Þessi uppskrift er með óhefðbundnu sniði þar sem mig langaði að sýna ykkur fjóra rétti úr nokkrum af vegan vörunum frá Ellu Stínu: Aspassúpu með snöggsteiktum aspas, Hollustuborgara með pikkluðum rauðlauk og stökkum kartöflubátum, Tacos með sveppa- og svartbaunabuffi og grænni kóríandersósu og loks döðluköku með karamellukremi.
Þessi færsla snýr því meira að því að sýna samsetningar- og framreiðslumöguleika en inniheldur þó nokkrar litlar uppskriftir sem nýtast vel.
Aspassúpan gæti varla verið einfaldari því hún kemur tilbúin og þarf eingöngu að hita. Mér finnst dásamlega gott að steikja ferskan aspas í nokkrar mínútur á pönnu upp úr ólífuolíu og salti og bæta út í súpuna. Súrdeigsbrauð er síðan fullkomið meðlæti með súpunni.
Hollustuborgararnir innihalda vegan buffið frá Ellu Stínu grófar brauðbollur frá Lífskorn, Ailoi (ég keypti frá Jömm en mæli einnig með að prófa sig áfram með heimagert), ferskt grænmeti og pikklaðan rauðlauk. Ég hef aldrei áður gert pikklaðan rauðlauk en ég hafði miklað það fyrir mér og kom það því skemmtilega á óvart hvað ferlið er ótrúlega einfalt. Ég skrifa það því hér og lofa að það er ótrúlega einfalt að gera pikklaðan rauðlauk og ég legg til að öll prófi!
Borgarana bar ég fram með heimagerðum, stökkum kartöflubátum sem eru fullkomnir með aioli sósunni.
Ég er sérlegur aðdáandi mexíkóskrar matargerðar og dreymir um að fara einn daginn til Mexíkó á matreiðslunámskeið. Áherslan á grænmeti og baunir ásamt kryddum og sítrusávöxtum finnst mér svo heillandi og ef ég er í tímaþröng geri ég oft tacos. Þessi útgáfa af tacos er ótrúlega einföld en virkilega sparileg og kæmi vel út í matarboði (ég elska að hafa matarboð sem einföldust því ég nenni ómögulega að standa sveitt inni í eldhúsi þegar ég get verið að eyða tíma með vinum mínum). Ég nota litlar, mjúkar tacokökur og sveppa svartbaunabuffin frá Ellu Stínu. Ég bjó til fljótlega kóríandersósu og toppaði réttinn með avókadó, salati, pikkluðum rauðlauk og svo sterku mæjónesi. Í þetta sinn keypti ég jalapeno lime mæjó en mæli einnig með þessu heimagerða chili-mæjó.
Við endum með jafn einföldu sniði og við byrjuðum þar sem eftirétturinn þarfnast einskis nema magapláss. Döðlukaka Ellu Stínu er bilað góð og frábær sem eftirréttur, í boðum eða bara til að eiga með kaffibolla dagsins. Kakan kemur með karamellusósu ofan á en svo er hægt að fá sér karamellusósu og bæta ofan á eða til að eiga með ís, berjum eða bara hverju sem er (gerir karamellusósa ekki allt betra?).
Þessi færsla er unnin í samstarfi við Ellu Stínu