Vegan buffin frá Ellu Stínu
Ég kolféll fyrir vegan buffunum frá Ellu Stínu sem ég fékk að smakka nýverið. Mér hefur þótt vöntun á úrvali af fljótlegri vegan matvöru sem er næringarrík og bragðgóð en jafnframt laus við aukaefni. Innihaldið í buffin er ýmist fengið beint af býli eða úr lífrænni framleiðslu og innihalda engann viðbættan sykur eða aukaefni. Tvær tegundir af buffum eru í boði: hefðbundin vegan buff og sveppa- og svartbaunabuff.
Ég er búin að prófa buffin í allsskonar uppskriftir undanfarið og vildi deila með ykkur mínum tveimur uppáhaldsaðferðum til að bera þau fram.
Sveppa- og svartbaunaborgari með kóríander
Sveppa- og svartbaunabuffin eru virkilega sterkir keppinautar við öll þau vegan hamborgarabuff sem eru í boði en mér finnst helsti styrkurinn þeirra felast í bragðinu. Buffin innihalda ostrusveppi sem gefa þeim virkilega þétt bragð og fyrir þau sem eru enn að borða kjöt held ég að sveppa- og svartbaunabuffin komi vel í staðinn fyrir það. Ég smakkaði vegan borgarann á Yuzu fyrir nokkru og síðan þá hef ég verið staðráðin í því að útbúa mína eigin útgáfu að kóríanderborgara.
Ég steikti sveppa- og svartbaunabuffin á pönnu með vegan osti (trikkið er að setja lok ofan á pönnuna svo osturinn bráðni) og á meðan útbjó ég lime-mæjónessósu með því að hræra saman vegan mæjónesi, lime, smá tamari sósu, dijon sinnepi, salti og pipar. Ofan á borgarann setti ég lime-mæjónesið, salat, tómata, gúrku og rauðlauk. Því næst kom buffið og loks ferskt kóríander. Ótrúlega djúsí en ferskur og öðruvísi borgari!
Vefja með vegan buffi
Mér finnst vegan buffin frábær í salat og sem hamborgarabuff auk þess sem eldri strákurinn minn er sjúkur í þau eintóm. Fullkomnun var hins vegar náð þegar ég prófaði að skera þau í sneiðar og raða í vefju.
Ég byrjaði á að steikja vegan buffin á pönnu og skipta þeim svo í 6 lengjur. Á meðan að buffin steiktust útbjó ég jógúrtsósu úr vegan sojajógúrt, Oatly sýrðum rjóma, hvítlauk, sítrónusafa, ferskri steinselju, salti og pipar. Í vefjuna raðaði ég salati, gúrku, papriku, avókadó, vegan buffinu og jógúrtsósunni og toppaði loks með smá ferskum graslauk.
Buffin frá Ellu Stínu fást til dæmis í Hagkaup, Fjarðarkaup, Melabúðinni og Vegan búðinni eða hér.
Þessi færsla er unnin í samstarfi við Ellu Stínu