Í nokkurn tíma hef ég verið að vinna mig meira í áttina að því sem kallast plöntu- og heilfæði , eða whole food plant based, þar sem er lögð áhersla á lítið unna matvöru. Ég er aðeins of hrifin af vegan kjöti (sérstaklega vegan hakki) og eins frábært og það er að hafa slíka valkosti er auðvitað miklu hollara að temja sér að nota minna unna matvöru, svo sem baunir, tófú eða grænmeti. Mig langaði að útbúa sæta kartöflu með mexíkóskri fyllingu og ákvað að í stað þess að reiða mig á vegan hakk, tilbúna kryddblöndu og salsa sósu í krukku að notast við lítið eða óunninn mat. Uppskriftin inniheldur því eingöngu grænmeti, baunir og kryddjurtir, ólífuolíu og salt auk þess sem heimagerði sýrði rjóminn er með vegan sojajógúrt (sem er mest unna matvaran í þessari máltíð).
Þrátt fyrir að hafa verið vegan í rúmlega 6 ár þá kom það mér á óvart hvað það er hægt að fá dásamlegt bragð með því að notast eingöngu við óunna hrávöru. Með því að blanda saman baunum, grænmeti, þrenns konar lauk, fersku kóríander, lime safa, ólífuolíu og salti verður úr fersk og dásamlega bragðgóð fylling sem myndar mótvægi við mjúka sætu kartöfluna en er ekki síðra eintómt. Avókadó er auðvitað algjör staðalbúnaður í mexíkóskri matargerð en ég valdi fyrir þennan rétt að hafa þetta einfalt og stappa það ásamt lime safa og salti. Vel má gera klassískt lárperumauk (guacamole) en þar sem fyllingin inniheldur flest sömu hráefnin og eru sett út í slíkt þá fannst mér því ofaukið. Heimagerði sýrði rjóminn kemur síðan verulega skemmtilega á óvart og ég mæli með að gera nóg af honum.
Rétturinn er í raun ósköp einfaldur í framkvæmd því að á meðan kartöflurnar bakast er fyllingin, lárperumaukið og sýrði rjóminn útbúinn. Þegar kartöflurnar eru bakaðar í gegn eru þær einfaldlega skornar, settar á disk og fyllingunni raðað í. Ég mæli með að hafa eina sæta kartöflu á mann en velja þó kartöflur í smærri kantinum þar sem rétturinn er matarmikill.
Verði ykkur að góðu!