Mörgum finnst hangikjöt ómissandi í desember og eiga eflaust flestir Íslendingar hefðir og minningar sem byggja á hangikjötsáti. Mamma er ein af þessu fólki, en hangikjöt var eitthvað það allra besta sem hún gat hugsað sér. Í ár ákváðum við mæðgurnar að láta loksins verða af því að gera vegan útgáfu af þessum íslenska jólamat. Útkoman – HangiOumph – er stórmerkileg og kom okkur virkilega á óvart. Ég er því mjög glöð að geta deilt þessari uppskrift.
Uppskriftin er tiltölulega einföld og öll hráefnin því mikilvæg. Þegar uppskriftin var fyrst samin notaði ég Salty&smokey Oumph sem fæst því miður ekki lengur en í staðinn má nota Hangioumph frá Jömm. Einnig má nota óbragðbætt Oumph! The Chunk og bæta þá við Liquid smoke sem gefur reykt bragð og nota meira af birkireyktu salti á móti. Reykt Oumph! ásamt birkireyktu salti frá Saltverk gefur hangikjötsilm og bragð en rauðrófa gefur blöndunni fagurbleikan lit. Fyrir ykkur sem ekki vitið hvað Oumph! er þá er það sænskt sojakjöt sem er gert úr hreinu, óerfðabreyttu sojaprótíni. Oumph! fæst í ótal bragðtegundum og er selt í frystideildum flestra matvöruverslana.
Ég mæli með að reyna að hafa blönduna á pönnunni sem allra þykkasta. Blandan verður misblaut svo það þarf að meta hverju sinni hversu mikið af hnetum og haframjöli er bætt út í. Uppskriftin er tiltölulega stór en hún nægir í um 12 litlar bökur eins og sjást á myndunum – eða einn stóran hleif.
Við baksturinn fyllist húsið af reyktum birkiilmi og mætti alveg halda að verið væri að sjóða hangikjöt. HangiOumphið er æðislegt með vegan jafningi, soðnum kartöflum og grænum baunum. Fjölskyldan mín hefur alltaf haft hangikjöt á jóladag og það verður því gaman í ár að geta sest niður og borðað HangiOumph sem er ekki einungis betra en hangikjöt (að okkar mati allavega) heldur líka betra fyrir heilsuna, dýrin og jörðina.
Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson
2 Comments
Sigridur Hanna Jóhannesdóttir
11/30/2020 at 7:53 pm
Má frysta þennan rétt?
Svakalega lýst mér vel á þetta!
Bestu kveðjur, Sigga Hanna.
Grænkerar
11/30/2020 at 8:37 pm
Já, það má frysta 🙂 Ég geri alltaf tvöfalda uppskrift í nóvember/desember í sílikon-muffinsformi og frysti.