Avókadó- limehrákaka

Þessi fagurgræna hrákaka er uppáhalds kakan mín. Ég átta mig fullkomlega á því að nú hugsa eflaust margir að ég sé gengin af göflunum en ég lofa að þessi kaka kemur á óvart. Hún er gríðarlega fersk, holl og sumarleg og nær fullkomnu jafnvægi milli þess að vera súr og sæt. Fyllingin er silkimjúk og bráðnar í munninum og suðrænn hnetu-kókosbotninn passar ótrúlega vel við súra, mjúka fyllinguna. Þeim börnum sem ég þekki finnst kakan spennandi, sérstaklega út af græna litnum, og eru hrifin af súra límónubragðinu.

Hrákökur eiga það til að hræða suma en sannleikurinn er sá að það er eiginlega fátt einfaldara en að útbúa hrákökur. Vanalega þarf ekki að nota mikið meira en blender eða matvinnsluvél og svo er bara hægt að smakka kökuna til. Það eru engin hlutföll milli lyftidufts og hveitis eða eggja sem þarf að uppfylla til að kakan haldi sér saman eða lyfti sér. Það er bara hægt að leika sér alveg með hráefnin.

Svo má auðvitað ekki gleyma því hvað hrákökur eru gríðarlega hollar enda gerðar úr ferskum, lítið unnum hráefnum. Hrákökur henta flestum með óþol því þær eru mjólkur- og eggjalausar, og langoftast glútenlausar og lausar við hvítan sykur.

Uppistaðan í fyllingunni er avókadó og er kakan því stútfull af hollri fitu og næringarefnum. Á móti avókadóunum eru notaðar límónur (lime) og er kakan því gríðarlega fersk og sumarleg. Ég hef gert þessa köku oftar en ég get talið og hún vekur alltaf mikla lukku (þó svo að sumir séu hikandi að smakka í fyrstu).

Þessi uppskrift hentar vel þeim sem vilja ekki mikið sætubragð en súrleikinn úr límónunum í bland við mjúk avókadóin skapa veislu fyrir bragðlaukana. Ég mæli með að hella límónusafanum og hlynsýrópinu smátt og smátt út í blönduna og finna hvar jafnvæginu er náð.

Kakan er best köld og finnst sumum hún góð örlítið frosin. Mér finnst best að bera hana fram með þeyttum vegan rjóma. Ef einhver afgangur verður af kökunni mæli ég með að skera hana í sneiðar og geyma hana þannig í frysti.

 

Prenta uppskrift

Hráefni:

Botn:

  • 1,5 dl möndlur
  • 3 dl ristaðar kókosflögur
  • 8-10 medjool döðlur, steinarnir teknir úr
  • 1-2 tsk kókosolía, bragð- og lyktarlaus
  • salt

Fylling:

  • 5-6 avókadó, fallega græn og fersk
  • 6 límónur (lime), safinn kreistur úr þeim
  • 2 dl kókosolía, bragð- og lyktarlaus
  • 3/4-1 dl hlynsýróp
  • 1 tsk vanilla, eða vanilludropar
  • salt
  • börkur af einni límónu

Aðferð:

Botn:

  • Setjið möndlur og ristaðar kókosflögur í matvinnsluvél og malið í um 20 sek.

  • Bætið hinum hráefnunum út í og látið matvinnsluvélina ganga þar til deigið festist saman.

  • Leggið smjörpappír í botn og hliðar á hringlaga smelluformi og þrýstið hnetu-döðlublöndunni ofan í.

  • Geymið botninn í kæli meðan fyllingin er útbúin.

Fylling:

  • Setjið öll hráefnin í blender eða matvinnsluvél og blandið þar til silkimjúkt. Gott er að geyma hluta af hlynsýrópinu og límónusafanum og hella varlega út í blenderinn þar til sætt og súrt hefur náð jafnvægi.

  • Hellið fyllingunni yfir botninn.

  • Geymið kökuna í frysti þar til hún stífnar eða í kæli yfir nótt.

  • Eftir að kakan er stífnuð má taka hana úr forminu og skreyta að vild. Ég skreytti kökuna með sneiðum af límónu, ristuðum kókosflögum og rifnum berki af límónu.

Gott að hafa í huga:

  • Medjool döðlum má skipta út fyrir ferskar döðlur eða þurrkaðar döðlur sem eru lagðar í bleyti í 1-2 klst.
  • Hlynsýrópi má skipta út fyrir aðra sætu, t.d. agave sýróp.

2 Comments

  • Hugrún

    01/04/2019 at 6:59 pm

    Hversu stórt smelluform er best ad nota?

    1. Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir

      01/05/2019 at 1:49 pm

      Það sem ég nota vanalega er um 22cm í þvermál en það má vel nota stærra (kakan verður bara aðeins þynnri).

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift