Karamelluostakaka

Þessi karamelluostakaka er syndsamlega góð. Þetta er svona kaka sem maður stelst í um miðja nótt þegar enginn sér til. En þrátt fyrir hvað kakan er dásamlega bragðgóð er hún líka svo holl! Kakan er næringarrík og saðsöm en helsta hráefnið eru hnetur. Fyllingin er mild, létt og örlítið loftkennd þannig að hún bráðnar í munninum. Kremið efst er aftur á móti bragðmikil karamella sem allir ættu að falla fyrir.  Auðvelt er að breyta uppskriftinni í glúteinlausa paleo köku með því að sleppa rjómaostinum (Oatly smurostinum) en kakan er líka mjög góð án hans.

Í flestum sambærilegum uppskriftum er talað um að láta kasjúhnetur liggja í bleyti í fleiri klukkustundir eða yfir nótt. Ég hef persónulega aldrei haft þolinmæði í það og set þær því vanalega beint í blenderinn. Það tekur örlítið lengri tíma að ná silkimjúkri áferð en annars finn ég engan mun. Mér finnst mikilvægt að nota bragð- og lyktarlausa kókosolíu í uppskriftina (nota frá Himneskri Hollustu) því annars getur kókosolíu bragðið orðið mjög afgerandi.

 

 

Til að fyllingin stífni almennilega (og fái dásamlega áferð) nota ég töfraefnið agar-agar. Ég uppgötvaði þetta frábæra duft fyrir um ári síðan og nota það núna oft í viku. Agar-agar er efni sem er unnið úr sjávarþara og var uppgötvað í Japan fyrir hálfri öld. Þetta ljósa duft er lyktar- og bragðlaust og virkar frábærlega sem  vegan þykkingarefni eða matarlím. Ég kaupi agar-agar í heilsuhúsinu en hægt er að velja um flögur eða duft. Duftið er örlítið dýrara en það þarf mun minna af því og er það þægilegra í meðferð, ég mæli því með duftinu. Athugið einnig að það þarf ólíkt magn af flögum og dufti en uppskriftirnar hér miðast allar við duft.

 

 

 

 

Kakan er ótrúlega falleg og sómir sér vel í veislum. Ef afgangur verður af kökunni mæli ég með að skera hana í sneiðar og geyma í frysti. Það er svo þægilegt að geta gripið sneiðar úr frystinum en þær þurfa nokkrar mínútur til að þiðna. Mér finnst kakan langbest með þeyttum vegan rjóma (t.d. frá Soyatoo) og ferskum jarðarberjum og skornum banönum.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

 

Prenta uppskrift

Hráefni:

Botn:

  • 1 dl pekanhnetur
  • 2 dl möndlur
  • 6 ferskar döðlur, muna að taka steinana úr
  • 2 tsk kókosolía, bragð- og lyktarlaus
  • salt

Fylling:

  • 3 dl kasjúhnetur
  • 8 ferskar döðlur, muna að taka steinana úr
  • 1/2 dl hlynsýróp, má vera minna ef vill
  • 1 dl kókosolía
  • 1 dl rjómaostur, t.d. Oatly smurosturinn
  • 2 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 tsk sítrónusafi
  • salt
  • 3 dl vatn
  • 1 tsk agar-agar duft

Karamellukrem:

  • 1/2 dl hlynsíróp
  • 1/2 dl kókossykur eða hrásykur
  • 1/2 dl kókosolía
  • 1,5 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn
  • 1 tsk vanilludropar
  • salt

Aðferð:

Botn:

  • Setjið hneturnar í matvinnsluvél og blandið þar til þær eru nokkuð fínmalaðar.

  • Bætið döðlum, kókosolíu og salti út í og blandið þar til deigið festist saman.

  • Leggið smjörpappír í botninn á hringlaga smelluformi. Þrýstið deiginu vel niður í formið svo það þeki allan botninn.

  • Geymið botninn í kæli meðan fyllingin er útbúin.

Karamellufylling:

  • Kælið kókosmjólkina en þá skilur hún sig og þykki hlutinn situr efst en þunnkenndur vökvi neðst.

  • Setjið vatn og agar-agar-duft í pott og hitið að suðu.

  • Setjið hin hráefnin í matvinnsluvél og blandið þar til silkimjúkt. Þetta getur tekið nokkrar mínútur.

  • Hellið næst agar-agar-blöndunni út í og blandið áfram í smástund.

  • Hellið fyllingunni yfir botninn og geymið í kæli meðan karamellukremið er útbúið.

Karamellukrem:

  • Setjið öll hráefnin í pott og sjóðið í um 10-15 mín þar til karamellan hefur dökknað og þykknað. Gott er að setja örlítið af karamellunni í glas og inn í frysti til að athuga hversu stíf hún er orðin.

  • Smyrjið karamellu- kreminu yfir fyllinguna og skreytið að vild, ég notaði saxaðar pekanhnetur.

4 Comments

  • Alda Lárusdóttir

    04/19/2020 at 12:38 am

    Mikið er þessi karamelluostakaka girnileg að sjá. Má ég spyrja, hvar fæst agar agar duft? Og til hvers er það notað, er það sæta?

    1. Grænkerar

      05/12/2020 at 10:05 am

      Agar agar virkar með svipuðum hætti og matarlím og fæst t.d. í Heilsuhúsinu 🙂
      Ég nota agar agar mikið í bakstur og einnig í vegan osta.

      1. Guðný Guðmundsdóttir

        03/13/2021 at 4:24 pm

        Er hægt að nota eitthvað annað en agar agar? Það fæst ekki í Heilsuhúsinu og það er víst hætt að flytja það inn, allavega af þeim sem Heilsuhúsið verslaði það af.

        1. Grænkerar

          06/29/2021 at 3:46 pm

          Ó! Ekki góðar fréttir.
          Ég myndi kíkja í Vegan búðina eftir Agar agar en annars prófa pektín (sultuhleypi) og kæla þá um msk. af blöndunni í einu þar til rétt þykkt næst.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift