Fullkomnar falafel bollur með tahini sósu

Ég ELSKA falafel en því miður finnst mér ég einungis fá gott falafel á veitingastöðum. Ég hef margoft gefið frosnu bollunum séns eða reynt að gera sjálf en alltaf orðið fyrir vonbrigðum með útkomuna: þurrar og bragðdaufar bollur sem molna. Ég ákvað að gera eina lokatilraun um daginn og gera falafel bollurnar þá alveg eins og á að gera þær. Lykilatriðið sem ég hef alltaf klikkað á (sennilega því ég skipulegg máltíðir ekki fyrirfram og hata að þurfa að bíða) er að nota þurrar kjúklingabaunir sem eru lagðar í bleyti yfir nótt. Ég veit ekki hversu oft ég hef talið mér trú um að þetta geti nú varla skipt miklu máli en treystið mér: þetta breytir öllu!

Hráefnalistinn er kannski aðeins lengri en sum ykkar eruð vön en einfaldleiki uppskriftarinnar bætir upp fyrir það. Öllum hráefnunum, nema einu, er nefnilega skellt saman í matvinnsluvél og blandað. Ef matvinnsluvélin er öflug þurfið þið ekki einu sinni að saxa hráefnin áður! Því næst eru bollur mótaðar úr blöndunni og þær loks djúpsteiktar eða steiktar á pönnu upp úr olíu.

Fersku kryddjurtirnar gefa bollunum dásamlegt bragð og fallega grænan lit og vinnan við að leggja kjúklingabaunirnar í bleyti (eru ekki annars fleiri en ég sem mikla þetta svona fyrir sér?) skilar sér margfalt. Niðurstaðan verður þessar dásamlega bragðgóðu og djúsí bollur sem virðast fátt eiga sameiginlegt með þurra, bragðdaufa falafelinu sem þið mörg þekkið, að nafninu undanskildu.

Bollurnar má bera fram í vefju eða borða eintómar með tahini sósu. Tahini (eða sesamsmjör), nota fæstir að staðaldri nema kannski í hummusgerð, en þetta undarlega hráefni leynir mikið á sér. Sjálft sesamsmjörið er bragðmikið, beiskt og að mínu mati nánast óætt eintómt en þegar búið er að bragðbæta það með sítrónusafa, hvítlauk, smá sætu og salti umbreytist það í bragðgóða og silkimjúka sósu sem passar fullkomlega með falafel bollum. Ef tahini er ekki ykkar tebolli eru bollurnar einnig frábærar með raita jógúrtsósu.

Verði ykkur að góðu!

Prenta uppskrift

Hráefni:

Falafel bollur (um 40 stk.)

  • 1 bolli þurrkaðar kjúklingabaunir, lagðar í bleyti yfir nótt eða í yfir 8 klst.
  • 1 laukur, gulur laukur eða rauðlaukur
  • 3-4 hvítlauksrif
  • 1 búnt fersk steinselja, 30 g
  • 1 búnt ferskt kóríander, 30 g
  • 1 dl sesamfræ
  • 2 tsk. cumin
  • 1/4 tsk. kardimommuduft
  • 1/2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. sítrónusafi
  • 1 tsk. salt
  • 1-2 msk. Gram mjöl eða hveiti, eftir þörfum

Tahini sósa:

  • 1 dl tahini, ég mæli með ljósu
  • 1 dl kalt vatn
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • 4 msk. sítrónusafi
  • 1 tsk. hlynsýróp
  • 1/2 tsk. salt

Aðferð:

Falafel bollur:

  • Leggið kjúklingabaunirnar í bleyti í 8 klst. eða yfir nótt í lokuðu íláti með nægu vatni.

  • Saxið lauk og kryddjurtir og pressið hvítlauk. Sigtið vatnið frá kjúklingabaununum.

  • Setjið öll hráefnin nema Gram mjölið/hveitið í matvinnsluvél og blandið í 40-60 sek. eða þar til blandan er smágerð, klístruð og festist vel saman.

  • Bætið við Gram mjöli eða hveiti þar til auðvelt er að móta bollur úr blöndunni.

  • Ágætt er að leggja blönduna í lokað ílát og geyma í um klukkutíma inni í ísskáp til að auðveldara sé að gera bollurnar, en þess þarf þó alls ekki.

  • Mótið litlar bollur (eða flata klatta) úr deiginu.

  • Til að djúpsteikja bollurnar er best að hita olíu í potti við miðlungshita. Þegar olían hefur náð hita eru bollurnar settar út í og steiktar í um 1-2 mínútur eða þar til þær hafa brúnast. Ef þær eru fljótari en það að steikjast skal lækka hitann á olíunni svo þær eldist örugglega í gegn.

  • Einnig má steikja bollurnar á pönnu en þá mæli ég með að fletja þær í klatta. Klattarnir eru steiktir í 1-2 mínútur við miðlungshita upp úr nægri olíu á báðum hliðum.

  • Bollurnar eru langbestar beint úr steikingu, annaðhvort eintómar með tahini sósu eða inn í vefju.

Tahini sósa:

  • Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið þar til úr verður silkimjúk sósa. Smakkið til og bætið við sítrónusafa, hlynsýrópi eða salti eftir smekk.

  • Ef afgangur varð af fersku kryddjurtunum er gott að saxa þær smátt og hræra út í tahini sósuna ásamt örlitlu cumin dufti.

4 Comments

  • Gerður

    03/21/2022 at 1:02 pm

    Þarf ekki að sjóða baunirnar?

    1. Grænkerar

      03/21/2022 at 2:05 pm

      Í ekta falafelbollum eru baunirnar ekki soðnar heldur eingöngu lagðar í bleyti yfir nótt eða í yfir 8 klst. Það munar ótrúlega miklu að gera bollurnar svoleiðis þótt það sé vissulegra einfaldara að nota úr dós.

  • Jói

    06/19/2022 at 2:52 am

    Líst vel á þetta, er hægt að baka í staðinn fyrir að steikja?

    1. Grænkerar

      06/19/2022 at 10:08 am

      Sæll,
      Ég hef sjálf ekki gert það en það ætti alveg að ganga 🙂

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift