Your Super vörurnar
Ég fékk að prófa tvær vörur, Mellow Yellow og Magic Mushroom, frá merkinu Your Super en þær vörur fást hjá tropic.is. Vörurnar samanstanda af ofurblöndum sem hjálpa fólki að lifa heilbrigðum lífstíl. Hráefnin eru öll lífræn og laus við GMO og glýfosat og er birgðakeðjan 100% gagnsæ svo hægt er að tryggja uppruna hráefnanna. Fyrirtækið leggur mikið upp úr uppruna og gæðum hráefna og eru þau prófuð af þriðja aðila á öllum stigum framleiðslu til að tryggja að blöndurnar innihaldi einungis ofurfæður í hæsta gæðaflokki. Blöndurnar eru að sjálfsögðu vegan en þar að auki eru þær glúteinlausar og án allra sætuefna, bragðefna, fylliefna, rotvarnarefna og annarra aukaefna.
Fyrirtækið var stofnað af parinu Kristel og Michael en Michael fékk krabbamein 24 ára gamall. Í krabbameinsmeðferðinni horfðu þau á myndina Forks over Knives (sem margir Grænkerar kannast eflaust við) og gerðust vegan daginn eftir. Kristel dembdi sér í rannsóknavinnu á ofurfæðum og fór að útbúa blöndur fyrir Michael til að hjálpa honum í gegnum bataferlið. Blöndurnar spurðust fljótt út og úr varð fyrirtækið Your Super.
Mellow Yellow
Blandan Mellow Yellow inniheldur einungis 6 hráefni sem öll eru lífrænt vottaðaðar ofurfæður: Túrmerik, ashwagandha, engifer, kanil, lucuma og svartan pipar. Blöndunni er ætlað að veita róandi áhrif og hjálpa til við nætursvefn. Einnig dregur hún úr streitu, kvíða og bólgum í líkamanum.
Mér finnst Mellow Yellow best í vermandi túrmerik latte eða ískalda gullmjólk (golden milk) með klökum. Einnig mæli ég með að bæta duftinu út í hummus eða nota það í matargerð, svo sem tófúhræru eða gulrótarsúpu.
Magic Mushroom
Blandan Magic Mushroom inniheldur sömuleiðis einungis 6 hráefni sem öll eru lífrænt vottaðar ofurfæður: Kakó, chaga, ashwagandha, reishi, lucuma og kanil. Blöndunni er ætlað að styrkja ónæmiskerfið og minnka stresseinkenni ásamt því að hjálpa til við hvíld og slökun.
Magic Mushroom er í miklu uppáhaldi hjá mér en með því að blanda því saman við heita plöntumjólk má útbúa dásamlegt, heitt ofurkakó (fyrir sælkera skemmir ekki að bæta við örlítilli stevíu eða hlynsýrópi). Ekki aðeins er þetta frábærlega hollt og gott heldur minnkar þetta þörfina fyrir súkkulaði og sætindi. Einnig er blandan dásamleg í súkkulaðismoothie, út á hafragrautinn og í kaffibollann.
Ofurfæðurnar
Túrmerik inniheldur virka efnið Curcumin en það er gríðarlega öflugt andoxunarefni. Mikilvægt er að neyta túrmeriks með svörtum pipar því hann eykur upptöku á curcumin verulega. Túrmerik getur lækkað slæma kólestrólið og komið í veg fyrir blóðtappa. Það getur einnig unnið gegn ýmsum heilasjúkdómum svo sem Alzheimer. Túrmerik er gríðarlega bólgueyðandi en langvarandi bólgur í líkamanum geta verið uppspretta margra sjúkdóma, þar á meðal krabbameins. Túrmerik er því öflugt þegar kemur að því að fyrirbyggja og jafnvel meðhöndla krabbamein.
Engifer er stútfullt af andoxunarefnum og er talið veita vörn gegn krabbameini. Engifer styrkir ónæmiskerfið og er t.d. gott við kvefi og hálsbólgu. Einnig örvar það meltinguna og getur dregið úr bólgum í líkamanum.
Ashwagandha rótin er talin vinna gegn streitu og orkuleysi og hjálpa taugakerfinu að komast í jafnvægi. Rótin er talin styrkja ónæmiskerfið og vinna gegn sýkingum ásamt því að auka frjósemi. Ashwagandha hefur einnig mikið magn andoxunarefna og er sögð hjálpa til við að vinna gegn krabbameini og aukaverkunum meðferðar.
Kanill er ekki bara bragðgóður heldur er hann líka bráðhollur en hann er talinn lækka blóðsykur og vinna gegn bólgum í líkamanum ásamt því að vera stútfullur af andoxunarefnum.
Mörgum kemur á óvart að kakó sé hollt, enda mikilvægt innihaldsefni í mörgum óhollum bakstri og sætindum. Kakó er hins vegar sannkölluð ofurfæða því það inniheldur gríðarlegt magn andoxunarefna. Kakó er einnig gott fyrir hjarta- og æðakerfi ásamt því að minnka streituhormón í líkamanum.
Lucuma ávöxturinn er ekki einungis næringarrík ofurfæða, með mikið magn trefja og steinefna heldur gefur hann sætt og gott bragð. Lucuma duft er því frábær staðgengill sykurs og sætuefna í hvers kyns bakstur, drykki eða matargerð.
Chaga sveppurinn er sagður konungur sveppanna en hann vex á birkitrjám í köldu loftslagi. Sveppurinn er m.a. talinn styrkja ónæmiskerfið, vinna gegn öldrunareinkennum, lækka kólestról og blóðþrýsting og berjast gegn bólgum í líkamanum. Mikilvægt er að “virkja” eiginleika chaga sveppsins en það er t.d. gert með því að hella heitu vatni út á duftið (eða nota það í heitt kakó).
Reishi sveppurinn er aftur á móti kallaður drottning sveppanna en hann er talinn hjálpa til við meðferð gegn krabbameini og vinna gegn aukaverkunum hennar. Sveppurinn er einnig sagður styrkja ónæmiskerfið, styrkja hjarta- og æðakerfi og vinna gegn svefnleysi og stressi.
Þessi færsla er unnin í samstarfi við Tropic.