Hummus með grillaðri papriku

Ég gæti lifað á hummus, ég sver það. Hummus er ekki einungis bragðgóður heldur er hann hollur og mettandi. Það er ótrúlega einfalt, ódýrt og fljótlegt að búa til sinn eigin hummus svo ég mæli alltaf með því að útbúa sinn eigin hummus í stað þess að kaupa.

Ég er nú þegar með uppskrift af hefðbundnum hummusgrænkálshummus, rauðrófuhummus og túrmerikhummus á síðunni og sá ekki fyrir mér að fara endilega að bæta í hummusuppskriftirnar. Þessi paprikuhummus er hins vegar svo ótrúlega góður að ég gat einfaldlega ekki sleppt því að deila uppskriftinni. Við fjölskyldan eigum alltaf til stóra krukku af þessum hummus í ísskápnum og notum hann á brauð, salöt, með kexi, á vefjur eða dýfum grænmeti í hann.

Hummus á sér langa sögu en hann er upprunninn í Mið-Austurlöndum og er ýmist notaður sem ídýfa eða smurálegg. Uppistaðan í hummus eru kjúklingabaunir en við þær er blandað tahini (sesamsmjör), hvítlauk, sítrónusafa, salti og ólífuolíu. Hummus er próteinríkur, trefjaríkur og stúfullur af vítamínum og steinefnum (t.d. B-vítamíni og járni).

Hummusinn geymist vel í kæli og er frábært að eiga heimagerðan hummus til að grípa með sér í nesti eða í millimál.

Prenta uppskrift

Hráefni:

  • 1 dós kjúklingabaunir
  • örlítill kjúklingabaunasafi, safinn sem fylgir með í dósinni
  • 1/2-1 grilluð paprika
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 2 msk tahini
  • 1/2 tsk Samal chilimauk, má nota chiliduft eða Cayanne pipar
  • 1 msk sítrónusafi
  • 2-3 msk ólífuolía
  • 1/2 tsk cumin
  • 1/4 tsk paprikukrydd
  • salt og pipar

Aðferð:

  • Skerið paprikuna í stóra bita, berið olíu á þá og grillið í ofni. Þegar þeir hafa brúnast má snúa þeim við og grilla á hinni hliðinni.

  • Sigtið vökvann frá kjúklingabaununum og geymið hann. Skolið baunirnar vel.

  • Merjið eða pressið hvítlaukinn.

  • Blandið öllum hráefnunum saman í matvinnsluvél nema kjúklingabaunasafanum. Bætið loks helmingnum af olíunni og örlitlu af kjúklingabaunasafanum rólega út í til að fá rétta þykkt.

  • Setjið hummusinn í skál og hellið afgangnum af ólífuolíunni yfir. Svo má strá smá cayenne eða chilipipar yfir.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift