Vegan afmælis- og nafnaveisla
Fyrir mánuði varð eldri strákurinn minn, Örvar Þorri, tveggja ára gamall og við vildum halda lítið barnaafmæli. Við eignuðumst yngri strákinn, Ævar Nonna, í nóvember í fyrra og vegna covid tilkynntum við nafnið hans á netinu. Okkur langaði þó að halda nafnaveislu fyrir hann og ákváðum því að grípa tækifærið og halda sameiginlega afmælis- og nafnaveislu. Útkoman varð því töluvert stærri veisla heldur en litla barnaafmælið sem við höfðum hugsað okkur í upphafi – en mikið var gaman að undirbúa svona stóra veislu og geta boðið vinum og ættingjum upp á hlaðborð af vegan veitingum. Þetta er fyrsta veislan af þessari stærðargráðu sem ég hef haldið og mér datt í hug að deila reynslunni hér.
Skipulag og undirbúningur
Ég mæli með að skipuleggja veislur fyrr frekar en síðar því best er að geta boðið með góðum fyrirvara og gefið sér tíma og svigrúm í sjálfan undirbúninginn. 3-4 vikum fyrir veisludag er því kjörið að setjast niður og ákveða helstu atriði.
- Hvenær verður veislan?
- Hvar verður veislan haldin?
- Hverjum er boðið?
Þegar búið er að ákveða þessi atriði legg ég til að huga að þema. Það er að sjálfsögðu alls ekki nauðsynlegt að hafa þema í veislu en mér finnst það sjálfri ótrúlega skemmtileg leið til að dagurinn verði meiri upplifun og í raun auðveldar þema margt í ákvarðanatöku, svo sem hvernig lit á servíettum skuli velja eða hvaða veitingar verða í boði. Þema þarf alls ekki að vera flókið og það að velja til dæmis tvo liti er feykinóg. Ég mæli með Pinterest til að skoða hugmyndir að þemum og hvernig þau eru útfærð. Ég mæli einnig með að skoða það sem er til heima, svo sem stell, kökudiska og blómavasa og vinna þemað út frá því. Einnig er mjög skemmtilegt að velja fatnað út frá þemanu – eða þemað út frá veislufötum, þó ekki sé nema bara slaufa í sama lit og skreytingar.
Þegar búið er að móta hugmyndir að þema er komið að boðskorti en mjög skemmtilegt er að innlima þemað inn í boðskortið (eða facebook viðburðinn) með einhverjum hætti.
Þá er okkur ekkert að vanbúnaði og má byrja að finna til skreytingar, skipuleggja veitingar, velja spariföt og hefjast svo handa við bakstur og annan undirbúning.
Skreytingar
Fyrir afmælis- og nafnaveislu strákanna minna ákvað ég að hafa frumskógarþema. Fyrir löngu síðan voru partývörur á borð við pappadiska, papparör, servíettur og slíkt á miklum afslætti og keypti ég nokkuð af því í dýraþema. Einnig áttum við leikfangadýr sem fengu partýhatta og stóðu ofan á kökum. Ég fór ansi langt í skreytingum í þetta sinn þar sem ég fékk mikla hjálp frá litlum frænkum sem höfðu svo gaman af föndrinu og útbjuggum við alls konar frumskógardýr og laufblöð úr lituðum pappír og skreyttum. Strákarnir mínir eru of ungir til að geta hjálpað til við undirbúninginn (sá eldri hins vegar naut þess í botn að fylgjast með skreytingunum koma upp) en fyrir eldri börn er ótrúlega sniðugt að gefa þeim frelsi til að útbúa skreytingarnar sjálf. Á Pinterest má finna margar frábærar hugmyndir að skreytingum og þarf ekki að búa yfir neinum sérstökum teiknihæfileikum heldur nægir oft að kunna að klippa og líma. Fersk blóm í vasa, til að skreyta veitingaborðið eða jafnvel á sjálfar kökurnar finnast mér síðan alltaf koma vel út. Borðbúnað, skreytingar og efni fengum við í Epal, A4, Allt í köku og Litir og föndur ásamt því að hafa keypt skilti með “2” og “Ævar Nonni” ofan á kökur hjá Hlutprent.
Veitingar
Skemmtilegt er að horfa á veitingar út frá þema og hvenær dags veislan er haldin. Fyrir veislu um kaffileyti eru brauð og kökur eða vöfflukaffi góður kostur en ef veisla er haldin um hádegi eða seinni partinn eru heitir réttir vinsælli, til dæmis súpa og brauð. Fyrir sumarveislur er tilvalið að grilla t.d. vegan pylsur og grænmetisspjót. Ef valið er að vinna með bleikan lit væri til dæmis kjörið að bera fram möndluköku með bleikum glassúr en fyrir grænt og appelsínugult frumskógarþema eins og ég var með koma avókadó- limekaka og gulrótarkaka vel út.
Ákveðið var að halda veisluna um kaffileytið og voru veitingarnar því brauð og kökur. Vegna þess að þetta var sameiginleg afmælis- og nafnaveisla vildi ég, svona allavega einu sinni, bjóða upp á mikið úrval af alls konar vegan veitingum. Ég var því með hrákökur, glútenlausar kökur, þriggja hæða hnallþórur, bollakökur, sykurlausar kökur og kökur með hvítu hveiti og sykri ásamt því að hafa brauðrétt, skorið snittubrauð og álegg.
Mér fannst svo gaman að baka fyrir veisluna því veitingarnar voru fjölbreyttar og fannst mér einnig ótrúlega gaman að sjá að allir gestir gátu fundið eitthvað sem hentaði þeim. Bónusinn var svo auðvitað að sýna hvað vegan veitingar geta verið alls konar og ótrúlega góðar! Allar veitingarnar voru heimagerðar (nema snittubrauðið) og vegan en auk þess voru þær merktar glútenlausar, sykurlausar og hvort þær innihéldu hnetur.
Hér er listi yfir þær veitingar sem ég bauð upp á:
- Glútenlaus hjónabandssæla með bláberjafyllingu
- Glútenlausar súkkulaðimuffins með súkkulaðikremi
- Þriggja hæða gulrótarkaka með rjómaostakremi
- Tveggja hæða súkkulaðikaka með saltkaramellukremi
- Avókadó- limehrákaka, sætt með döðlum og hlynsýrópi
- Sykurlaus hnetukaka með hafrarjóma og ávöxtum
- Marmarakaka
- Sveppa- og aspasbrauðréttur
- Snittubrauð borið fram ásamt hummus, döðlupestói, grænu pestói, rjómaosti, sultu og grænmeti
- Niðurskornir ávextir og ber og hafrarjómi í skálum
- Bréfpokar með barnasnakki og ávaxtanammi fyrir krakka
- Drykkir (ávaxtasafi, sódavatn, berjasmoothie og kaffi)
Bakstur
Ég byrjaði að baka meira en viku fyrir veisluna en allt sem hægt er að frysta mæli ég með að gera sem allra fyrst til að þurfa ekki að vera á haus dagana fyrir veisluna. Marmaraköku, kökubotna, hrákökur og jafnvel deig í formi er frábært að útbúa áður og geyma í frysti.
Kökur og kökubotnar sem er bakað minna en þremur dögum fyrir veislu er best að geyma við stofuhita ef mögulegt er. Smjörkrem má almennt geyma við stofuhita ef það er nógu stíft.
Ég tók kökubotnana úr frysti daginn fyrir veisluna og smurði með kremi. Hrákökur tók ég úr frysti kvöldið áður, færði yfir á kökudisk og setti í kæli en bakaðar kökur (t.d. marmaraköku) geymdi ég við stofuhita. Ég útbjó fyllingu fyrir brauðrétt tveimur dögum fyrir veisluna og snemma á veisludag smurði ég henni á rúllubrauðin og geymdi í kæli þar til veislan hófst. Ég bakaði svo brauðréttina meðan á veislunni stóð svo það væri alltaf heitur brauðréttur á borðinu.
Praktísk atriði
Þegar gestafjöldi er kominn á hreint þarf að athuga stöðuna á borðbúnaði, dúkum og sætum. Mér þótti ákveðin sóun að nota pappadiska í veislunni en vegna þess hve mörgum var boðið og fáir diskar til (ásamt uppvaskinu sem fylgir) valdi ég að nota pappadiskana sem ég átti. Börn fengu pappaglös og með því að nota vatnsglös, kaffibolla og gaffla/teskeiðar af tveimur heimilum náðist nægur borðbúnaður. Nokkrir kökudiskar og bakkar voru sömuleiðis fengnir að láni.
Mjög sniðugt er að útbúa verkefnalista og skipta verkefnum jafnvel niður eftir dögum. Þá er auðveldara að ná utan um hvað þarf að gera og þarf ekki stöðugt að fara yfir í huganum hvort eitthvað sé óklárað.
Stilltu upp veisluborðinu kvöldið fyrir veisluna. Það sparar tíma á veisludaginn og auðveldar yfirsýn yfir hvaða veitingar á eftir að taka fram.
Skemmtilegt er að hafa gestabók við mikilvæg tilefni og jafnvel hvetja gesti til að skrifa ekki bara nafnið sitt heldur kveðjur eða ljóð.
Fyrir veislur þar sem eru börn, er sniðugt að hafa leikföng í boði eða skipuleggja jafnvel einhverja leiki. Ef veður leyfir kemur ekkert í staðinn fyrir útiveru og ef kostur er á er frábært að börn geti leikið sér úti á palli eða í garði.
Gott er að biðja einhvern nákominn um að aðstoða í sjálfri veislunni við áfyllingar og tiltekt. Foreldrar mínir hjálpuðu okkur þannig við að setja brauðrétti í ofninn, hella upp á kaffi, taka burtu tóma diska og glös og bæta á brauðið á meðan veislan var í gangi.
Munið svo að taka myndir af ykkur, fjölskyldunni, veislunni og gestum. Í sjálfri veislunni vill oft gleymast að taka myndir og getur því verið gott að biðja einhvern um að standa þá vakt.