Jólavörurnar frá Ellu Stínu

Ella Stína er með fimm vörur í sölu fyrir jólin: Aspassúpu, Sveppa-wellington, villisveppasósu, döðluköku og karamellusósu. Seinasta sunnudag eldaði ég alla hátíðarlínuna hennar fyrir mig, manninn og foreldra mína og til að kjarna upplifun okkar í stuttu máli þá fannst okkur þetta svo gott að við erum alvarlega að hugsa um að hafa þetta í matinn á aðfangadag, sennilega allt en að lágmarki stóran hluta máltíðarinnar. Þá er mikið sagt því við erum gríðarlega vanaföst og á mínum 27 árum hef ég aðeins breytt einu sinni um jólamat: þegar ég varð vegan og skipti úr lambahrygg yfir í hnetusteik.

Vörurnar fást til dæmis í Hagkaup, Fjarðarkaup og Melabúðinni og hér að neðan getið þið lesið betur um hvernig ég útbjó þær og mitt álit.

Í forrétt var aspassúpan sem kemur alveg tilbúin frá Ellu Stínu og ég þurfti einungis að hita hana í potti. Með henni hafði ég aspas sem ég bakaði í ofni með ólífuolíu og salti en einnig væri gott að hafa til dæmis súrdeigsbrauð. Ég hef heyrt af því að á mörgum heimilum sé hefð að hafa aspassúpu í forrétt á aðfangadag og aldrei skilið af hverju einhver myndi velja hátíðlegasta dag ársins fyrir eitthvað jafn óspennandi og aspassúpu. Ég hef greinilega ekki verið að smakka réttu súpurnar því eftir að ég smakkaði súpuna frá Ellu Stínu er ég harðákveðin í því að hafa hana í forrétt á aðfangadag og jafnvel áramótunum. Súpan er í raun ótrúlega ólík því hvernig ég hélt að aspassúpa ætti að bragðast og er erfitt að lýsa því en þetta er súpa sem ég gæti séð fyrir mér að fá á góðum veitingastað.

Í aðalrétt eldaði ég Sveppa-wellingtonið einfaldlega með því að pensla það með haframjólk og skella því í ofn. Ég sauð sætar kartöflur og bjó til sætkartöflumús með og sósan kom svo tilbúin frá Ellu stínu. Wellingtonið er ótrúlega hátíðlegt en uppistaðan í því eru ostrusveppir sem bragðast öðruvísi en þessir “venjulegu” sveppir sem við erum vön og held ég að jafnvel þau sem ekki hrífast af sveppum ættu að gefa því séns. Villisveppasósan er síðan einhver allra besta sósa sem ég hef smakkað og tónar fullkomlega með wellingtoninu. Ég sé líka fyrir mér að hún passi með öðrum mat, hvort sem það eru vegan kjötbollur, hnetusteik eða ofnbakað grænmeti.

Eftirrétturinn samanstóð af döðluköku og karamellusósu en ásamt því þeytti ég Alpro rjóma og var með fersk jarðarber. Það er hálf skammarlegt að segja frá því en ég gerði tilraun fyrr á árinu til að baka döðluköku í hollari kantinum og maðurinn minn var vægast sagt lítt hrifinn. Ég þurfti nánast að pína hann til að smakka döðlukökuna frá Ellu Stínu sem ég sá fljótt eftir því kakan var fljót að hverfa eftir að hann komst á bragðið. Það er karamellusósa ofan á kökunni en ég setti meiri sósu yfir kökuna og fannst líka skemmtilegt að bera hana fram til hliðar svo fólk gæti borðað hana með jarðarberjunum.

Ella Stína leggur sig fram við að bjóða upp á góðan mat úr hollum hráefnum og ég finn vel hvað líðanin er góð eftir réttina frá henni. Ég mæli heilshugar með að allir grænkerar prófi hátíðarlínuna hennar núna á aðventunni og einfaldi matseldina fyrir jólin. Ekki síður eru vörurnar sniðugar fyrir þau sem eru ekki vegan en eiga von á grænkerum í jólaboð.

Færslan er unnin í samstarfi við Ellu Stínu

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri færsla