Dásamlegar vegan súkkulaðitrufflur sem bráðna í munninum. Mér finnst frábært að eiga þessar trufflur til í ísskáp eða frysti til að eiga með kaffinu yfir hátíðirnar eða sem heimagerð jólagjöf fyrir vini og ættingja.
Í uppskriftina nota ég silken tófú sem er sérstök tegund af tófú og gefur trufflunum silkimjúka áferð en einnig hollustu og prótín án þess að það komi niður á bragðinu. Ég notaði 56% súkkulaði í trufflurnar en vel má nota ljósara eða dekkra súkkulaði. Prófið að bæta einu espresso-skoti út í blönduna fyrir dásamlegar súkkulaðitrufflur með kaffibragði.
Ég velti trufflunum upp úr kakódufti en næst langar mig að dýfa þeim í dökkt súkkulaði og toppa þær jafnvel með grófu salti eða hnetumulningi.
Verði ykkur að góðu!