Veganúar byrjendapakki
Í tilefni þess að Veganúar er núna formlega genginn í garð ætla Grænkerar ásamt Veganbúðinni að gefa þennan glæsilega byrjendapakka (starter kit), sem er þó ekki síður fyrir lengra komna. Pakkinn inniheldur allt það sem við teljum koma sér vel í þessum mánuði en líka ýmislegt sem bætir og kætir. Ég ætla að skrifa stuttlega um nokkrar vörur úr pakkanum en þær fást allar í Veganbúðinni.
Markmið veganúar er að vekja fólk til umhugsunar um áhrif neyslu dýraafurða og kynna kosti vegan fæðis fyrir heilsu, umhverfi og dýravernd. Fyrir ykkur sem viljið skrá ykkur í Veganúar er hægt að skrá sig hér.
Það fyrsta sem ég vil ítreka fyrir þá sem ætla að demba sér í vegan lífsstíl er að passa upp á vítamín. Vissulega geta margir fengið allt sem þeir þurfa úr vegan fæði en fyrir byrjendur er langöruggast að taka einfaldlega vítamínin sín (og að sjálfsögðu borða holla og fjölbreytta fæðu með). Í byrjendapakkanum sem við erum að gefa er Omega 3, B12 vítamín og D vítamín.
Omega-3 og Omega-6 fitusýrur eru okkur lífsnauðsynlegar. Omega-3 leiðir til bólguminnkunar í líkamanum en Omega-6 leiðir hins vegar til aukinnar bólgumyndunar. Það sem skiptir mestu máli er að fá nóg af Omega-3 miðað við Omega-6 því þessar tvær fitusýrur keppa um ákveðin ensím. Úr stuttum Omega-3 fitusýrum, ALA, framleiðir líkaminn EPA og DHA en ef hlutfallslega lítið er til staðar af Omega-3 miðað við Omega-6 tekur Omega-6 ensímin og líkaminn nær ekki að mynda nóg af EPA og DHA. Slíkt getur valdið því að bólgur myndast í líkamanum og æðar víkki. Í nútímafæði virðist vera talsvert meira um Omega-6 heldur en Omega-3 fitusýrur og er því mikilvægt að taka inn Omega-3 og/eða fá það úr mataræðinu (hörfræ, valhnetur, chia fræ, hampfræ ofl.).
Eitt næringarefni ekki hægt að fá í nægu magni beint úr plöntufæði og þarf því að taka inn sem fæðubótarefni en það er B12 vítamín. Mjög auðvelt er að bæta úr þessu og margir grænkerar taka B12 vítamín en einnig er því bætt í margar matvörur. Mikilvægt er að allir passi upp á magn B12 vítamíns með því að taka það beint inn eða neyta fæðu sem er með viðbættu B12 vítamíni í nægilegu magni en skortur á B12 vítamíni getur valdið orkuleysi, þreytu og þunglyndi en jafnvel haft enn alvarlegri afleiðingar. Upptaka B12 vítamíns er misjöfn eftir fólki og er því sniðugt fyrir alla að fara í blóðprufu og vakta B12 búskap líkamans.
Seinasta vítamínið sem ég ætla að fjalla um er D vítamín. Fyrir okkur Íslendinga sem búum við nánast stanslaust myrkur stóran hluta ársins getur reynst ómögulegt að fá nægilegt D vítamín úr sólarljósinu. D-vítamín skortur getur valdið beinþynningu, beinbrotum, vöðvarýrnun og tannskemmdum ásamt þreytu. Það getur því verið mikilvægt að bæta D vítamíni við fæðuna, sérstaklega yfir dimmustu mánuði ársins.
Vörurnar frá KIKI HEALTH eru í algjöru uppáhaldi hjá mér en vörulínan þeirra inniheldur fjölbreytt fæðubótarefni. Vörurnar sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér eru Acai duft, Maca duft, Ofurblanda og meltingargerlar.
Acai duft er unnið úr acai berjum en þau eru flokkuð sem ofurfæða. Þessi dökkfjólubláu ber eru gríðarlega næringarrík og stútfull af vítamínum, járni og kalki. Þar að auki innihalda berin gífurlegt magn andoxunarefna. Mikilvægi andoxunarefna í líkamanum skal ekki vanmeta en þau vinna gegn sindurefnum í líkamanum og þar af leiðandi gegn krabbameini og öldrunareinkennum og er plöntufæði ríkt af andoxunarefnum. Ég nota acaiduft mikið en bragðið af því minnir á hindber eða brómber og hentar því vel í þeytinga, smoothieskálar eða jafnvel bakstur.
Maca duft er unnið úr maca rótinni sem er einnig flokkuð sem ofurfæða.
Maca er mjög orkugefandi og styður við hormónajafnvægi ásamt því sem það hefur góð áhrif á húð og bein og getur hjálpað við að vinna gegn streitu. Maca er vinsælt hjá konum á breytingarskeið þar sem það jafnar hormónabúskapinn og getur þannig m.a. dregið úr geðsveiflum og hitakófi. Maca er einnig sagt auka kynhvöt og jafnvel hjálpa til við frjósemi. Maca duftið er nokkuð sætt á bragðið og hentar frábærlega sem viðbót í þeytinga, bakstur eða út á hafragrautinn.
Ofurblandan frá KIKI HEALTH er frábær viðbót í fæðuna til að fá nóg af svokölluðum plöntuefnum. Plöntuefni (phytonutrients) finnast helst í litsterku grænmeti og ávöxtum og draga þau úr bólgum í líkamanum, en krabbamein myndast einmitt oft í slíkum bólgum. Eftir því sem rannsóknum miðar fram kemur mikilvægi plöntuefna sífellt skýrar í ljós og mæli ég með því að fólk borði nóg af litsterku grænmeti og taki jafnvel inn þessi plöntuefni á duft- eða töfluformi.
Meltingargerlarnir frá KIKI HEALTH eru blanda af átta mismunandi gerlategundum í litlum jurtahylkjum sem auðvelt er að gleypa, en einnig má opna hylkin og strá innihaldinu yfir graut eða bæta í þeyting. Gerlarnir eru lifandi en liggja í dvala þar til vökvi virkjar þá og byrja þeir þá að fjölga sér í meltingarveginum og geta margfaldast að tölu þar sem þeir færast neðar á leið sinni í gegn. Meltingargerlar eru mikilvægir til að viðhalda heilbrigðri starfsemi meltingarvegarins og fyrir þá sem eru að byrja á vegan fæði getur einmitt verið sniðugt að taka inn gerla til að hjálpa meltingunni að starfa vel fyrstu vikurnar, en breytingar á mataræði geta reynst meltingunni erfiðar til að byrja með.
Það er mikilvægur hluti af því að gera veganisma raunhæfan kost og aðgengilegan sem flestum að bjóða upp á bragðgóða staðgengla fyrir kjöt. Þar kemur Oumph! til leiks. Oumph! er sojakjöt sem framleitt er í Svíþjóð. Það er gert úr hreinu, óerfðabreyttu sojaprótíni og áferðin minnir sannarlega á kjöt. Oumph! fæst frosið í helstu verslunum landsins og má velja milli fjölda bragðtegunda og gerða. Ég er hrifin af hvítlauks-timian bragðtegundinni en mér finnst hún passa vel í nánast allt. Ef litið yrði í frystinn minn mætti sjá fjölmarga pakka Oumph! en þessi vara er mjög vinsæl á mínu heimili. Oumph! er núna einnig komið sem hakk, “kjöt”bollur og hamborgarabuff og eru möguleikarnir óteljandi þegar kemur að matseld. Ég mæli sérstaklega með Oumph! fyrir þá sem vilja fá áferðina og bragðið af kjöti, án þess að borða kjöt. Oumph! fæst sem frystivara í flestum matvöruverslunum landsins.
Sósurnar frá Jömm eru ein besta viðbótin í vegan vöruúrval á Íslandi árið 2019. Hægt er að velja um pítösósu, aiöli, majö, sinnöpssósu, chipötle, remölaði og bernös og eru þær hver annarri betri.
Baunaspagettí er frábær leið til að bæta próteini í mataræðið en það inniheldur yfir 42g prótín í hverjum 100g. Spaghettíið er fáanlegt úr edamame baunum, sojabaunum og svartbaunum. Ég er hrifin af því að elda baunaspagettíið með pastasósu og pestói frá Zest.
Kókosbitarnir frá Ape eru frábært snarl en þeir eru sykurlausir og glúteinlausir og innihalda holla fitu og trefjar. Ég er sérstaklega hrifin af því að borða þá eintóma eða setja þá út á smoothiskálar eða grauta.
Næringardrykkirnir frá Vegansmart eru dásamlega bragðgóðir og henta vel sem millimál eða létt máltíð. Hver drykkur inniheldur 20g af plöntuprótíni og aðeins 140 hitaeiningar. Drykkirnir innihalda trefjar, vítamín og steinefni en eru lausir við soja, glútein og litar- eða rotvarnarefni. Næringardrykkirnir koma í fjórum bragðtegundum: súkkulaði, vanillu, chai og berja.
Að lokum ber að nefna súkkulaðið frá Almighty Foods. Súkkulaðið er til í ótal bragðtegundum en uppáhaldstegundirnar mínar eru Almond butter, golden blonde og liquorice and sea salt.
Af fleiri vörum í körfunni ber helst að nefna næringargerið frá Engevita en næringarger er notað sem bráðhollur bragðbætir eða krydd í ýmsa matargerð. Duftið hefur hnetu-ostakeim og hentar því vel til að útbúa vegan osta. Einnig má þar finna haframjólk frá Oatly sem er ómissandi út á kaffið og þeytirjóma úr kókosmjólk. Pakkinn inniheldur einnig fjóra sojamjólkurdrykki frá Provamel og tvö næringarstykki frá Cliff sem eru fyllt með hnetusmjöri og súkkulaði-heslihnetusmjöri. Síðast en ekki síst er þar að finna dásamlegt hnetusmjör úr brasilíuhnetum og kakónibbum.
Við óskum ykkur góðs gengis í Veganúar en fyrst og fremst góðrar skemmtunar!
Færslan er unnin í samstarfi við Vegan búðina en hún er einn helsti styrktaraðili Veganúar 2020.