Acai skál

Acai skálar eru gríðarlega vinsælar erlendis enda sameina þær hollustu og dásamlegt bragð. Grunnurinn í acai skálum er gjarnan úr frosnum banönum og berjum ásamt acai dufti. Gott er að toppa skálarnar með ferskum ávöxtum eða berjum, granóla, kókosflögum eða hnetum. Acai skálar eru í raun eitt afbrigði af smoothie skálum en þær koma í öllum stærðum, brögðum og litum.

 

Mikilvægt er að eiga góðan blender eða matvinnsluvél til að gera svona skál því ekki öll tæki ráða við frosna banana. Til að hlífa tækinu getur hjálpað að leyfa frosnu banönunum og berjunum að þiðna í nokkrar mínútur og setja meiri vökva en uppskriftin segir til um. Acai skálin verður aðeins þynnri fyrir vikið en það kemur ekki niður á bragðinu.

 

 

 

Smoothie skálar eru að miklu leyti svipaðar og smoothies (þeytingar) nema þær eru þykkari, borðaðar úr skál og gjarnan toppaðar með einhverju. Það er einhvern veginn meira seðjandi að borða smoothie úr skál heldur en að drekka hann. Svo er bara miklu skemmtilegra að gera smoothie skálar því þær eru svo fallegar! Hægt er að googla „acai bowl“ eða leita að #acaibowl eða #smoothiebowl á instagram til að sjá hvað fólki hefur tekist að gera fallegar, girnilegar og litríkar skálar sem eru skreyttar á spennandi hátt.

 

 

 

Acai ber eru kölluð ofurfæða með réttu en þessi dökkfjólubláu ber eru gríðarlega næringarrík og stútfull af vítamínum, járni og kalki. Þar að auki innihalda berin gífurlegt magn andoxunarefna sem vinna gegn sindurefnum í líkamanum og geta hægt á öldrunareinkennum. Ég nota acai duft í mínar skálar og mæli t.d. með duftinu frá Kiki Health. Ástæðan fyrir því að ég nota duft er sú að acai ber skemmast hratt og eru því annaðhvort gerð að dufti eða fryst í mauki (puree). Ég hef einstöku sinnum séð frosið acai mauk á Íslandi en ekki oft svo ég mæli með að nota duftið frekar.

 

Ég reyni að eiga alltaf til banana í frystinum og get því gert svona ofurskál hvenær sem er. Ég tek hýðið af banana, sker hann í um 3cm stóra bita, set í box og frysti. Því stærri sem bitarnir eru því erfiðara á matvinnsluvélin með að blanda þá, en ef þeir eru of litlir þá festast þeir saman og nánast ógerlegt er að ná þeim í sundur. Acai ber eru römm og ósæt svo það er gott að setja t.d. frosin hindber, jarðarber, bláber eða brómber í matvinnsluvélina til að fá meiri sætu. Ég nota einnig þykka hlutann af kókosmjólk í dós en mér finnst það gefa acaiskálinni dásamlega áferð og mildara bragð. Ég nota tvær tsk af acai duftinu í uppskriftinni (sem nægir í um tvær skálar) en vel má setja minna eða meira eftir smekk.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 1 frosinn banani, skorinn í bita
  • 2 dl frosin hindber og brómber, eða önnur ber eftir smekk
  • 2 tsk acai duft
  • 1 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn

Aðferð:

  • Leyfið banananum og berjunum að þiðna í nokkrar mínútur til að hlífa matvinnsluvélinni/blendernum.

  • Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél/blender og blandið þar til silkimjúkt. Ef illa gengur að blanda gæti þurft meiri vökva (það fer eftir tækjum).

  • Setjið acaiblönduna í skálar og skreytið að vild, t.d. með ferskum berjum eða ávöxtum, granóla, hnetum eða kókosflögum.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift