Kjötlaus kjötsúpa

Kjötsúpa er sannarlega einn þekktasti þjóðarréttur Íslendinga og þekkja flestir hlýlegan ilminn af mildri súpunni. Hér er uppskrift af hinni klassísku íslensku kjötsúpu, nema án kjöts. Mamma þróaði þessa uppskrift en eftir að ég varð vegan var hún staðráðin í að útbúa vegan útgáfu af klassískri kjötsúpu, sem henni tókst svo sannarlega. Ég var aldrei neitt sérlega hrifin af hefðbundinni kjötsúpu en eftir að ég fékk þessa kjötlausu “kjöt”súpu þá elska ég hana. Að mínu mati slær þessi súpa hefðbundinni útgáfu við á allan hátt og ég mæli með að prófa hana.

 

Í staðinn fyrir að nota súpukjöt sem prótíngjafa nota ég grænar linsubaunir en það kemur virkilega skemmtilega út. Súpan er gerð úr fersku grænmeti og er bragðgóð, næringarrík, seðjandi og ódýr. Súpan er frábær til að njóta við kertaljós á köldum vetrarkvöldum, ásamt fjölskyldunni.

 

 

 

Kjötsúpa er einn af þessum réttum þar sem uppskriftin er bara til hliðsjónar. Í raun er hægt að nota það sem til er í ísskápnum og smakka súpuna til. Uppskriftin hér að neðan er frábær en ekki hika við að laga hana að ykkar smekk eða innihaldi ísskápsins. Sumum finnst betra að sleppa kartöflum og setja má t.d. sætar kartöflur í staðinn eða meira af rófum og gulrótum. Einnig væri spennandi að prófa að nota íslenskt perlubygg eða tröllahafra í stað hrísgrjóna. Uppskriftin nægir fyrir u.þ.b. fjóra. Ég geri vanalega tvöfalda uppskrift til að eiga afgang næstu daga en súpan er bara betri á öðrum eða þriðja degi. Best er að bera súpuna fram með nýbökuðu brauði eða rúgbrauði.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 1 laukur
  • 5-10 cm blaðlaukur
  • 300 g gulrætur
  • 1/2-1 msk tamari sósa
  • 1 rófa, ca. 300g
  • 1/2 hvítkálshöfuð, ca. 250g
  • 150 g kartöflur
  • 1 dl linsubaunir
  • 1/2-1 dl hrísgrjón
  • 2 l vatn
  • 1-2 grænmetis- eða sveppateningur
  • 1 msk fersk steinselja, söxuð
  • 1 msk timian, mulið
  • 1 msk rósmarín, mulið
  • salt
  • nokkur lárviðarlauf

Aðferð:

  • 1)

    Steikið lauk og blaðlauk á pönnu upp úr olíu.

  • 2)

    Bætið gulrótum við ásamt tamari sósu og látið karmellerast.

  • 3)

    Bætið vatninu út í ásamt restinni af hráefnunum og sjóðið í amk. 45 mín.
    Smakkið til með salti.

  • 4)

    Fjarlægið lárviðarlaufin áður en súpan er borin fram.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift