Ég er forfallinn pítsuaðdáandi. Þegar ég var yngri var alltaf heimagerð pítsa á föstudögum og ég einu álegginn sem ég viðurkenndi voru sósa, ostur og pepperóní. Eftir að hafa horft á matreiðsluþátt í sjónvarpinu þar sem var útbúin indversk pítsa með grænu pestói, sveppum, eggaldini, mozzarella osti, lambakjöti og fleiri furðulegum áleggjum hófst vegferð mín inn í heim spennandi pítsuáleggja. Sú vegferð varð heldur betur áhugaverð eftir að ég gerðist vegan og prófa ég mig núna áfram með ólíka vegan osta, baunir, grænmeti, sósur og hnetur.
Þessi pítsa er eins konar óður til indversku pítsunnar sem 12 ára Þórdís eldaði fyrir alla vini sína (ég gat ekki setið ein um þessa uppgötvun) en með einfaldara sniði og að sjálfsögðu vegan. Uppskriftin birtist í Vikunni fyrripart árs 2019 og kemur núna loksins inn á síðuna.
Pítsan inniheldur vegan grænt pestó, eggaldin, rauðlauk, Oatly rjómaost og garam masala kryddaðar kjúklingabaunir. Ég gef ekki uppskrift af pítsadeigi þar sem flestar uppskriftir af þeim eru vegan. Ég mæli hins vegar með að nota spelt í stað hveitis og fyrir þá sem eru með glúteinóþol má nota glúteinlaust hveiti (eða kaupa tilbúna, glúteinlausa botna).
Pítsan er sáraeinföld en bráðholl og bragðgóð. Ég mæli sannarlega með að smakka þessa!