Plokkviskur

Plokkviskur eða Vlokkfiskur? Þetta undarlega nafn stendur að sjálfsögðu fyrir vegan plokkfisk. Þetta er þó ekki einhver tískuútgáfa af plokkfiski heldur einungis vegan útgáfa af þessum gamla, góða og einfalda heimilisrétti. Strangheiðarlegur plokkviskur. Uppistaðan í plokkfisk er ýsa, kartöflur, laukur og uppstúfur. Kartöflur og laukur eru vegan og uppstúf er tiltölulega einfalt að veganvæða. Fiskurinn er hins vegar erfiðari en með þessari uppskrift tel ég mig hafa komið með snilldar staðgengil – bananablóm!

Ekki láta furðuleg orð þó stoppa ykkur heldur lesið endilega áfram.

Plokkfiskur hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og hefur fjölskyldan meira að segja þá hefð að borða alltaf plokkfisk í hádeginu á aðfangadag – hefð sem mörgum þykir ansi skrítin en ég stend við hana. Eftir að meirihluti fjölskyldunnar varð vegan varð ljóst að þessa hefð þyrfti að veganvæða. Eitt árið prófuðum við að sleppa fiskinum en það kom í ljós að uppstúfur með lauk og kartöflum var lítið spennandi. Þetta árið langaði mig að gera aðra tilraun og nota nú vegan staðgengil fyrir fiskinn.

Fyrir valinu varð svokallað Banana Blossom, eða bananablóm. Bananablóm svipar til jackfruit að mörgu leyti en er nýrra á Íslandi. Helsti munur þessara ávaxta er að jackfruit er gjarnan notað í stað kjöts en bananablóm þykir henta betur sem staðgengill fisks. Banana blossom fæst t.d. í Vegan Búðinni og er selt í dósum.

Verði ykkur að góðu!

Prenta uppskrift

Hráefni:

(fyrir 4-6)

  • 2 dósir Banana Blossom, um 500g sigtað
  • salt
  • 300 g kartöflur
  • 50 g vegan smjör, t.d. Earth Balance
  • 1 laukur
  • 3 msk hveiti
  • 300-400 ml sojamjólk, eða önnur vegan mjólk, helst sykurlaus
  • örlítill sykur, eða t.d. hlynsýróp
  • pipar

Aðferð:

  • Takið bananablómin (Banana Blossom) úr dósinni og sigtið vökvann frá. Ef tími gefst er gott að setja blómin í saltvatn yfir nótt.

  • Setjið blómin í pott ásamt vatni og salti og sjóðið.

  • Meðan Bananablómin sjóða eru kartöflurnar settar í pott og látnar sjóða þar til mjúkar.

  • Afhýðið laukinn og skerið hann smátt. Bræðið smjörið í potti og setjið laukinn út í og láttu hann mýkjast í um 5 mínútur við vægan hita án þess að brúnast.

  • Stráið hveitinu yfir og hrærið vel. Látið hitna í um eina mínútu. Hellið þá mjólkinni saman við í smáum skömmtum og hrærið vel á meðan. Þegar suðan er komin upp skal lækka hitann aftur og láta sósuna malla í um 5 mínútur. Mikilvægt er að fylgjast með henni og hræra á meðan.

  • Flysjið kartöflurnar ef þið viljið (ég sleppi því) og skerið í munnbita. Setjið kartöflurnar út í sósuna ásamt bananablómunum (sigtið vatnið vel frá) og leyfið öllu að malla saman í smá stund. Bragðbætið með smá sykri (eða annarri sætu) og pipar. Saltið varlega eftir smekk og bætið við meiri plöntumjólk ef þarf.

  • Mér finnst plokkfiskur frábær eintómur en annars klikkar ekki að hafa rúgbrauð og vegan smjör með.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift