Hamborgarhryggur er vinsælasti jólamatur Íslendinga og eflaust mörgum sem finnst jólin ekki koma ef hamborgarhrygginn vantar. Mig langaði þess vegna að reyna að gera vegan útgáfu af þessum vinsæla hátíðarrétti. Tilraunin tókst ekkert smá vel og ég er virkilega spennt að deila þessari uppskrift með ykkur. Uppskriftin nægir í einn lítinn hleif, eins og má sjá á myndunum. Hleifurinn kláraðist mjög hratt á mínu heimili – bróðir minn hakkaði hann í sig í örfáum munnbitum – svo ég mæli jafnvel með því að tvöfalda uppskriftina.
Það frábærasta við þessa uppskrift er ekki hvað hún er holl og góð (þó það sé auðvitað stór plús) heldur er hún ótrúlega einföld og hráefnalistinn stuttur. Þegar uppskriftin var fyrst samin notaði ég Salty&smokey Oumph sem fæst því miður ekki lengur en í staðinn má nota Hangioumph frá Jömm en það gefur reykta saltbragðið sem einkennir hamborgarhrygginn. Fyrir ykkur sem ekki vitið hvað Oumph! er þá er það sænskt sojakjöt sem er gert úr hreinu, óerfðabreyttu sojaprótíni. Einnig má nota óbragðbætt Oumph! (The Chunk) og bæta þá við Liquid smoke sem gefur reykt bragð.
Oumph! getur bæði verið í aðalhlutverki (t.d. Oumph! með brúnni sósu og kartöflum) en einnig sem hluti af lengri hráefnalista, eins og í þessari uppskrift. Mér finnst Oumph! langbesta viðbótin við vegan vöruúrval á Íslandi (ásamt Oatly) og ég er forfallinn aðdáandi.
Ég mæli með að reyna að hafa blönduna sem hleifurinn er mótaður úr sem allra þykkasta. Blandan á pönnunni verður misblaut svo ég ráðlegg fólki að hika ekki við að auka magnið af kasjúhnetum og haframjöli ef þörf krefur. Ég prófaði að skera rákir í hleifinn áður en ég smurði gljáanum á og það kom virkilega fallega út.
HamborgarOumphið er æðislegt með sykurbrúnuðum kartöflum, kóksósu (eða annars konar brúnni sósu), rauðkáli og sultu. Næst langar mig að útbúa vegan Waldorfasalat (mæli með) til að hafa með. Fjölskyldan mín hefur aldrei verið með hamborgarhrygg, hvorki á jólum né áramótum, en þessi uppskrift tókst svo vel að HamborgarOumphið fær klárlega sinn stað í nýjum jólahefðum fjölskyldunnar.
Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson