Ég elska mexíkóska matargerð en hef aldrei verið mikill aðdáandi tacos fyrr en ég smakkaði tacos á Spes Kitchen (mæli með!). Eftir að ég fann glúteinlausar, mjúkar tacokökur úti í búð var ekki eftir neinu að bíða og þróaði ég þessa uppskrift sem er innblásin af Spes Kitchen og rauðmetinu frá Súrkál fyrir sælkera. Ég bauð vinum í mat til að prufukeyra réttinn og var með, að ég hélt, allt of mikinn mat en þetta var svo vel heppnaður réttur að allt var klárað! Þetta var bara einn af þessum réttum sem heppnaðist fullkomlega í fyrstu tilraun og hef ég ekkert þorað að breyta þessum rétti síðan þá.
Í miðjum heimsfaraldri er gott að geta útbúið mat heima hjá sér sem lítur út og bragðast eins og á fínasta veitingahúsi og tókst það sannarlega með þessum rétti. Glæsilegt útlitið og fágað bragðið kemur að mestu frá rauðmetinu frá Súrkál fyrir sælkera en það setur gjörsamlega punktinn yfir i-ið. Mig langar virkilega að læra að útbúa mitt eigið súrkál en það, ásamt súrdeigsbakstri, er klárlega á stefnuskránni hjá mér. Sömuleiðis kemur heimagerða chili-mæjóið sterkt inn (orðagrín) en ég mæli með að útbúa sitt eigið chili-mæjó enda sáraeinfalt og hægt að stjórna því hversu sterkt mæjóið er.
Verði ykkur að góðu!