Plokkviskur eða Vlokkfiskur? Þetta undarlega nafn stendur að sjálfsögðu fyrir vegan plokkfisk. Þetta er þó ekki einhver tískuútgáfa af plokkfiski heldur einungis vegan útgáfa af þessum gamla, góða og einfalda heimilisrétti. Strangheiðarlegur plokkviskur. Uppistaðan í plokkfisk er ýsa, kartöflur, laukur og uppstúfur. Kartöflur og laukur eru vegan og uppstúf er tiltölulega einfalt að veganvæða. Fiskurinn er hins vegar erfiðari en með þessari uppskrift tel ég mig hafa komið með snilldar staðgengil – bananablóm!
Ekki láta furðuleg orð þó stoppa ykkur heldur lesið endilega áfram.
Plokkfiskur hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og hefur fjölskyldan meira að segja þá hefð að borða alltaf plokkfisk í hádeginu á aðfangadag – hefð sem mörgum þykir ansi skrítin en ég stend við hana. Eftir að meirihluti fjölskyldunnar varð vegan varð ljóst að þessa hefð þyrfti að veganvæða. Eitt árið prófuðum við að sleppa fiskinum en það kom í ljós að uppstúfur með lauk og kartöflum var lítið spennandi. Þetta árið langaði mig að gera aðra tilraun og nota nú vegan staðgengil fyrir fiskinn.
Fyrir valinu varð svokallað Banana Blossom, eða bananablóm. Bananablóm svipar til jackfruit að mörgu leyti en er nýrra á Íslandi. Helsti munur þessara ávaxta er að jackfruit er gjarnan notað í stað kjöts en bananablóm þykir henta betur sem staðgengill fisks. Banana blossom fæst t.d. í Vegan Búðinni og er selt í dósum.
Verði ykkur að góðu!