappír. Setjið baunirnar í ofninn og bakið í 30-40 mín.

  • Eftir að baunirnar eru teknar úr ofninum er gott að láta þær aðeins standa og kólna en við það verða þær enn stökkari.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift