Konur og dýr

Samfélög manna hafa sannarlega breyst mikið á seinustu árhundruðum og margt af því sem telst óásættanlegt í dag þótti venjulegt fyrir hundrað árum. Undirrót flestra róttækra úrbóta á félagslegum kerfum má rekja til hinna ýmsu mannréttindahreyfinga sem hruttu af stað breytingum. Hvort sem um er að ræða kynþáttafordóma, þrælahald, undirokun kvenna, mansal eða dýraréttindi hafa grasrótarhreyfingar oft markað upphafið að breyttum hugsunarhætti og loks lagalegum og félagslegum úrbótum.
            Kvenréttindabaráttan fór vaxandi frá miðri 19. öld og hafa nú liðið þrjár bylgjur femínisma með ólíkum áherslum og sigrum og í dag er jafnrétti sjálfsögð krafa í flestum samfélögum. Margt er þó enn óunnið í kvenréttindum og ljóst er að þrátt fyrir að baráttan hafi náð miklum árangri (sérstaklega á Vesturlöndum) er enn langt í land. Hins vegar má segja að dýraréttindahreyfingin sé einungis rétt á byrjunarstigum og mæta slíkar hreyfingar, sem berjast fyrir réttindum eða frelsun dýra, gjarnan mikilli mótstöðu. Dýraréttindabaráttan verður þó sífellt meira áberandi og í dag er mörgum orðið ljóst að það hvernig við komum fram við dýr sé, upp að vissu marki, siðferðilega rangt. Sumir telja að nóg sé að veita dýrum í verstu aðstæðunum betri lífsskilyrði en aðrir halda því fram að dýr eigi að hafa réttindi og krefjast þess jafnvel að öll notkun á dýrum sé aflögð.
            Tengsl kvenréttinda og dýraréttinda eru ekki endilega augljós en hér verða þeim gerð skil og mikilvægi þeirra undistrikað. Rök Peter Singer og Tom Regan um stöðu og réttindi dýra verða skoðuð og gengið út frá því að okkur beri að stækka siðferðimengi okkar til að veita dýrum inngöngu þangað inn. Dýrasiðfræði verður könnuð í samhengi við kvenréttindi og femínisma og ólíkar stefnur skoðaðar sem eiga það sameiginlegt að sameina kvenréttindi og dýrasiðfræði. Sú hugmynd verður rökstudd að undirokun kvenna og dýra eigi sér sameiginlega fleti og því haldið fram að baráttu femínisma og dýraréttindisinna eigi ekki að aðskilja heldur þurfi þessar stefnur, upp að vissu marki, að vinna saman.

Undirokun kvenna og dýra

Áhugavert er að velta því fyrir sér hvers vegna dýr og konur hafi verið og séu oft enn undirsett í flestum samfélögum manna og sömuleiðis skoða einkenni þeirrar misskiptingar. Margt er líkt í framkomu mannsins gagnvart konum og dýrum sem virðist rökstyðja þá tilgátu að kúgun dýra eigi erindi upp á borð hjá femínistum. Ljóst er að kerfisbundin, kynbundin hlutgerving og ofbeldi, sem oft er samfélagslega viðurkennt, á sér sannarlega stað gagnvart bæði konum og dýrum og má því segja að kynhyggja og tegundahyggja eigi margt sameiginlegt.

Kynhyggja og tegundahyggja

Sem dæmi um kynhyggju þá eru konur gjarnan hlutgerðar í fjölmiðlum og dægurmenningu sem hvetur til þess viðhorfs að konur séu einhvers konar hlutir og að tilvist þeirra gegni þeim tilgangi til að uppfylla hvatir karla. Aktívistinn og femínistinn Jean Kilbourne segir að hlutgerving manneskju sé fyrsta skrefið til að réttlæta ofbeldi gagnvart þeim einstaklingi. Dýr eru sömuleiðis hlutgerð en mannfólk sér þau gjarnan eingöngu sem vörur eða mat en ekki lifandi einstaklinga sem upplifa þjáningu og hafa tilfinningar. Með því að líta á dýr sem matvöru, efnivið í föt, viðfangsefni tilrauna eða skemmtiefni erum við að hlutgera þau og réttlæta ofbeldi gegn þeim. Hlutgerving dýra hefur náð því stigi að margir líta svo á að tilvist dýra sé eingöngu sú að uppfylla þarfir og langanir mannsins. Þannig er litið á dýr og konur, ekki út frá þeim sjálfum og eigingildi þeirra, heldur út frá notagildi þeirra fyrir manninn.
            Sem annað dæmi um líkindi í kúgun kvenna og dýra má nefna kynbundið ofbeldi en dýraiðnaðurinn byggir á kerfisbundnu ofbeldi, kúgun og sæðingu þar sem kvendýr eru stöðugt látin bera afkvæmi eða verpa eggjum. Á sama tíma berjast konur um allan heim fyrir réttinum til að fá aðgang að getnaðarvörnum og fara í þungunarrof – réttinum til að ráða yfir eigin æxlunarfærum. Að auki tíðkast kynbundið ofbeldi gagnvart konum sem kristallast í nauðgunarmenningu og heimilisofbeldi. Eignarhald yfir konum hefur verið notað til að réttlæta kúgun þeirra, ofbeldi gagnvart þeim og jafnvel kynferðislega misnotkun. Með sama hætti er litið á dýr sem eignir og ofbeldi og kúgun þeirra réttlætt með sömu rökum. Hér mætti halda áfram og nefna t.d. að ofbeldi gegn dýrum á borð við gæludýr er algengur fylgifiskur ofbeldis gegn konum og börnum og að kjötát virðist vera tengt við karlmennsku á meðan mataræði sem inniheldur lítið eða ekkert kjöt er gjarnan talið hæfa konum. Ofangreind dæmi koma úr ólíkum áttum en sýna vel tengsl hins karllæga við yfirráð og valdbeitingu á konum jafnt sem dýrum.

Tvíhyggja

Sú staðreynd að bæði konur og dýr hafi verið, og séu enn, flokkuð utan siðferðilegs mengis manna er engin tilviljun og er gagnlegt að skoða þá misskiptingu út frá hugtakinu um tvíhyggju. Tvíhyggja (e. dualism) byggir á því að merking fyrirbæra og hugtaka fæst með því að stilla hlutum upp sem andstæðum Þannig er hinum ýmsu fyrirbærum og hugtökum skipt upp í pör sem mynda andstæður; karl/kona, hvítur/svartur, skynsemi/tilfinningar, menn/dýr. Í slíkum pörum myndast hins vegar ákveðið valdaójafnvægi því annar póllinn er gjarnan talinn æðri eða betri en hinn, sem er þá litið á sem „annarlegan“ eða „ómerkilegri“. Tvískipting veitir vissulega ákveðinn grunnskilning á ólíkum fyrirbærum en slíkur hugsunarháttur á það til að litast af einföldun og ala jafnvel á fordómum.
            Femínistinn og heimspekingurinn Simone de Beauvoir segir, í bók sinni Hitt kynið, mannkynið vera karlkyns því karlinn sé sjálfið en konan sé hitt. Þannig er konan ekki skilgreind út frá sjálfri sér heldur út frá því sem hún er ekki – karl. Með sama hætti eigum við það til að skilgreina dýr út frá tvíhyggjuparinu maður/dýr en þannig skiljum við dýr út frá þeim eiginleikum sem aðgreina þau frá manninum. Konur og dýr eru bæði „annarleg“ samkvæmt slíkum tvíhyggjuvenslum og lenda undir í valdastrúktúr sem skipar manninn efst sem kórónu sköpunarverksins og drottnara jarðar, með umráð yfir konum og dýrum.

Kvenréttindi og dýraréttindi

Eins og fyrrnefnd dæmi og hugmyndir tvíhyggjunar sýna okkur á undirokun kvenna og dýra marga sameiginlega fleti, bæði hvað varðar birtingarmyndir og orsakir, og geta þessar tvær réttindabaráttur því fylgst að. Femínisma og dýrasiðfræði þarf því að skoða í samhengi hvort við annað. Dýraréttindabaráttunni svipar til hreyfinga á borð við femínisma og kynþáttajafnrétti að mörgu leyti en kannski er augljósasta einkennið það að verið er að krefjast útvíkkunar á siðferðilegu mengi okkar til að veita ákveðnum hópi eða hópum inngöngu þangað inn. 

Dýraréttindi út frá Singer og Regan

Munurinn á mönnum og dýrum er gjarnan notaður til að hafna réttindum dýra og neita þeim um inngöngu í siðferðimengi okkar. Heimspekingurinn Tom Regan segir í grein sinni The Case for Animal Rights að vissulega búi dýr ekki yfir öllum þeim sömu eiginleikum og mannfólk, en svo geri heldur ekki allt mannfólk. Heimspekingurinn Peter Singer rökstyður með svipuðum hætti í grein sinni All Animals are Equal að munurinn á milli manna og dýra réttlæti ekki þá misskiptingu og meðferð sem tíðkast á dýrum. Mannfólk er jafn ólíkt og það er misjafnt og ef við byggjum mannréttindi og jafnrétti á þeirri hugmynd að allt mannfólk sé í grunninn eins (óháð t.d. kyni eða kynþætti) er hættan sú að jafnréttið riði til falls ef komi í ljós að einhver grundvallarmunur sé svo til staðar. Með orðum Singer: „In short, if the demand for equality were based on the actual equality of all human beings, we would have to stop demanding equality. It would be an unjustifiable demand.“ Með sama hætti má taka dæmi um ungabörn eða mannfólk sem býr við verulega þroskaskerðingu sem gerir því ekki kleift að uppfylla þau skilyrði sem almennt er talið að aðskilji menn frá dýrum. Við viljum, og eigum, að veita slíku fólki réttindi og góð lífsskilyrði, þrátt fyrir að þau uppfylli einungis það skilyrði að vera af tegundinni Homo sapiens. Singer telur óréttlætanlegt að draga mörkin við tegund og segir að við getum ekki neitað dýrum um siðferðileg réttindi án þess að gerast sek um tegundahyggju (e. speciesism).
            Rök Singer fyrir því að við eigum að veita dýrum réttindi kristallast í hinum frægu orðum Bentham: “The question is not, Can they reason?, nor Can they talk? but, Can they suffer?“ en samkvæmt honum er þjáningin grundvöllur dýraréttinda. Regan segir aftur á móti að það sem skipti mestu máli sé að við mennirnir eigum það sameiginlegt með dýrum að vera, hvert og eitt, upplifandi viðfangsefni lífs eða „the experiencing subject of a life“ og því eigi dýr að hafa eigingildi, rétt eins og mannfólk. Fyrir honum er grundvallarmisgjörðin ekki sú að valda dýrum sársauka (þrátt fyrir að slíkt sé sannarlega rangt), heldur sú að við höfum skapað kerfi sem gerir mönnunum kleift að koma fram við dýr eins og auðlindir eða vörur sem við getum nýtt okkur til matar, klæðnaðar, skemmtunar eða annars. Hugmyndir Singer og Regan eru rökstuddar með ólíkum hætti og út frá ólíkum heimspekistefnum en þeir komast að sömu niðurstöðu – þörf er á róttækum breytingum á hugsunarhætti okkar og framkomu gagnvart dýrum.

Femínismi

Femínismi á uppruna sinn í kvenréttindahreyfingum frá miðri 19. öld og síðan þá hafa komið nokkrar bylgjur femínisma með ólíkar áherslur og baráttumál. Femínisma má því skilgreina með gríðarlega margbreyttum hætti og er ekki einhugur milli femínista um hvað stefnan eigi að fela í sér eða leggja áherslu á. Það sem er hins vegar sameiginlegt milli hinna ólíku stefna er að femínistar gera sér grein fyrir því að komið er fram við konur með öðrum hætti en karla, á grundvelli kyns, og að þær hafi ekki sömu réttindi eða tækifæri. Femínistar ganga út frá því að þessi misskipting sé komin til vegna samfélagsins og að henni þurfi að breyta.
            Súffragettan Rebecca West skilgreindi femínisma sem þá grundvallarhugmynd að konur væru fólk. Þannig hlytu konur að eiga skilið sömu tækifæri og réttindi og annað fólk. Í grein sinni All Animals are Equal nefnir Peter Singer að gert hafi verið grín að kvenréttindahreyfingunni með þeim skilaboðum að það að veita konum réttindi væri líkt og að veita dýrum réttindi. Þannig var konum líkt við dýr og talið að kosningaréttur kvenna væri jafn óhugsandi eða fáránlegur og kosningaréttur hunda eða hesta. Þrátt fyrir að hugmyndir um dýraréttindi hafi verið notuð gegn kvenréttindum í gegnum tíðina þurfa þessar hreyfingar þó ekki að vera andstæðar. Tom Regan heldur því einmitt fram að baráttan fyrir réttindum dýra sé samstefna mannréttindabaráttum og að með því að krefjast réttinda dýra séum við að tryggja enn betur réttindi annarra hópa, svo sem kvenna. Eins og Regan orðar það: „The animal rights movement is cut from the same moral cloth as these“.
            Ljóst er að mikilvægt var að aðskilja femínisma frá dýraréttindum, rétt eins og mikilvægt var (og er jafnvel enn) í baráttu svartra að aðskilja svart fólk frá öpum. Aðskilnaður mannkyns frá dýrum hefur staðið nokkuð óbreyttur frá upphafi kvenréttindabaráttunnar en á undanförnum áratugum hafa femínistar þó teygt sig aftur á svið dýra að einhverju leyti og hefur femínismi haft mótandi áhrif á umræðuna um dýravernd eða dýraréttindi. Má þar helst nefna stefnur sem kenna sig við umhyggjusiðfræði (e. care ethics) og kvenlæga vistfræði eða umhverfisfemínisma (e. ecofeminism).
            Umhverfisfemínismi eða kvenlæg vistfræði samtvinnar áherslur umhverfissinna og femínískra hreyfinga með það markmið að koma á hugsunarhætti sem byggir ekki á kerfum valdastrúktúrs og kúgunar. Umhverfisfemínismi undistrikar tenginguna á milli kúgunar kvenna og eyðileggingar náttúrunnar, þar á meðal misnotkunar á dýrum, með þá meginhugmynd að það sé ekki hægt að vinna á kúgun kvenna án þess að berjast samtímis gegn eyðileggingu náttúrunnar og öfugt. Samkvæmt umhverfisfemínistum eru þessi tvö málefni nátengd og samtvinnuð og ber því að nálgast þau með sameiginlegum, heildstæðum hætti. Sigrún Helgadóttir segir að kvenlæg vistfræði sé fræðigrein sem „tekur málstað náttúrunnar jafnt sem þess fólks sem minna má sín í þjóðfélaginu og hafnar allri valdníðslu og ofbeldi.“
            Umhyggjusiðfræði leggur áherslu á umhyggju sem grundvallarstoð alls siðferðis þar sem litið er sem svo að einstaklingar séu háðir hverjum öðrum innbyrðis, með hinum ýmsu samböndum og tengslum, og umhyggja sé þannig grundvöllur félagslegra kerfa og jafnframt leiðin til að endurheimta samband mannkynsins við náttúruna og dýr hennar. Samkvæmt umhyggjusiðfræðingum er umhyggja í flestum samfélögum kynjað fyrirbæri sem elur á undirsetningu ákveðinna hópa, t.d. kvenna og barna. Áhersla er lögð á að að koma á kerfisbreytingum og að allir tileinki sér samkennd og umhyggju, eiginleika sem oft eru taldir kvenlegir. Samkvæmt umhyggjusiðfræði ber okkur skylda til að sýna dýrum umhyggju því við erum nátengd þeim og oft í miklu samneyti við þau. Umhyggjan nær þannig lengra en einungis til manna og er öðrum dýrum hleypt inn í siðferðismengi umhyggjusiðfræðinnar. 

Veganismi

Ofangreindar siðferðistefnur hafa samtvinnað femínisma og dýrasiðfræði með áhugaverðum og áhrifaríkum hætti en fáar stefnur má segja að séu jafn róttækar í baráttunni fyrir dýraréttindum en sú sem kallast veganismi. Veganismi er siðferðistefna en ekki síður réttlætisbarátta því veganismi er róttæk og almenn baráttuhreyfing fyrir réttindum dýra. Hugmyndafræði veganisma snýst um að menn hafi ekki siðferðislegan rétt til að nýta sér dýr, hvorki til matar, klæðnaðar, skemmtunar eða annars. Þeir sem aðhyllast veganisma lifa því samkvæmt þessum hugsunarhætti og neyta ekki dýra, afurða þeirra eða misnota þau á annan hátt.
            Umfjöllun um dýraréttindi er þó sjaldnast tengd við kvenréttindi, rétt eins og umfjöllun um femínisma er sjaldnast tengd við baráttu fyrir réttindum dýra (þó með mikilvægum undantekningum eins og kom fram að ofan). Dýraverndunarsamtök á borð við PETA hafa sætt harðri gagnrýni fyrir auglýsingar sem virðast markaðsetja kvenlíkamann, oft á kynferðislegan hátt, til að reyna að ná til fólks. Auglýsingarnar hafa oftast nokkuð skýran tilgang á borð við að berjast gegn tilraunum á dýrum, kjötáti eða dýragörðum en hins vegar er ekki að undra að femínistar bregðist harkalega við auglýsingunum þar sem þær virðast sameina flest það sem barist er gegn í framsetningu kvenna í fjölmiðlum – hlutgervingu, kynferðisleg skilaboð og jafnvel niðurlægingu. Tilgangur auglýsinga af þessu tagi nær ekki að helga meðalið því markaðssetning kvenlíkamans með þessum hætti er andstæð femínískum gildum og traðkar þannig á baráttu kvenna um allan heim og dýraverndunarbaráttan stendur þannig í raun gegn kvenréttindabaráttunni í slíkum tilfellum.
            Aftur á móti eru sumir sem telja vegan lífsstíl mikilvægan hluta af því að lifa samkvæmt femínískum sjónarmiðum og aðhyllast svokallaðan femínískan veganisma. Margir hafa kosið að sniðganga mjólkurvörur vegna þess að kýr, rétt og konur, framleiða mjólk fyrir afkvæmi sín og dýr eiga rétt á að fæða afkvæmi sín rétt eins og mennskar konur gefa börnum sínum brjóstamjólk. Aðrir líta á samkennd og umhyggju sem styrkleika og með því að afneita dýraafurðum þá séu þannig verið að upphefja kvenlega eiginleika sem í kerfum tvíhyggjunnar hefur verið stillt upp gagnvart rökhyggju og valdi karlmannsins. Með því að gerast vegan líta margir svo á að verið sé að hætta þáttöku í kerfi sem styður við valdníðslu og ofbeldi á minnimáttar – sama kerfi og mismunar konum og öðrum hópum. Það má því segja að dýraréttindi og kvenréttindi eigi sér sameiginlega talsmenn sem telja mikilvægt að sameina þessar tvær baráttur.

Lokaorð

Hér hefur verið fjallað um undirokun kvenna og dýra þar sem kynhyggju og tegundahyggju var lýst ásamt tvíhyggju og mikilvægir snertifletir kannaðir – líkindi sem sýna að kúgun kvenna og dýra á sér sömu hugmyndafræðilegu orsakir og oft svipaðar birtingarmyndir. Fjallað var um dýraréttindi úr frá greinum Peter Singer og Tom Regan og komist að þeirri niðurstöðu að þörf er á breytingum í hugsun okkar gagnvart dýrum. Rétt eins og unnið er að því að veita konum um allan heim inngöngu í siðferðilegt mengi manna þarf að útvíkka mengið til að innihalda dýr.
            Mikilvægt var að aðskilja kvenréttindi frá dýraréttindum í upphafi kvenréttindabaráttunnar en með þeim hætti er að vissu leyti unnið innan kerfis tvíhyggjunnar þar sem konur eru einfaldlega færðar nær körlum í mengi siðferðisins og fjær dýrum. Hins vegar er mörgum femínistum í dag orðið ljóst að til að vinna á heildstæðan hátt gegn þeim kerfum kúgunar sem undiroka konur jafnt sem dýr þá þarf einnig að berjast fyrir dýraréttindum. Einnig sýna dæmi um auglýsingaherferðir skýrt að þegar barist er fyrir dýraréttindum án þess að hafa femínísk gildi í huga er hætta á að traðkað verði á baráttu femínista. Fjallað var um stefnur á borð við umhverfisfemínisma, umhyggjusiðfræði og veganisma en þær sameina með ólíkum hætti baráttumál dýraréttindasinna og femínista.
            Með því að sameina upp að vissu marki þessar tvær baráttur, kvenréttindi og dýraréttindi, tel ég hægt að berjast fyrir dýraréttindum án þess að fórna gildum femínista, og öfugt. Ég held því þess vegna fram að kvenréttindi og dýraréttindi ætti ekki að aðskilja heldur þurfi þessar stefnur að vinna saman – vinna gegn kerfum kúgunar, tvíhyggju og ofbeldis.

Reykjavík, 2019
Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir


Heimildir

Prentaðar heimildir:

Adams, Carol J. The Sexual Politics of Meat. New York: Continuum, 2010.

Beauvoir, Simone de. „Hitt kynið: Inngangur.“ Í Simone de Beauvoir: heimspekingur, rithöfundur, femínisti, ritstýrt af Irmu Erlingsdóttur og Sigríði Þorgeirsdóttur, 25-46. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999.

Cheney, Jim og Karen J. Warren. „Ecological Feminism and Ecosystems Ecology.“ Í        Environmental Ethics: An Anthology, ritstýrt af Andrew Light og Holmes Rolston       III, 294-305. Oxford: Blackwell Publishing, 2003.

Cuomo, Chris J. og Kyle Powys Whyte. „Ethics of Caring in Environmental Ethics: Indigenous and Feminist Philosophies.“ Í The Oxford handbook of    environmental ethics, ritstýrt af S. M. Gardiner og A. Thompson, 234-247. New York: Oxford Press, 2017.

Gaard, Greta og Lori Gruen. „Ecofeminism: Toward Global Justice and Planetary Health.“ Í Environmental Ethics: An Anthology, ritstýrt af Andrew Light og Holmes Rolston III, 276-293. Oxford: Blackwell Publishing, 2003.

Hall, Stuart. „The Spectacle of the “Other”.“ Í Discourse Theory and Practice, ritstýrt af Margaret Wetherell, Stephanie Taylor og Simeon J. Yates, 324-344. London: Sage, 2001.

Regan, Tom. „The Case for Animal Rights.“ Í Ethics in Practice: An anthology, ritstýrt af Hugh LaFollette, 192-197. Cambrigde: Blackwell. 2014.

Sigrún Helgadóttir. „Kvenlæg vistfræði.“ Vera 10, nr. 2 (1991): 8-9.

Singer, Peter. „All Animals are Equal.“ Í Ethics in Practice: An anthology, ritstýrt af Hugh LaFollette, 172-180. Cambrigde: Blackwell. 2014.

Vefheimildir:

 “Feminism” Red Letter Press. 27. ágúst 2007. Sótt 8. desember 2019. https://www.bbc.com/news/science-environment-43294221

Fraley, Madeleine. “Media critic Jean Kilbourne speaks on objectification in TV and film.” The Daily Tar Heel. 4. maí 2017. Sótt 8. desember 2019. https://www.dailytarheel.com/article/2017/04/media-critic-jean-kilbourne-speaks-on-objectification-in-tv-and-film

Jacobs, Tom. “Studies Expose “Apelike” Stereotype Among Whites.” Pacific Standard. 1. júní 2018. Sótt 8. december 2019. https://psmag.com/social-justice/studies-expose-apelike-stereotype-among-whites-20708

Pevreall, Katie. “Is PETA’s New Naked Women Campaign Anti Feminist?” Livekindly. 26. júlí 2017. Sótt 8. desember 2019. https://www.livekindly.co/peta-ads-anti-feminist/

“Samtök grænkera á Íslandi.” Samtök grænkera á Íslandi. Án dagsetningar. Sótt 8. desember 2019. http://www.graenkeri.is/

Webber, Jemima. “Women Are Linking Feminism to Veganism More Than Ever.” Livekindly. 16. mars 2018. Sótt 8. desember 2019. https://www.livekindly.co/why-women-are-linking-feminism-to-veganism-more-than-ever/

Þorgerður Einarsdóttir. “Hvað er femínismi og hver er líkleg ástæða til fordóma karla gagnvart femínistum?” Vísindavefurinn. 14. febrúar 2001. Sótt 8. desember 2019. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1337

Ljósmynd er eftir Aron Gauta Sigurðarson

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri færsla Næsta færsla