Tandoori Oumph

Nú er Veganúar og eflaust margir sem eru að feta sín fyrstu skref í gerð grænkerafæðis. Í dag má finna vegan rétti á flestum veitingastöðum landsins og matvöruverslanir selja tilbúna skyndibita sem þarf í mesta lagi að skella í ofninn. Það er því sannarlega ekki hægt að segja að það sé vesen að vera vegan. Ég ákvað að leggja mitt af mörkum í þessari þróun og birti hér mína einföldustu uppskrift hingað til – uppskrift sem inniheldur einungis 2 hráefni og bragðast dásamlega.

 

Fyrir stuttu kom ný bragðtegund af sojakjötinu Oumph! í verslanir – Tandoori Oumph. Réttir á borð við Tandoori kjúkling innihalda oftast fátt annað en indversk krydd og jógúrt. Ég ákvað því að nýta forkryddaða Oumphið og marinera það upp úr jógúrt áður en það er grillað. Uppskriftin gæti því varla verið einfaldari.

 

 

 

Ég notaði möndlujógúrt frá Abbot Kinney’s en mér finnst sú tegund passa vel í matargerð. Auk þess hentar stærðin á jógúrtinni vel (400ml) en helmingurinn fer í Tandoori Oumphið og hinn helmingurinn er nýttur í raita. Raita er indversk jógúrtsósa sem inniheldur gúrku og jógúrt. Að neðan er uppskrift að raita, en hún passar virkilega vel með krydduðu Oumphinu. Fyrir þá sem vilja bæta við hráefnum í uppskriftina mæli ég t.d. með að bæta við hlynsýrópi eða sítrónusafa eftir smekk.

 

Myndir eftir Aron Gauta Sigurðarson

 

Prenta uppskrift

Hráefni:

Tandoori Oumph:

  • 1 pakki Tandoori Oumph
  • 2 dl vegan jógúrt, t.d. möndlujógúrtin frá Abbot Kinney's

Raita:

  • 2 dl vegan jógúrt, t.d. möndlujógúrtin frá Abbot Kinney's
  • 2 dl sýrður rjómi, t.d. Oatly
  • 1/2 gúrka
  • 1 hvítlauksrif
  • 2-3 tsk sítrónusafi
  • salt og pipar

Aðferð:

Tandoori Oumph:

  • Takið Tandoori Oumphið úr frysti og leyfið því að þiðna.

  • Blandið saman Oumphinu og jógúrtinni (bætið við sítrónusafa og hlynsýrópi ef vill) og látið marinerast í um klst.

  • Þræðið á grillpinna og grillið við miðlungshita þar til Oumphið hefur brúnast. Einnig má prófa að setja það í álform og grilla þannig.

Raita:

  • Rífið gúrku smátt á rifjárni og reynið að kreista vökvann frá eins vel og hægt er.

  • Pressið hvítlaukinn og blandið síðan öllum hráefnunum saman í skál.

  • Geymið sósuna í kæli þar til hún er borin fram.

Gott að hafa í huga:

  • Fyrir þá sem vilja er gott að setja sítrónusafa og hlynsýróp út í jógúrtina sem Oumphið er marinerað upp úr.

Skildu eftir skilaboð

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fyrri uppskrift Næsta uppskrift