Vegan sörur

Sörur eru uppáhaldssmákökurnar mínar og á hverjum jólum baka ég sörur ásamt systur minni. Eftir að ég varð vegan þá var ekkert annað í stöðunni en að læra að baka vegan sörur. Útkoman kemur ótrúlega á óvart og það er sannarlega hægt að gera vegan sörur sem smakkast alveg eins og þessar “gömlu góðu”, ef ekki bara enn betur.

 

Ég hef prófað mig áfram með þessar sörur frá því ég varð vegan og uppskriftin er loksins orðin fullkomin. Í fyrra tókust botnarnir mjög vel en kremið skildi sig örlítið. Ég náði núna að gera botnana eins og í fyrra og fullkomna kremið. Ég er því mjög spennt að deila þessari uppskrift með ykkur.

 

 

 

Trixið í sörubakstri liggur í marengsinum en í stað eggjahvíta notum við vökvann af kjúklingabaunum. Þessi vökvi kallast á ensku aquafaba og fyrir örfáum árum uppgötvaðist að hægt er að stífþeyta hann til að útbúa marengs. Ferlið er örlítið flóknara en með eggjahvítumarengs en það tekur korter að þeyta vökvann og smákökurnar eru í 2 klst í ofninum við 100°C. Í raun er marengsinn þurrkaður en ekki bakaður.

 

 

 

Ég reyndi, eins og vanalega, að hafa uppskriftina eins holla og ég gat – án þess að það kæmi niður á bragðinu. Ég nota því hrásykur sem ég mala í blender í stað flórsykurs. Einnig má prufa sig áfram með t.d. kókossykur, döðlusykur eða gervisætu. Í kremið nota ég blöndu af vegan smjöri og kókosrjóma (þykki hlutinn af kókosmjólk í dós). Kremið er því silkimjúkt og bráðnar í munninum. Ég toppa kökurnar með dökku súkkulaði en vel má nota suðusúkkulaði.

 

Ég er vanalega ekki manneskjan sem lítur á uppskriftir sem heilagar en í þessu tilfelli get ekki mælt nógu mikið með því að fylgja uppskriftinni og tileinka sér þolinmæði (eitthvað sem ég á sjálf mjög erfitt með). Ég ætla ekki að neita því að það er tímafrekt, vandvirknisverk að gera sörur. Með góðri aðstoð, ljúfri jólatónlist og nægu smakki er sörubakstur hins vegar yndislegur hluti af jólaundirbúningnum.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

Prenta uppskrift

Hráefni:

Botnar:

  • 1 dl kjúklingabaunasafi, safinn úr ca. einni dós af kjúklingabaunum
  • 2 dl hrásykur, eða um 2,5 dl flórsykur
  • 1 tsk vínsteinslyftiduft
  • 100-200 g hakkaðar möndlur, eftir smekk

Krem:

  • 150 g vegan smjör, t.d. Smörbar eða Earth Balance
  • 2/3 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn
  • 2/3 dl hrásykur, eða um 1 dl flórsykur
  • 1/2-1 tsk skyndikaffi, eftir smekk
  • 1 msk kakóduft
  • salt, eftir smekk

Hjúpur:

  • 150-200 g dökkt súkkulaði

Aðferð:

Botnar:

  • Kveikið á ofninum og stillið á 100°C blástur.

  • Setjið hrásykurinn í blender (eða kaffikvörn) og malið þar til hann er orðinn að flórsykri.

  • Sigtið kjúklingabaunasafann frá baununum. Ef mikið af safa er í dósinni (1,5 dl eða meira) getur verið sniðugt að sjóða hann í nokkrar mínútur svo hann þykkni og kæla hann svo niður að stofuhita.

  • Hellið safanum í tandurhreina hrærivélarskál og hrærið rólega í 2-3 mín. þar til froða hefur myndast. Bætið þá vínsteinslyftiduftinu út í og aukið hraðann upp í hæstu stillingu.

  • Þeytið nú safann hratt í nokkrar mínútur þar til hann er orðinn léttur, hvítur og nokkuð stífur. Byrjið þá að bæta sykrinum mjög rólega út í hrærivélina, eina skeið í einu. Þolinmæði er algjört lykilatriði hér.

  • Þegar búið er að hræra vökvann í um 15 mínútur í heildina á hann að vera orðinn stífþeyttur og hægt á að vera að hvolfa skálinni án þess að hann hreyfist.

  • Blandið þá möndlukurlinu varlega út í með sleif.

  • Setjið deigið með teskeið á bökunarpappír og búið til litlar kökur.

  • Bakið botnana í 2 klst. við 100°C og leyfið þeim svo að kólna inni í ofninum.

Krem:

  • Kælið kókosmjólkina en þá skilur hún sig og þykki hlutinn situr efst en þunnkenndur vökvi neðst.

  • Einnig á smjörið að vera kalt.

  • Malið hrásykurinn og instant-kaffið í blender (eða kaffikvörn).

  • Setjið öll hráefnin í hrærivél og þeytið þar til kremið er létt og ljóst, þetta getur tekið nokkrar mínútur.

  • Smyrjið kreminu á botnana (eða notið sprautupoka) og dreifið úr því svo það verði eins og hálfkúla í laginu.

  • Setjið kökurnar svo í frysti áður en þær eru hjúpaðar.

Hjúpur:

  • Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði.

  • Leyfið því að kólna örlítið og dýfið svo kremhlutanum af sörunum ofan í súkkulaðið.

  • Geymið sörurnar í kæli eða frysti.

2 Comments

  • Fanný Lísa Hevesi

    05/08/2021 at 7:11 pm

    Hæ hæ, hvernig getur maður komið í veg fyrir að kremið skiljist?
    Með fyrirfram þökk
    Kveðja Fanný

    1. Grænkerar

      06/29/2021 at 3:44 pm

      Sæl, Fanný
      Ég lenti einu sinni í því að kremið skildist og tengdi það við að hafa ekki aðskilið þykka hlutann af kókosmjólkinni nógu vel frá þeim þunna og að hafa notað espressó í stað skyndikaffis (duft). Ég tengi það þannig við vatnsmagn í kreminu sem smjörið nær ekki að blandast við.
      Mig minnir að ég hafi kælt kremið, hellt mesta vatninu af (sem hafði þarna skilist frá hinu) og þeytt aftur.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift