Vegan vörur Ellu Stínu

Þessi uppskrift er með óhefðbundnu sniði þar sem mig langaði að sýna ykkur fjóra rétti úr nokkrum af vegan vörunum frá Ellu Stínu: Aspassúpu með snöggsteiktum aspas, Hollustuborgara með pikkluðum rauðlauk og stökkum kartöflubátum, Tacos með sveppa- og svartbaunabuffi og grænni kóríandersósu og loks döðluköku með karamellukremi.

Þessi færsla snýr því meira að því að sýna samsetningar- og framreiðslumöguleika en inniheldur þó nokkrar litlar uppskriftir sem nýtast vel.

Aspassúpan gæti varla verið einfaldari því hún kemur tilbúin og þarf eingöngu að hita. Mér finnst dásamlega gott að steikja ferskan aspas í nokkrar mínútur á pönnu upp úr ólífuolíu og salti og bæta út í súpuna. Súrdeigsbrauð er síðan fullkomið meðlæti með súpunni.

Hollustuborgararnir innihalda vegan buffið frá Ellu Stínu grófar brauðbollur frá Lífskorn, Ailoi (ég keypti frá Jömm en mæli einnig með að prófa sig áfram með heimagert), ferskt grænmeti og pikklaðan rauðlauk. Ég hef aldrei áður gert pikklaðan rauðlauk en ég hafði miklað það fyrir mér og kom það því skemmtilega á óvart hvað ferlið er ótrúlega einfalt. Ég skrifa það því hér og lofa að það er ótrúlega einfalt að gera pikklaðan rauðlauk og ég legg til að öll prófi!

Borgarana bar ég fram með heimagerðum, stökkum kartöflubátum sem eru fullkomnir með aioli sósunni.

Ég er sérlegur aðdáandi mexíkóskrar matargerðar og dreymir um að fara einn daginn til Mexíkó á matreiðslunámskeið. Áherslan á grænmeti og baunir ásamt kryddum og sítrusávöxtum finnst mér svo heillandi og ef ég er í tímaþröng geri ég oft tacos. Þessi útgáfa af tacos er ótrúlega einföld en virkilega sparileg og kæmi vel út í matarboði (ég elska að hafa matarboð sem einföldust því ég nenni ómögulega að standa sveitt inni í eldhúsi þegar ég get verið að eyða tíma með vinum mínum). Ég nota litlar, mjúkar tacokökur og sveppa svartbaunabuffin frá Ellu Stínu. Ég bjó til fljótlega kóríandersósu og toppaði réttinn með avókadó, salati, pikkluðum rauðlauk og svo sterku mæjónesi. Í þetta sinn keypti ég jalapeno lime mæjó en mæli einnig með þessu heimagerða chili-mæjó.

Við endum með jafn einföldu sniði og við byrjuðum þar sem eftirétturinn þarfnast einskis nema magapláss. Döðlukaka Ellu Stínu er bilað góð og frábær sem eftirréttur, í boðum eða bara til að eiga með kaffibolla dagsins. Kakan kemur með karamellusósu ofan á en svo er hægt að fá sér karamellusósu og bæta ofan á eða til að eiga með ís, berjum eða bara hverju sem er (gerir karamellusósa ekki allt betra?).

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Ellu Stínu

Prenta uppskrift

Réttir:

Aspassúpa (fyrir 4):

  • 1 pakki Aspassúpa Ellu Stínu
  • 1 búnt ferskur aspas
  • 2 msk. ólífuolía
  • örlítið flögusalt
  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

Hollustuborgari (fyrir 4):

  • 4 grófar brauðbollur, (1 pakki)
  • 1 pakki Vegan buff Ellu Stínu
  • 1 krukka vegan Aioli, t.d. frá Jömm
  • salat
  • gúrka
  • stór tómatur
  • pikklaður rauðlaukur, sjá uppskrift að neðan
  • ofnbakaðir kartöflubátar, sjá uppskrift að neðan

Tacos (fyrir 4):

  • 8-12 mjúkar tacokökur
  • 1 pakki Sveppa svartbaunabuff Ellu Stínu
  • 2 stór avókadó
  • 1 grænn chili, ferskur
  • 2 lime
  • salat
  • pikklaður rauðlaukur, sjá uppskrift að neðan
  • græn kóríandersósa, sjá uppskrift að neðan

Döðlukaka:

  • 1 stk. Döðlukaka Ellu Stínu
  • Meðlæti eftir smekk, svo sem vegan rjómi, karamellusósa eða fersk ber

Pikklaður rauðlaukur:

  • 2 stk. rauðlaukur
  • 1 dl borðedik
  • 1 dl eplaedik
  • 2 dl vatn
  • 2 msk. hlynsýróp
  • 2-3 tsk. salt

Ofnbakaðir kartöflubátar:

  • 1 kg íslenskar kartöflur
  • 4 msk. ólífuolía
  • 1 tsk. hvítlauksduft
  • 1 tsk. paprikukrydd
  • 1-2 tsk. salt
  • 1 dl. maísmjöl

Græn kóríandersósa:

  • 1 pakki ferskt kóríander
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1/2 dl lime safi
  • 1 tsk. hlynsýróp
  • örlítill ferskur grænn chili, má sleppa
  • 1 dl góð ólífuolía
  • salt eftir smekk

Aðferð:

Aspassúpa:

  • Hitið aspassúpuna í potti við miðlungshita.

  • Skolið ferska aspasinn og brjótið harða endann af.

  • Hitið pönnu að miðlungshita og steikið aspasinn snöggt upp úr ólífuolíu. Saltið og veltið honum reglulega við svo hann brúnist á öllum hliðum en haldist þó örlítið stökkur innst.

  • Berið súpuna fram með vegan sýrðum rjóma (gott er að þynna hann aðeins með vegan mjólk eða matreiðslurjóma), ólífuolíu og steiktum aspas.

Hollustuborgari:

  • Byrjið á því að útbúa pikklaðan rauðlauk (sjá aðferð að neðan).

  • Steikið Vegan buffin á pönnu upp úr örlítilli olíu. Hitið brauðin í ofni eða ofan á brauðrist.

  • Smyrjið brauðin með aioli, setjið ferska grænmetið ofan á ásamt buffunum og pikkluðum rauðlauk. Berið fram með ofnbökuðum kartöflubátum (sjá uppskrift að neðan) og aioli.

Tacos:

  • Steikið Sveppa og svartbaunabuff Ellu Stínu á pönnu, bútið niður í litla bita á pönnunni og steikið áfram.

  • Útbúið græna kóríandersósu á meðan buffin steikjast (sjá uppskrift að neðan).

  • Skerið avókadó í sneiðar og dreifið lime safa yfir og smá salti. Skerið ferska chilipiparinn í þunnar sneiðar (passið að nota hanska eða þvo hendurnar vel á eftir).

  • Þurrristið í lokin tacokökurnar á pönnu og berið allt fram (munið eftir ferska salatinu og sterku mæjó).

Döðlukaka:

  • Berið döðlukökuna fram ásamt meðlæti að eigin vali, svo sem vegan rjóma, karamellusósu, ís eða ferskum berjum. Döðlukakan er góð köld en hana má vel hita í stutta stund, sérstaklega ef bera á fram með ís.

Pikklaður rauðlaukur:

  • Skerið rauðlaukinn í þunnar sneiðar og setjið ofan í krukku.

  • Hitið vatn, edik, hlynsýróp og salt í potti að suðu.

  • Hellið ediksblöndunni yfir rauðlaukinn og leyfið blöndunni að standa. Þegar blandan hefur náð stofuhita, eða eftir um 30-60 mínútur er pikklaði rauðlaukurinn tilbúinn til notkunar. Hann geymist síðan inni í ísskáp í 2-3 vikur.

Ofnbakaðir kartöflubátar:

  • Hitið vatn að suðu í stórum potti og hitið ofninn að 180° blæstri.

  • Skertið kartöflurnar í báta og sjóðið í 10-15 mínútur (fer eftir stærð báta) þannig að kartöflurnar hafi mýkst örlítið en séu alls ekki fullsoðnar.

  • Hellið vatninu af bátunum og setjið þá í stóra skál.

  • Veltið þeim upp úr olíu og kryddum. Bætið loks maísmjölinu út í og dreifið því vel um alla bátana. Það myndar stökka húð utan á bátunum sem gerir þá stökka.

  • Dreifið bátunum á stóra bökunarplötu og bakið í um hálftíma, eða þar til kartöflurnar eru orðnar gullnar að lit, stökkar og bakaðar í gegn.

Græn kóríandersósa:

  • Takið laufin af kóríanderstilkunum og setjið í blandara ásamt hinum hráefnunum, að ólífuolíunni undanskilinni. Stilkana af kóríanderinu er gott að saxa og nota sem ferkst krydd.

  • Hellið loks ólífuolíunni rólega saman við með blandarann í gangi.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift