Glútenlaus bakstur… hvar á ég að byrja? Frá því að mamma greindist með glútenóþol fyrir mörgum árum síðan hef ég átt í ástar- hatursambandi við glútenlausan bakstur. Ég hef ótrúlega gaman af áskorunum í matargerð og er alltaf full bjartsýni þegar ég dreg fram glútenlausa mjölið. Þegar afurðin fer í ofninn renna hins vegar á mig tvær grímur og þegar ég smakka afurðina þá man ég af hverju bakstur er almennt með glúteni. Það er einfaldlega ekki einfalt að gera hefðbundinn bakstur glútenlausan.
Ég hef sannarlega leitað logandi ljósi að leiðum til að geta gert hefðbundnar uppskriftir nema glútenlausar og oft tekist frábærlega til, svo sem með þessum glútenlausu vöfflum og kryddbrauði. Einhvern veginn hef ég þó aldrei náð að gera almennilega, klassíska súkkulaðiköku sem er glútenlaus. Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hversu oft ég og mamma höfum ákveðið að í dag sé dagurinn þar sem okkur mun loksins takast ætlunarverkið og mamma getur fengið súkkulaðikökuna sem hún á skilið (enda eiga góðar mömmur alltaf skilið súkkulaðikökur) en lokaafurðin er ýmist þurr og mjölkennd, seig eins og skósóli, vond á bragðið eða einhvern vegin allt á sama tíma. Þið megið reyndar taka þessum orðum mínum með smá fyrirvara því ég var orðin mjög bitur út í glútenlausan bakstur og er kannski örlítið dramatísk. Án allra ýkja þá var þetta þó aldrei sérlega vel heppnað – þar til núna!
Fyrir nokkrum mánuðum tókst mér að gera undursamlega góða glútenlausa súkkulaðiköku og hef núna gert hana margoft og útfært sem bollakökur, skúffuköku eða þriggja hæða hnallþóru. Sem betur fer skráði ég uppskriftina niður og heppnast kakan því í hvert einasta sinn. Elsku besta mamma mín getur loksins fengið súkkulaðiköku! Ef þið eruð sjálf með glútenóþol eða þekki einhvern slíkan sem á skilið súkkulaðiköku þá megið þið eiginlega ekki láta þessa uppskrift fara fram hjá ykkur.
Ég verð að viðurkenna að uppskriftin sjálf var hálf tilraunakennd og ég veit ekki hvað það er nákvæmlega sem gerir kökuna svona góða svo ég verð að ráðleggja ykkur að fylgja uppskriftinni mjög vel. Mig grunar að lykillinn felist í kasjúhnetumaukinu (kasjúhnetur og vatn í blandara) sem gerir kökuna raka og djúsí ásamt duftinu xanthan gum sem bindur glútenlausa mjölið saman. Slíkt er auðvitað mjög mikilvægt þar sem glútenlaust mjöl inniheldur (augljóslega) ekki glúten en það er í raun “límið” sem bindur hveiti saman.
Uppskriftin er mjög stór, enda nægir hún í þriggja hæða köku, og passar líka í skúffu ef þið viljið frekar útfæra hana sem skúffuköku. Vel mætti líka sjá fyrir sér að helminga hana og setja í stórt hringform til að gera köku á einni hæð. Með kökuupskriftinni fylgir svo uppskrift að vegan saltkaramellukremi sem er allra besta krem sem ég hef smakkað!
Verði ykkur að góðu!
1 Comments
Ása
08/24/2023 at 5:41 pm
Sæl,
Ekki búin að prófa, en mikið er kaan falleg