Einn uppáhalds morgunmaturinn minn um helgar er tófúhræra eða scrambled tofu. Það er ótrúlega einfalt að útbúa þessa hræru og hún er gríðarlega prótínrík og saðsöm. Hræran er tilvalin fyrir brunch (eða dögurð eins og það kallast á íslensku) og er gott að bera hana fram ásamt brauði, hummus, acai skál og jafnvel pönnukökum.
Sumir hafa slæma reynslu af tófú en ég get ekki ítrekað nóg mikilvægi þess að elda það og krydda rétt. Fyrir þá sem eru tilbúnir til að gefa tófú annan séns þá er þessi uppskrift tilvalin.
Hræruna er mjög einfalt að útbúa og er hráefnalistinn ekki heilagur. Það sem skiptir mestu máli er að krydda vel og smakka til. Í þessa uppskrift notaði ég það grænmeti sem ég átti til í ísskápnum og úr varð laukur, tómatur og paprika. Vel mætti hins vegar nota sveppi, spínat og chili (eða bara nánast hvað sem fólki dettur í hug). Til að gera hræruna enn matarmeiri notaði ég eina dós af kjúklingabaunum en því má vel sleppa. Einnig finnst mér algjör snilld að setja smá Oatly rjómaost en það gerir hræruna virkilega djúsí. Ég toppaði hræruna með ferskri steinselju og bar fram með ristuðu súrdeigsbrauði og avókadó.
2 Comments
Jónína
02/13/2022 at 12:42 pm
Takk fyrir frábæra síðu. Hlakka til að prufa þessa uppskrift. Þarf að pressa tófukubbinn áður en hann er notaður í hræruna?
Grænkerar
02/13/2022 at 12:48 pm
Sæl, mikið er gaman að heyra að síðan nýtist vel
Það er óþarfi að pressa tófúið heldur má mylja það beint út á pönnuna.