Ég hef alltaf verið sjúk í pítsur og elska að baka mínar eigin. Eftir að ég varð vegan og þurfti að leita annarra leiða varðandi ost og álegg þá opnaðist fyrir mér nýr heimur af spennandi áleggjum, frumlegum samsetningum og gómsætum pítsum. Það að nota ekki ost eða pepperóní þarf nefnilega ekki að eyðileggja pítsur fyrir manni heldur þvert á móti. Þessi pítsa er allavega einhver allra besta pítsa sem ég hef fengið á ævinni og ég hlakka til að deila henni með ykkur.
Sama kona og kynnti mig fyrir hnetusmjörsfylltum döðlum benti mér eitt sinn á að setja döðlur á pítsur (er þetta eitthvað döðlusamsæri, Iðunn?). Ég játti því en hugsaði með mér að af því yrði aldrei. Nokkrum vikum seinna var ég að gera pítsu og ákvað að gefa döðlunum séns. Viti menn, döðlur eru stórkostlegt hráefni á pítsur! Mér finnst mikilvægt að nota ferskar döðlur en þær brúnast í ofninum og fá stökka kanta en karmellukennda miðju.
Fyrr á árinu kom tímabil sem margir grænkerar muna eflaust eftir. Oatly vörurnar voru nánast ófáanlegar í búðum! Ég hafði verið vön að nota Oatly smurostinn á pítsur en þurfti að leita annarra leiða og kynntist ég þessum heimagerða osti. Osturinn er gerður úr kasjúhnetum og fær bragð sitt úr næringargeri, sítrónusafa, og hlynsýrópi. Galdrahráefnið er hið furðulega efni agar-agar. Ég veit, framandi hráefni í uppskriftum eru óþolandi. Ég mæli samt með að lesa áfram, það er þess virði.
Agar-agar er efni sem er unnið úr sjávarþara og var uppgötvað í Japan fyrir hálfri öld. Þetta ljósa duft er lyktar- og bragðlaust og virkar frábærlega sem vegan þykkingarefni eða matarlím. Ég kaupi agar-agar í heilsuhúsinu en hægt er að velja um flögur eða duft. Duftið er örlítið dýrara en það þarf mun minna af því og er það þægilegra í meðferð, ég mæli því með duftinu.
Þegar hráefnin fyrir ostinn eru sett í blandara verður úr þunnfljótandi vökvi sem bragðast svipað og ostur. Þegar vökvinn er hins vegar hitaður að suðu virkjast agar-agar duftið og úr verður þykkur, bráðinn ostur með unaðslegri áferð. Ég nota ostinn vanalega á pítsur beint úr pottinum.
Ef það er afgangur af ostinum er hægt að geyma hann í kæli en þá stífnar hann og minnir á mozzarella ost. Sniðugt er að hella ostinum í form og leyfa honum að stífna í kæli en þannig má búa til oststykki sem sæmir sér vel á hvaða veisluborð sem er ásamt vínberjum og Ritz kexi. Þessi heimagerði kasjúhnetuostur er frábær á pítsur og hann passar alveg einstaklega vel með döðlum. Ég nota ennþá Oatly smurost á ýmsar pítsur en þessa geri ég alltaf með heimagerða ostinum.
Pítsan er í fínni kantinum og býð ég gjarnan upp á hana í matarboðum (en geri hana líka til að hakka í mig yfir föstudagsbíómynd). Uppskriftin nægir í tvær litlar pítsur og passar gríðarlega vel með rauðvíni. Hún hentar því vel fyrir deit, hvort sem það er með maka, vinkonu eða hundinum (ath. að gefa hundinum ekki rauðvínið).
Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson